sunnudagur, apríl 27, 2008

Brenndir og barðir - gott á þá!

Stundum þegar ég heyri um „tilefnislaust ofbeldi“ þar sem ráðist er á karlmenn á götum úti dettur mér í hug að þeir hafi nú kannski stundum eitthvað til þess unnið. Nýlega féll dómur í máli þar sem einhver fávitinn hafði verið að káfa á konu á Laugaveginum og vinir hennar réðust á fávitann. Gott hjá þeim. En í fréttum er látið eins og hópur manna sé að ráðast á einhvern varnarlausan sakleysingja.

Í dag var kveikt í bíl og allir fjölmiðlar hlaupa á vettvang. Í einni fréttinni var eigandi bílsins nafngreindur og ákvað ég að gúggla honum ef ske kynni að ég rækist á eitthvað sem staðfesti grun minn um að helvítið hafi átt það skilið.

Úr Mogganum 1992:
„HÉRAÐSDÓMUR Vesturlands dæmdi í gær tvo 19 ára menn, Benjamín Þór Þorgrímsson og Rúnar Hallgrímsson, í 2 ára fangelsi hvorn fyrir að hafa nauðgað 13 ára telpu í húsi á Hellissandi þann 1. maí síðastliðinn.“

Til öryggis skal tekið fram að í þetta hverfi, þar sem bíllinn brann, hef ég ekki komið árum saman. En ég styð heilshugar þessa aðgerð.* Og þar sem nauðgarinn sem á bílinn er svo heimskur að koma fram undir nafni í fjölmiðlum , þá er ekkert sjálfsagðara en benda á fyrri hegðun hans. Mér er skítsama þó það séu liðin fimmtán ár frá því að hann og félagi hans nauðguðu barninu - nauðgari er nauðgari er nauðgari.

--
* Mér er ljóst að miðað við feril þessa náunga, þá tengist bílbruninn frekar öðrum bílbrunum og handrukkarastarfi hans. En kona getur látið sig dreyma.

Efnisorð: ,

laugardagur, apríl 26, 2008

Klámdreifingarpostulinn úr ráðuneytinu

Ég var auðvitað varla búin að fagna áfangasigri þegar kaldur veruleikinn blasti við : Grófu klámefni er dreift á sjónvarpsrásum, sem annarsvegar eru í eigu 365 miðla og hinsvegar Símans.

Frjálshyggjusnúðurinn í forstjórastóli 365 miðla, Ari Edwald - sem tók við áskorunum Stígamóta vegna kynferðisofbeldis fyrir hönd ríkisstjórnarinnar á tröppum Stjórnarráðsins árið 1995 - segir að ákveðið hafi verið að færa sig yfir í gróft klám (en Playboy rásin ku líka vera á vegum 365) til að bæta samkeppnisstöðuna.

Ég endurtek: Grófu klámi er dreift í samkeppnisskyni.

Djöfull er frjálshyggja ógeðsleg. Og klámhundarnir sem aðhyllast hana líka.

Efnisorð: , ,

miðvikudagur, apríl 23, 2008

Dauði klámblaðs

Nú er hún gamla Grýla dauð og gafst hún upp á rólunum.

Hljómar það ekki einhvernveginn svona? Þetta er a.m.k. það sem ég raula þegar eitthvað, sem mér er illa við, leggur upp laupana án nokkurrar eftirsjár af minni hálfu. Þessvegna brast ég í þennan söng þegar ég las á forsíðu Fréttablaðsins að Bleikt og blátt kæmi ekki framar út.

Þegar Bleikt og blátt kom fyrst út var Ingibjörg kynfræðingur* ritstjóri** og útgefandi þess (ef ég man rétt). Ég hélt (eins og eflaust fleiri) að þarna væri komið vandað blað með mikilvægum upplýsingum fyrir almenning og keypti meira segja tvö þrjú tölublöð. En mér varð fljótlega ljóst að myndir voru notaðar til að „skreyta“ blaðið og þær myndir voru ekki af almenningi öllum, heldur ungu grönnu fólki í gagnkynhneigðum athöfnum (kannski voru einhverjar myndir af tveimur konum, ég man það ekki). Blaðið var semsé ekkert skárra en hvert annað sjálfsfróunarefni fyrir karlmenn; semsagt klámblað.

