föstudagur, maí 29, 2009

Framfarir í vondum málum

Söguleg tíðindi: Hæstiréttur dæmdi karlmann í langa fangelsisvist fyrir kynferðisofbeldi.* Dómurinn var sá þyngsti hingað til. Alltof lengi hefur verið miðað við dómafordæmi — að það sé ekki hægt að fella þunga dóma því það séu ekki fordæmi fyrir því að fella þunga dóma — og refsingar við kynferðisbrotum því verið skammarlega litlar. Enn er langt í land með að refsiramminn sé fullnýttur (samkvæmt lögum má dæma í 16 ára fangelsi) en þetta er gríðarstórt skref í rétta átt.

Þá er ekki síðra, sem kemur í ljós þegar dómurinn er lesinn (ekki fyrir viðkvæmar sálir), að dómurinn er svona harður og afdráttarlaus þrátt fyrir eindregna neitun nauðgarans. Fáránlega oft er neitunin látin gilda og látið sem þá sé bara orð (nauðgarans) á móti orði (fórnarlams hans) enda þótt liggi fyrir sálfræðimat ofan á læknismat um ástand fórnarlambsins eftir kynferðisofbeldið sem það var beitt. En hér var semsagt allri slíkri þvælu hafnað og svínið skal dúsa í fangelsi.

Bravó fyrir því og gott á kvikindið.

___
* Þessi tiltekni nauðgari níddist á stjúpdóttur sinni árum saman, allt frá því að hún var fimm ára og fór ofbeldið stigvaxandi. Dómurinn er hér. (Varúð, gæti hrundið af stað óþægilegum hugrenningatengslum.)

Efnisorð: ,

mánudagur, maí 18, 2009

Viljum við eiga nánari samskipti við Tyrki en orðið er?

Fyrir sléttum hálfum mánuði skrifaði ég bloggfærslu sem ég svo eyddi út nokkrum klukkutímum síðar. Ástæðan var sú að mér fannst ég hafa farið yfir eigin mörk um opinberun einkalífs míns. En nú ætla ég að bíta á jaxlinn og endurbirta færsluna (en skafa burt það sem var allra persónulegast) því mér finnst hreinlega að það skipti máli að koma þessum upplýsingum á framfæri.

___

Tyrkland er með okkur í Nató og EES. Því langar mjög í Evrópusambandið.

Þetta voru upplýsingar um stöðu Tyrklands og má sjá samsvörun við Ísland þarna einhverstaðar.

En ég veit að þið nennið ekkert að lesa meira um það.

Í þau ár sem ég hef haldið úti þessu bloggi hef ég forðast mjög að ræða mín einkamál hér. Ég geri ráð fyrir að það megi lesa það milli línanna að ég sé kona (og vonandi fattast að ég er feministi) en meira hefur mér ekki fundist að lesendum komi við. En nú verður gerð undantekning í eitt skipti fyrir öll — og öllu persónulegri gerast yfirlýsingar ekki.

Tyrknesk dömubindi valda útbrotum.*



___
* Díönu dömubindin tyrknesku fást í Krónunni. En ekki kaupa þau, hvorki þar né annarstaðar.

Efnisorð:

sunnudagur, maí 17, 2009

Þjóðarátak í að rífa þetta upp

Það er mikill misskilningur hjá þessum Paul Bennett sem var í Silfri Egils að það eigi ekki að grípa til heildarlausna fyrir íslenskt þjóðlíf. Hann er svosem ekki sá fyrsti til að segja svonalagað, bæði útlendingar og íslenskir föðurlandssvikarar hafa sagt svona áður. En ég vil benda á að það eru bara kommúnistar sem halda þessu fram.* Ég legg til að allir Íslendingar stofni fyrirtæki í sömu atvinnugrein (líka væri frábært ef eitt stórt og vænt útlenskt fyrirtæki fæst til að opna hér útibú).

Við gætum t.d. hafið loðdýraeldi. Minkur er vænlegur þarna. Áferðarfallegur.

Ef það klikkar ættu allir landsmenn að opna videóleigu. Fínn bisness.

