sunnudagur, mars 23, 2008

Helgar tíðir og neysluhyggja Satans

Fyrir nokkrum árum lagðist ég í kvefpest mikla sem rændi mig næstum allri lífslöngun. Þó reis ég úr rekkju einn daginn og langaði þessi ósköp í hrökkbrauð, en matarlyst hafði ég ekki haft fram að því. Auk þess vantaði mig tilfinnanlega snýtubréf en nokkrar ekrur af skóglendi Finnlands höfðu verið rýmdar til snýtubréfagerðar mín vegna. Ég klæddi mig því hlýlega og barðist út fyrir veggi heimilisins til að kaupa þessar nauðsynjar. En þegar ég kom að dyrum matvöruverslunar sem ég þóttist vita að væri opin* hafði henni verið lokað skömmu áður með lögregluvaldi enda páskar og bannað að selja neitt meðan óvíst væri hvort Jesú kæmist úr gröfinni.

Í fjölmiðlum mátti svo lengi á eftir heyra biskupsdrusluna grenja yfir kaupæðinu og allri þessari skelfilegu neysluhyggju sem ræki fólk til að vilja versla á páskum. Mikið held ég að hann hefði verið glaður ef hann hefði vitað að þessi ráðstöfun hafi forðað mér frá hrökkbrauðsáti (og öllu öðru áti því ég hafði ekki lyst á neinu öðru og át því ekkert í staðinn) og snýtingum í sérgerðan pappír. Hrifningin er hinsvegar ekki gagnkvæm.

Síðan þá hef ég litið hrökkbrauð og snýtuklúta hornauga enda óviss um hvort þetta séu sendingar frá Satani sjálfum eða bara birtingarmyndir firringar nútímamannsins.

--
* Nú virðist þessi verslun vera opin alla páskana, ef marka má auglýsingar. Þar versla ég þó ekki lengur, sama hvaða krankleikar hrjá mig, sbr. færslu mina um fyrirtæki sem ég sniðgeng. Hefur semsagt ekkert með biskupinn að gera.

Viðbót: Ármann Jakobsson skrifaði um sama efni á Múrinn og gerir sérstaklega að umtalsefni hvernig málið snúi við trúlausu fólki. Þar segir hann að lokunin hafi verið um hvítasunnuna. Það er líklega rétt hjá honum (það eru meiri líkur á að ég hefði áttað mig á að verslanir væru lokaðar um páska. Hvítasunnuna skil ég aldrei og man ekki eftir henni) nema lögreglan hafi lokað versluninni oftar en einu sinni með valdi.

Efnisorð:

laugardagur, mars 08, 2008

Alþjóðlegur baráttudagur kvenna

Hægt miðar í baráttu fyrir jafnrétti í heiminum. Hvergi hefur því alveg verið náð. Norðurlöndin eru sannarlega framarlega í flokki og hefur margt áunnist en þó er gríðarlega langt í land á ýmsum sviðum. Hér, eins og allstaðar annarstaðar í heiminum, eru konur fórnarlömb kynferðisbrota og ofbeldis. Baráttan á Íslandi er margþætt og snýr að kynbundnu ofbeldi, launakjörum, tækifærum til starfa, vali á fólki í forystu (fyrirmyndir barnanna sem eiga að erfa landið), markaðsetningu kvenlíkamans og ýmsu fleira. Öll þessi málefni eru mikilvæg.

Bágar aðstæður kvenna annarstaðar á hnettinum kalla á aðgerðir sem við höfum þegar komið í kring á Norðurlöndum og Vesturlöndum almennt: aðgengi að getnaðarvörnum, kosningaréttur, réttur til að vinna, meðgöngu- og mæðrahjálp og svo má lengi telja. Við getum ekki hætt okkar jafnréttisbaráttu þó þær hafi af ýmsum ástæðum í heimalöndum þeirra setið eftir, vonandi náum við að ryðja brautina fyrir þær líka. En það er ekki þar með sagt að við þurfum að láta allt yfir okkur ganga þangað til öll þjóðríki veita konum full réttindi, ekki frekar en lýðræði er lagt af þar til allar þjóðir taka upp lýðræði.

Mig langar til að nefna nokkur atriði sem vonandi eru til marks um að barátta kvenna á Íslandi sé að bera árangur.


Jafnréttislögin
sem sett voru í febrúar.
Jafnréttisstofa fær loks vald sem verður vonandi til þess að fyrirtæki kveinka sér undan athugasemdum hennar í stað þess að láta sér fátt um finnast. Eins og í fyrri jafnréttislögum er ætlast til þess að fyrirtæki og stofnanir þar sem starfa fleiri en 25 starfsmenn að jafnaði á ársgrundvelli skulu setja sér jafnréttisáætlun eða samþætta jafnréttissjónarmið í starfsmannastefnu sína. Skal þar m.a. sérstaklega kveðið á um markmið og gerð áætlun um hvernig þeim skuli náð til að tryggja starfsmönnum launajafnrétti, að konur jafnt sem karlar geti sótt um störf, að tryggja að konur og karlar njóti sömu möguleika til endurmenntunar, símenntunar og starfsþjálfunar og til að sækja námskeið sem haldin eru til að auka hæfni í starfi eða til undirbúnings fyrir önnur störf. Þetta hafa fyrirtæki hunsað í stórum stíl en nú getur Jafnréttisráð semsagt gengið eftir þessum áætlunum og beitt dagsektum (allt að 50.000 á dag) sé þeim ekki skilað.