Kynfræðingurinn seldi svo blaðið í hendur annarra og það varð enn klámfengnara. Á tímabili voru íslenskar fyrirsætur á ljósmyndunum og var þá lagður grunnur að íslenskum klámiðnaði enda þarf þá ljósmyndara, förðunarfólk og annað fagfólk að vinna að öllum myndatökum. Sem betur fer virðist sú klámmyndagerð ekki hafa breiðst mikið út hér á landi; líklega á hún í of mikilli samkeppni við klám á netinu, sem varð víst einmitt banabiti Bleikt og blátt.**

Nú verður hægt að versla á bensínstöðvum, í matvörubúðum og bókabúðum án þess að þurfa að horfa uppá einhverjar vesalings konur niðurlægja sig á forsíðu íslensks tímarits. Það er mikið fagnaðarefni.

--
*Eftir því sem tímar liðu áttaði ég mig svo á því að mér er meinilla við kynfræðinga, því allar virðast þær aðhyllast klám. Kannski hef ég bara ekki kynnt mér nógu mikið af efni um eða eftir kynfræðinga, en íslenskar og danskar kynfræðingar virðast allar ráðleggja konum (sem til þeirra leita ásamt maka sínum) sem hafa ekki nógu mikinn áhuga á kynlífi (lesist: karlinn fær ekki nógu oft að ríða að hans mati) að horfa á klámmyndir með maka sínum. Eins og það sé einhver lækning í því fólgin að horfa á niðurlægingu annarra!

** Í Fréttablaðinu voru myndir af flestum ritstjórum blaðsins og nöfn þeirra allra. Ég mun ávallt hafa skömm á öllu því hyski.

***Ekki gleðst ég yfir klámi á netinu en ég get ekki annað en glaðst yfir því að klámmyndaframleiðsla hafi ekki fest hér rætur (þrátt fyrir yfirlýsingar einhvers klámaulans um daginn að hann væri að framleiða slíka mynd).

Efnisorð: ,

föstudagur, apríl 04, 2008

Skilaboðin verða að vera skýr

Enn einn hörmungardómurinn er fallinn. Karlmaður fékk 8 mánaða dóm fyrir að brjótast inn til fyrrverandi kærustu sinnar og berja hana ítrekað; af þessum átta mánuðum þarf hann bara að sitja 3 mánuði í fangelsi en hinir verða á skilorði.

Ég er ein þeirra sem held að fangelsisvist, eins og hún er í dag hér á landi, geri ekki gagn sem betrun.* Menn koma jafnslæmir eða jafnvel verri útúr fangelsum en þeir fara inn, sérstaklega ef þeir vilja ekki horfast í augu við að þeir áttu sjálfir sök á hvernig fyrir þeim er komið. Sálfræðihjálp þyrfti að vera mun meiri í fangelsum í nú er (þá er ég að meina að hver fangi ætti að fara vikulega eða nokkrum sinnum í viku til sálfræðings eða geðlæknis) og vímuefnameðferð ætti að vera í boði á öllum stigum innan fangelsisins; þegar menn koma inn, í miðri afplánuninni og rétt áður en mönnum er sleppt lausum, allt eftir hentugleikum hvers og eins.

Ég held líka að þyngri fangelsisdómar hafi ekki fælingarmátt. Auðvitað eru einhverjir sem myndu ekki fremja glæp ef þeir vissu að við honum lægi 16 ára fangelsisdómur en oftast halda líklega glæpamenn, hvers svo eðlis glæpur þeirra er, að þeir muni komast upp með það sem þeir gerðu eða hreinlega hunsa tilhugsunina um rétt og rangt og finnst þeir megi alveg gera það sem þeir gera. Helsta röksemdin gegn fælingarmætti þyngri dóma er þó fordæmið sem blasir við í Bandaríkjunum; það er ekki eins og þar séu framin færri morð en annarstaðar enda þótt víða sé þar beitt dauðarefsingum.