Nú og ef það gengur eitthvað brösuglega þá eru sólbaðsstofur frábært atvinnutækifæri fyrir athafnaglaða Íslendinga.

Laxeldi er bara fyrir fólk með ofvaxna gullfiskabúrahneigð en samt ættu allir að stefna þangað líka.

Milli gjaldþrota ættu svo allir sem vettlingi geta valdið að selja Herbalife.

Best af öllu er þó álver. ÁLVER ÁLVER ÁLVER! Ég er viss um að það reddar okkur.

Þeir sem ekki skilja þetta eru kommúnistar. Og þessi gaur** þarna í Silfri Egils afhjúpaði það reyndar alveg með þessu augnlækningaprógrammi sínu. Þar sagði hann eins og ekkert væri að hver borgandi sjúklingur greiddi í raun fyrir aðgerðir tveggja annarra. Spáið í þessu. Ríka fólkið að borga fyrir fátæka skrílinn. Þvílíkur kommi. Púú á hann!

___
* Þetta er viðvarandi væl í Draumalandi Andra Snæs og gott ef Vinstri græn eru ekki jarmandi um þetta sýknt og heilagt líka. Þau vilja ekki einu sinni sjá heildarlausnina í því að ganga í ESB eða svoleiðis moka upp olíunni á Drekasvæðinu - eins og það mun nú gera okkur ríkust!

** Það var hinsvegar óskaplega krúttlegt og eitthvað svo satt það sem hann sagði um að við værum svo fá og hugmyndir ættu svo greiða leið. Mér finnst einmitt líka að við séum öll að vinna að sama markmiði og alltaf sammála um allt. Hér myndi aldrei neinn gagnrýna tillögur annarra eða leiðir sem fólk í öðrum stjórnmálaflokkum vill fara. Við erum svo mikið ein stór krúsí músí fjölskylda.

Efnisorð: , , ,

laugardagur, maí 16, 2009

N-orðið

Það er furðulegt að eftir því sem umræða um kynferðislegt ofbeldi hefur orðið meiri, fleiri konur hafa stigið fram og sagt sögu sína sem þolendur og tölfræðilegar upplýsingar um hve algengt er að konur verði fyrir nauðgun, hefur skilningur almennings á hvað nauðgun er ekkert aukist. Hér á ég fyrst og fremst við skilningsleysi karlmanna. Ranghugmyndir þeirra um nauðganir eru mýmargar og spanna allt frá því að líta svo á kona hafi kona farið einsömul með karlmanni í bíl eða heim til annars hvors þeirra eða hafi verið til í að tala við hann í einrúmi í partýi þá sé hún búin að samþykkja hvað sem er og aldrei sé um nauðgun að ræða, yfir í að konur ljúgi nauðgun uppá saklausa karlmenn vegna þess að þær séu undir slæmum áhrifum frá Femínistafélaginu. Sumir virðast halda að sé konan ekki kýld eða reynt að kyrkja hana í aðdraganda nauðgunarinnar eða meðan á henni stendur sé ekki um nauðgun að ræða og greinilega eru margir á því að ef konan æpir ekki hástöfum NEI — til dæmis vegna þess að hún er of drukkin til að geta tjáð sig (eða hrædd) þá sé það ekki nauðgun.

Svo eru það sumir karlmenn sem halda að nauðgun sé þegar rangt er eftir þeim haft í fjölmiðlum.

Ekki eru þeir skárri sem líta svo á að lag sem oft er spilað í útvarpi eða á skemmtistöðum hafi orðið fyrir nauðgun.

Fórnarlamb nauðgana eru ekki öll eins. Þær — en oftast er um konur að ræða — eiga það nánast eitt sameiginlegt að á þær hefur verið ráðist vegna þess að þær eru konur og það er hægt að beita þær ofbeldi sem beinist að kynfærum þeirra og til þess er oftast notað kynfæri karlmanns eða aðrir hlutir sem líkjast þeim í lögun. Svipting á frelsi, ógnandi látbragð og niðurlægjandi orðbragð eru auk þess vopn nauðgarans. Fórnarlömbin — konurnar — vinna misvel og misfljótt úr þeirri hræðilegu reynslu sem það er að verða fyrir nauðgun. Sumar ná að bæla niður allar tilfinningar og tala aldrei um það sem þær urðu fyrir, en aðrar tala um nauðgunina, hugsa um atburðinn og finna fyrir á margvíslegan hátt. Margvíslegri en tölu verður á komið. Nauðgun hefur gríðarleg áhrif á konur, viðhorf þeirra til sjálfra sín, líkama síns, kynlífs og til þess hvort og þá hvernig körlum er treyst í framtíðinni.