Samt er ég fylgjandi þyngri dómum í ofbeldis- og kynferðisbrotamálum. Ekki vegna þess að ég haldi að menn komi - við núverandi ástand - betri útúr fangelsinu eða vegna þess að þyngri dómar muni stoppa karlmenn frá því að nauðga og misþyrma konum eða öðrum karlmönnum. Heldur vegna þess að meðan við höfum þannig kerfi að er sá sem hefur framið mesta glæpinn er sá sem situr lengst í fangelsi, þá þarf að sýna í verki hverjir það eru - að mati samfélagsins - sem fremja alvarlegustu glæpina. Nú virðist samfélagið (þingið, einhver hluti kjósenda, löggan, dómarar) líta svo á að alvarlegustu glæpirnir séu fíkniefnabrot, og í samræmi við það hafa dómar þyngst og menn eru jafnvel undir eftirliti um lengri tíma til að reyna að sanna að þeir hafi framið - eða ætli að fremja glæpi. Efnahagsbrot eru líka talin mjög alvarleg. Ríkissaksóknari eyðir árum í að grandskoða ákveðin fyrirtæki og réttarhöld eru æ ofan í æ til að reyna að negla þá sem taldir eru sekir. En líf og heilsa fólks, kvenna, hvernig metur þetta samfélag það? Skilaboðin eru - og þau fást með því að lögreglan sinnir kærum kvenna um ofsóknir, líkamsárásir og nauðganir illa, rannsakar málin í hægagangi, afskrifar þau eða kemur þannig fram við konur að þær gefast upp í miðju kæruferli eða jafnvel leggja ekki í að kæra; að saksóknari sér ekki ástæðu til að fara með nema hluta þeirra mála sem lögreglan þó leggur uppí hendurnar á þeim fyrir dóm; og dómarar (Pétur Guðgeirsson þar einna fremstur í flokki eins og sést hefur á dómum hans í nauðgunarmálum um árabil) fella svo þá úrskurði að ýmist sé nauðgarinn og konuberjarinn alsaklaus (sem lögga og saksóknari hafa áður sagt í fjölda mála sem þá aldrei komast fyrir dómstóla) eða þeir dæma hann til svo stuttrar fangelsisvistar að það er nánast grín, sérstaklega ef tekið er mið af dómum í fíkniefnamálum en ekki síst í ljósi þess að málið sem tekið var fyrir dóm fjallaði um líf, heilsu og kynfrelsi konunnar sem kærði. Skilaboðin eru semsagt; þessu samfélagi er sama um konur, það er í lagi að berja þær og nauðga þeim, niðurlægja þær á allan hátt og ógna lífi þeirra og heilsu.

Þyngri fangelsisdómar í kynferðisbrotamálum og öðrum ofbeldismálum gefa í fyrsta lagi þau skilaboð að líf og heilsa kvenna (og í einhverjum tilvikum karla) sé einhvers virði og í öðru lagi gefa þau þolanda ofbeldisins færi á að ganga um götur um tíma sem frjáls kona áður en hún á von á að rekast á kvalara sinn aftur, en talsverður hluti bataferils fórnarlambsins felst í að yfirvinna óttann og finna til öryggis aftur. Eins og málum er nú háttað geta nauðgarar og aðrir ofbeldismenn haldið áfram að ógna fórnarlömbum sínum eða jafnvel ráðast á þau trekk í trekk (sjá dóminn sem féll í gær og ég vísa í hér að ofan).

Semsagt: ef við ætlum að láta þunga dóma falla í málum sem skipta máli, þá á að þyngja dóma í kynferðisbrotamálum og ofbeldismálum. Alveg burtséð frá því hvaða skoðun við höfum á fangelsismálum yfirleitt. Skilaboðin verða að vera skýr.

--
* Í stað fangelsisvistar held ég að hægt sé að stoppa menn af áður en þeir fremja alvarlega glæpi eða áður en þeir leggja glæpaferil fyrir sig með öðrum ráðum. Ef hver einasti maður sem kærður væri fyrir ofbeldisbrot eða kynferðisbrot - og ég sagði kærður, ekki dæmdur - ef hver einasti fengi tíu tíma að lágmarki hjá sálfræðingi eða geðlækni eða nokkurra vikna námskeið í reiðistjórnun, bara við það að vera kærður, þá held ég að einhverjir þeirra myndu ekki brjóta af sér aftur. Þeir sem fremja annarskonar afbrot fengju líka sálfræðimeðferð eða færu á einhverskonar námskeið þar sem samfélagsvitund þeirra yrði efld. Kannski myndi einhver hluti þeirra ekki heldur brjóta af sér aftur. Svo eru auðvitað alltaf einhverjir sem brjóta af sér hvað sem reynt er að hjálpa þeim, leiðbeina eða refsa, og eru þá líklega siðblindir - en um þá mun ég skrifa bloggfærslu síðar.

Efnisorð: , ,