Ég hef hitt konur sem geta ekki sagt orðið „nauðgun,“ svo illa líður þeim þegar þær eru minntar á það sem þær hafa þurft að ganga í gegnum. Þær geta ekki sagt orðið í tengslum við atburðinn eða líðan sína, orðið eitt er sársaukafullt. Sár annarra kvenna ýfast upp í hvert sinn sem þær heyra það sagt eða sjá orðið á prenti (og ég bið þær velvirðingar á hve oft ég skrifa þetta orð, bæði hér og í öðrum bloggfærslum).

Ég get ekki ímyndað mér að þessar konur — frekar en ég — líti á það sem frumlegt og skemmtilegt orðalag að karlmenn tali um að sér hafi verið nauðgað eða sér líði eins og þeim hafi verið nauðgað ef einhver skrifar í blöðin hvernig þeir eru í rúminu (sbr. Friðrik Erlingsson rithöfundur*) eða einhver misskilur hvað þeir sögðu á Facebook (sbr. Sturla Ólafsson sjúkraflutningamaður) eða hvað það nú er sem veldur því að þessum karlmönnum finnst að illa hafi verið komið fram við þá.

Magnað samt að þessum karlmönnum þyki að þetta sé rétta leiðin til að bæta ímynd sína í augum almennings. Ekki finnst mér að það hafi virkað neitt sérstaklega vel. Manngæska og heilindi eru til dæmis ekki það sem mér dettur fyrst í hug þegar þeir tjá sig.

___
* Pressan hafði Friðrik á lista í greininni „Íslenskir elskhugar“ sem birt var 26. maí 1994. Hann skrifaði í sama blað 2. júní þar sem hann notaði n-orðið ítrekað og líkti sér hreinlega við fórnarlömb nauðgunar. Alla tíð síðan hefur mér fundist hann vera fáviti.

Viðbót: Hér er n-orðalagsnotkun gerð að umtalsefni og áhugaverðar umræður í kjölfarið.

Efnisorð: , ,

föstudagur, maí 15, 2009

Vilja þessir kommúnistar ekki bara banna kókakólalestina líka?

Það kætti í mér fjóspúkann að heyra að Ögmundur vill skattleggja sykraða gosdrykki. Nú loga bloggheimar eflaust af fólki sem froðufellir af bræði yfir „forræðishyggjunni“. Ég sá glitta í svoleiðis í athugasemdum við bloggið hjá Páli Ásgeiri, þar æpir einhver snillingurinn „Bönnum bara allt“!

Unaðslegt. Leyfum því að engjast.

Efnisorð: ,

þriðjudagur, maí 12, 2009

Sóley Tómasdóttir talar fyrir mig

Það er með miklum ólíkindum oft að fylgjast með viðbrögðunum þegar Sóley Tómasdóttir tjáir sig. Fúkyrðaflaumurinn sem fylgir í kjölfarið frá kvenhöturum í netheimum verður slíkur að það er varla að ég treysti mér til að lesa athugasemdir við það sem hún skrifar. Henni varð það á að gagnrýna kynjaskiptinguna í ríkisstjórn — eins og ég og fleiri feministar hafa gert — og bara við það eitt að nafn hennar og ljósmynd af henni birtist á Smugunni varð allt vitlaust.* Nú hefur Drífa Snædal risið upp henni til varnar og enn sem komið er (21 athugasemd komin þegar þetta er skrifað) eru athugasemdir kurteislegar og frekar vinsamlegar.**

Ég nenni lítið að ganga í stuttermabolum með áletrunum.*** En ef svo væri þá fengi ég mér þessa áletrun á bol:

ÉG ER SAMMÁLA SÓLEYJU
Í EINU OG ÖLLU

___
* Það er greinilega búið að hreinsa útúr athugasemdakerfinu, enda hroðinn orðinn verulegur. Sumt af því sama má lesa á Eyjunni, þar er engu hent út sýnist mér.
**Þó er þarna strax komin svokölluð „Ragnhildur“ sem einnig hafði skrifað athugasemd við færslu Sóleyjar og þykist vera kona sem vinnur á kvennavinnustað þar sem konur fyrirverða sig fyrir Sóleyju. Ragnhildur þessi virðist halda að karlhatur sé ræktað í Kvennaathvarfinu/Stígamótum og reynir að gera Sóleyju tortryggilega fyrir að eiga móður sem vinnur hjá Stígamótum (en Ragnhildur heldur að hún sé hjá Kvennaathvarfinu). Nokkurnveginn samhljóða texti hefur birst annarstaðar undir nafninu Bottishava og vafalaust víðar undir fleiri nöfnum. Þó ég viti að til séu konur sem eru neikvæðar útí feminista þá efast ég um að kona skrifi þetta. Það eru ekki margar konur sem hatast útí Kvennaathvarfið eða Stígamót.
*** Mér finnst óþarfi að draga þannig athygli að þeim líkamshluta sem ég vil helst að karlmenn séu ekki að glápa á. Afhverju eru áletranir ekki á bakinu?

Efnisorð: , ,

sunnudagur, maí 10, 2009

Langþráð ríkisstjórn

Ég hélt að þegar Samfylkingin og Vinstri græn væru loksins komin saman í varanlega ríkisstjórn þá myndi ég kætast óskaplega. Ég yrði kát yfir því að nú væri komin hrein vinstri stjórn í fyrsta sinn á Íslandi. Ég gæti líka loksins farið að kætast yfir því að hlutfall kvenna er komið í 43% á Alþingi og hefur aldrei verið hærra. En nei. Þá gátu þau ekki hunskast til að hafa kynjahlutfallið jafnt í nýju ríkisstjórninni.* Hnuss barasta.

Æ, það er aldrei hægt að gleðjast yfir neinu hérna.

Legg samt til að þetta verði kölluð tveggja-kötu-stjórnin.

___
*Svo hef ég einhverja óútskýrða fordóma gagnvart Árna Páli. Líst ekkert á að hann verði félagsmálaráðherra. Held hreinlega að Jónas hafi rétt fyrir sér, að þar sé kominn minkur í hænsnakofa.

Efnisorð: , ,

laugardagur, maí 09, 2009

Neytendavitund og fjármálalæsi

Það kom mér ekki á óvart að heyra að fjármálalæsi væri almennt lélegt. En að vissu leyti var það léttir því sjálf er ég nánast ólæs á fjármál (eins og áður hefur verið minnst á) og það var ekki fyrr en eftir bankahrunið sem ég fékk áhuga á að vita eitthvað um hvað sneri upp og niður á fjármálalífinu eins og það gekk fyrir sig. Fram að því var ég í þeirri stöðu sem mér fannst eðlilegt að vera sem vinstrisinni: hafði ekki áhuga á peningum og fannst fáránlegt að velta sér uppúr hvað einhverjir gróðapungar væru að bralla. Get því ekki hreykt mér af því að hafa vitað hvað var í aðsigi, hvað þá varað við því.*

Á mestu gósentíð bankabrasksins voru allir fréttatímar stútfullir af heitum fréttum af Nasdaq og Dow Jones en þær sögðu mér ekki neitt. Mér fannst líklegt að þeir sem hefðu áhuga á stöðunni væru búnir að verða sér útum þessar upplýsingar með öðrum hætti (enda síbreytilegar og staðan klukkan sjö að kvöldi enginn stóridómur) og sá ekki tilganginn í að dæla þessum leiðindum yfir venjulegt fólk. Hvað þá að ég nennti að fylgjast með viðskiptasíðum dagblaðanna, fannst það fyrir annarslagsfólk en mig sem rétt svo veit muninn á virðisaukaskatti og útsvari.

Auðvitað er fullt af fólki sem var ekki í vinnu hjá bönkunum og átti engra hagsmuna að gæta í viðskiptalífinu sem fylgdist samt með (sumt jafnvel vinstrisinnað!) og sá stefnur og strauma í fjármálum og hvernig sveiflur gengis og vísitölur ýmiskonar spiluðu saman. Ég hefði betur haft það fólk mér til fyrirmyndar heldur en einhverja hippa sem sögðu að peningar væru svo óáhugaverðir að þeir kæmu sér ekki við. Það er nefnilega góð regla að fylgjast með því sem óvinurinn er að gera. Það er í raun vítavert kæruleysi af mér að hafa leyft mér að hafa ekki áhuga á þessu, hunsa þetta sem óþarfa og leiðindi.

En ég fékk skyndinámskeið í hagfræði eftir hrunið og þá aðallega við að lesa Silfur Egils. Nú finnst mér samt eins og ég sitji eftir í tossabekknum því þar eins og annarstaðar eru menn farnir að tala sérfræðingamál sín á milli, hættir að útskýra hvað orðin þýða en ryðja uppúr sér upplýsingum sem eflaust liggur á að koma á framfæri. Ég er löngu hætt að skilja neitt og búin að gleyma því sem áður var sagt þegar lykilhugtök voru útskýrð. Auðvitað ætti að kenna fjármálalæsi í skólum en Kastljósmaðurinn hafði rétt fyrir sér þegar hann sagði að blaðamenn mættu hugsa út í lélegt fjármálalæsi þjóðarinnar þegar þeir eru að flytja okkur þær fréttir með öndina í hálsinum að stýrivextir hafi lækkað. Stýrivextir hvað?

Á skandinavísku sjónvarpsstöðvunum eru neytendaþættir reglulega á dagskrá. Ég hef ekki fylgst nógu vel með til að sjá hvort fólki er kennt að skilja eigin fjármál og samfélagsins þar. En ýmiskonar réttindamál neytenda eru þar rædd. Ef slíkir þættir hefðu verið í Sjónvarpinu þá er ég nokkuð viss um að fleiri hefðu áttað sig á hverskonar ógreiða var í raun verið að gera fólki með því að bjóða 100% húsnæðislán og endalaus yfirdráttarlán. Þar hefði almenningur líklega jafnframt lært að það væri ekki skynsamlegt að kaupa allt á VISA raðgreiðslum.** Ekkert okkar hefði getað forðast hrun bankanna sjálfra, en almenningur hefði kannski ekki verið svona skuldsettur fyrir.

Auk fréttaskýringa og almennrar uppfræðslu um fjármál heimila og þjóðhagfræði þá held ég að almenn neytendafræðsla hljóti að vera nauðsynleg hér. Mér veitir allavega ekki af.

__
* Eina skiptið sem mér rataðist satt á munn varðandi nokkuð sem tengdist fjármálum var þegar allir voru að kaupa sér bréf í Decode og þau hækkuðu sífellt í verði. Þá vildi ég ekki vera með (fremur en endranær) og tautaði eitthvað á þá leið að það sem fer upp hlýtur að koma niður aftur.

** Viðbót 12. maí: Ólína hafði líka nefnt þetta hjá sér.

Efnisorð:

miðvikudagur, maí 06, 2009

Bankanum þínum er ennþá sama um þig

Nú er búið að taka af mér ómakið við að skrifa færsluna sem var í uppsiglingu. Ég hef nefnilega verið að láta fara í taugarnar á mér þessar auglýsingar frá Landsbankanum (ekki þó þannig að ég verði reið þegar ég sé þær heldur þannig að ég hlæ háðslega) og Íslandsbanka (sem gerir mig meira pirraða því þar er ég í viðskiptum). Byr auglýsingunum flissa ég geðveikislega að.*

En semsagt, einhver skrifaði bréf og sendi Agli sem birti það hjá sér. Og ég geri það líka:

Eru yfirvöld að gera grín að almenningi og nota til þess íslensku bankana?

1. Íslenskir bankar tapa hrikalegum fjárhæðum af lífeyrissparnaði og almennum sparnaði almennings.
2. Ríkið yfirtekur alla helstu banka landsins og skiptir svo bara um kennitölu á bönkunum.
3. Sparnaður landsmanna er að stórum hluta horfinn úr “nýju” bönkunum..
4. Vegna spákaupmennsku og refskákar bankanna sjálfra og tengdra fyrirtækja eru skuldir almennings hærri en áður.
5. Bankarnir ganga jafn hart ef ekki harðar fram í innheimtu og óbilgirni gagnvart almenningi.

Þetta er staðan á vormánuðum 2009. Og hvað gera þá rikisbankarnir þrír - þessir sem allir vita að verða sameinaðir að stórum hluta?

Jú, RÍKISbankarnir hefja heljarinnar auglýsingastríð, moka milljónum í ímyndaherferðir og gylliboð, rétt eins og október 2008 hafi bara verið slæmur draumur.

Ríkisbankar eru sem sagt að nota OKKAR peninga, í einhverri hallærisbaráttu um hver getur pissað lengst í auglýsingum.

Og hvað er verið að auglýsa?

Landsbankinn fer inn á auglýsingastofu og fær ráðgjöf

Bankinn hefur skaðast svo mikið - enginn treystir yfirmönnum - nú skulum við láta almenna starfsmenn vera andlit bankans.

Tökum nú myndir fyrir nokkrar millur, semjum lag fyrir einhverja hundraðþúsundkalla og keyrum svo birtingar eins og 2007 hafi aldrei liðið.

Apríl og maí - Allir landsmenn fá að vita að Aðalbjörg gengur á fjöll og að Marta fer á skíði. Starfsmennirnir eru sem sagt rosalega venjulegt fólk þótt þau vinni í banka, og við fyrirgefum bankanum alveg að hafa tapað öllum milljónunum okkar, vegna þess að Sólveig tekur á móti mér í Austurstræti og Jón Fannar var í vörninni hjá Grindavík.

Takk Landsbanki! Nú elska ég þig aftur.

Íslandsbanki/Glitnir/Íslandsbanki fer og fær ráðgjöf

Glitnisnafnið er svo jaskað - tökum aftur upp gamla nafnið. Til að verjast gagnrýni á kostnað við að skipta um bréfhaus, þá skulum við prenta límmiða sem eru dýrari en bréfsefnið og láta starfsmenn sitja og líma á pappír. Þá finnst öllum við vera svo ráðdeildarsöm. Fjölmiðlamenn eru hvort eð er svo fattlausir að .þeir spyrja aldrei svona basic spurninga.

Apríl: Fjölmiðlar segja frá því sem sérstakri ráðdeild milljónabirnunnar að vel launaðir starfsmenn sitji og föndri - til að draga athyglina frá peningaustrinum.

Takk Birna, nú fyrirgef ég þér milljónirnar sem þú hafðir af mér og öllum hinum. Ég elska Glitni. Nei, ég meina Íslandsbanka.

Kaupþing fer og fær ráðgjöf

“Hey, ráðum áróðursmeistara sem við köllum “umboðsmann viðskiptavina”. Allir halda að hún sé að passa eitthvað upp á viðskiptavinina en svo skrifar hún bara greinar í blöðin sem eru svona lofrullur um bankanna og starfsmenn hans! ” Þeir (og hinir bankarnir líka) birta auglýsingar þar sem bankinn SJÁLFUR auglýsir og ræður umboðsmanninn og stjórn bankans fer með boðvald yfir starfsmanninum.

18. apríl 2009. Umboðsmaður viðskiptavina Kaupþings skrifar í Mbl. “Stjórnendur bankanna taka á þessu verkefni af fullri alvöru og ábyrgð. Starfsmenn bankanna leggja nótt við dag til að leita þeirra lausna sem best gagnast fyirtækjunum sjálfum, bönkunum og samfélaginu í heild.” Greinilegt að viðskiptavinir eiga hauk í horni þar sem umboðsmaðurinn er og hún er sko ekkert í liði með bankanum.

Takk Kaupþing - nú er ég alveg búinn að gleyma því að Kaupþing drap krónuna með spákaupmennsku og sturtaði íslensku efnahagslífi niður um klósettið í leiðinni með ævintyralegum útlánum til vildarvina.

Ég spyr

Hvað kostar þetta RUGL - og hvaða meðvitundarlausu starfsmenn ríkisins leyfa kennitöluflakkandi bankastofnunum, sem verða brátt lagðar niður í núverandi mynd, að stunda svona fjáraustur úr OKKAR fjárhirslum? Ég krefst þess að ALLAR auglýsingar bankanna verði stöðvaðar þegar í stað og einungis auglýst ef vantar starfsmenn eða ef um lögbundnar meldingar er að ræða. Þessi ímyndar- og þjónustufroða á að hverfa úr öllum miðlum STRAX! Allt annað er móðgun við skuldum hlaðinn almenning.

Viðskiptavinur
Fyrir utan hástafanotkunina þá gæti ég ekki verið Viðskiptavini meira sammála. Ég held reyndar að ímyndarherferð Landsbankans eigi hugsanlega að minna viðskiptavini á að fólkið í afgreiðslu bankanna ber ekki ábyrgð á hruninu og sé bara venjulegir starfsmenn en ekki útrásarvíkingar og fjárglæframenn. Það hefur svosem ekkert þuft að minna mig á það og ég hef engan séð skammast útí starfsfólkið í því útibúi sem ég fer í (sem er reyndar ekki Landsbankinn, kannski er allt í óeirðum þar). Sjálf hef ég enga þörf fyrir að bögga þær ágætu konur sem þar starfa en ég myndi skilja vel ef einhver hellti úr skálum reiði sinnar yfir þær eða aðra blásaklausa starfsmenn. Einhverstaðar verður fólk að fá útrás. Og það er ekki eins og Bjarni Ármannsson standi fyrir máli sínu eða láti ná í sig. Björgólfur eldri** situr ekki í salnum á Landsbankanum í Austurstræti og ræðir Icesave við viðskiptavini þess banka og strákarnir okkar í Kaupþingi eru heldur ekki til viðtals — með eða án varaformanns Sjálfstæðisflokksins.
___
* Í athugasemdum á Silfri Egils koma fram athugasemdir við Byr og fjárhagslegu heilsuna.
** Assgoti er nú bágt að sjá aumingjans karlinn kveinka sér. Alveg voðalega aumur og hræddur um að missa ofan af sér. Og alveg búinn að gleyma að hann er ekki skráður fyrir húsinu sem hann býr í heldur eiginkonan og engar líkur á að húsið verði tekið af henni. Eftir öll þessi ár í eldlínunni ætti Björgólfur að vera búinn að læra að ljúga þannig að það sé ekki hægt að afsanna öll hans orð daginn eftir.

Fyrirsögnina sótti ég til ábendinga anarkista sem enginn botnaði neitt í árið 2007.

Efnisorð:

föstudagur, maí 01, 2009

Þegar kröfuganga verður að sniðgöngu

Í dag rifjaðist upp fyrir mér að það eru tvö ár síðan ég hef borðað Tópas.

Aðrir rifjuðu upp að verkalýðsfélögin voru búin að gleyma tilgangi sínum og vildu bara hopp og hí. Um þetta var auðvitað líka skrifað á Múrinn á sínum tíma. Þar var margt fleira skrifað um verkalýðsmál og málefni verkalýðshreyfingarinnar.

Ég var lengi vel í verkalýðsfélagi sem virtist hafa það að aðalmarkmiði sínu að leigja út sumarbústaði. Yfirmaður þess á þeim tíma var gamall Sjálfstæðismaður og ég hafði alltaf á tilfinningunni að hann hefði verið sendur þangað inn af fyrirtækjaeigendum til að draga tennurnar úr verkalýðnum. Ég var fegin þegar þetta var ekki lengur verkalýðsfélagið „mitt.“ Ekki að önnur verkalýðsfélög hafi endilega verið betri, a.m.k. var formanni ASÍ ekki vel tekið þegar hann hélt ræðu sína í dag. Kannski hefði hann átt að bjóða uppá Tópas?

Efnisorð: ,