Auk þess er sagt í lögunum að við skipun í nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkis og sveitarfélaga skal þess gætt að hlutfall kynjanna sé sem jafnast og ekki minna en 40% þegar um fleiri en þrjá fulltrúa er að ræða. Þetta gildir einnig um stjórnir opinberra hlutafélaga og fyrirtækja sem ríki eða sveitarfélag er aðaleigandi að.*

Hæstiréttur endursendi mál nauðgarans á Hótel Sögu til héraðsdóms Reykjavíkur. Bent var á að ekki væri hægt að sýkna manninn fyrir að hafa ályktað að bláókunnug kona vildi kynlíf með honum bara útaf því að hún tók ekki sérstaklega fram að hún vildi það ekki. Héraðsdómur Reykjavíkur vinsamlega beðinn um að vinna betur vinnuna sína. Vonandi veldur þetta viðhorfsbreytingu þar á bæ og hefur áhrif á dóma í framtíðinni.

Hæstiréttur tók ekki mark á aumingjalegri málsvörn Jóns Ragnarssonar, margfalds nauðgara sem hefur stundað að ganga í skrokk á konum; hann var dæmdur í fimm ára fangelsi. Auðvitað væri betra að hann sæti inni mun lengur, en þetta er samt þungur dómur miðað við aðra dóma sama eðlis.**

Aðrir nauðgarar munu líka sitja inni árum saman: Anthony Lee Bellere var dæmdur í fjögurra ára fangelsi fyrir nauðganir og vörslu barnakláms. Og aftur segi ég: hann hefði átt lengri dóm skilið og sannarlega á að fullnýta refsirammann en fjögur ár er samt helvíti gott, miðað við hvernig dómar hafa verið. Reyndar fengu nauðgararnir tveir á Laugaveginum fimm ár hver – kannski eru dómar að þyngjast, svona smátt og smátt? Anthony Lee Bellere þrætti fyrir allt – að þekkja stelpurnar, hafa hitt þær – en fékk þó þetta þungan dóm, þessir tveir á Laugaveginum reyndu sitthvora aðferðina; annar þóttist ekkert muna vegna áfengisdrykkju en hinn laug uppá fórnarlamb sitt hverri sögunni á fætur annarri.

Einhvern daginn get ég vonandi talið upp fleira; að konur séu jafnmargar körlum í stjórnum, fái sömu laun og sömu tækifæri og að ofbeldi gegn konum þekkist ekki lengur. En þangað til skiptir máli að setja lög og sjá til þess að farið sé eftir þeim. Og þeir sem lengst ganga í að brjóta lög, fái fangelsisdóm.

--
* Þetta er auðvitað skref í rétta átt en ég skil reyndar ekki afhverju 40% voru látin nægja, ef það á að fara fram á jafnrétti þá hefði átt að vera 50%.
** Jón nauðgari Ragnarsson þóttist ekki hafa stjórn á sér vegna heilaskaða, en þó svo hann ætti erfitt með að stjórna skapi sínu af þeim orsökum ætti hann að geta forðast að stofna til sambanda við konur eða vera einn með þeim í íbúð sinni.
*** Ég hirði ekki um að nefna nöfn þeirra, þeir munu ekki vera búsettir hér það sem eftir er, enda útlendingar. Sem gæti reyndar skýrt af hverju þeir fengu þyngri dóm en Jón Ragnarsson og Anthony Bellere.

Efnisorð: , ,

mánudagur, mars 03, 2008

Feluleikur: Finnið hamingjusömu hóruna í þessum tölum

Ég eltist sjaldan við tölfræði. En hér ætla ég samt að setja fram nokkrar tölur um ofbeldi í kynlífsiðnaðinum.

Nokkrar rannsóknir hafa verið gerðar á því hvernig konur og karlmenn í kynlífsiðnaðinum upplifa starf sitt og hvernig þeim líður, andlega og líkamlega. Ég rek hér helstu niðurstöður stórrar rannsóknar sem náði til níu landa og beggja kynja (ég tiltek ekki sérstaklega niðurstöður sem varða fólk sem flokkast sem transgender, en þær eru allar á sama veg).*

Rannsóknin var þannig að talað var við 854 konur og karla (þeir voru aðeins 28 á móti 826 konum, sem ætti ekki að skekkja tölurnar, þannig að ég mun áfram tala um konur) í níu löndum (Kanada, Kólumbíu, Þýskalandi, Mexíkó, Suður-Afríku, Thailandi, Tyrklandi, Bandaríkjunum og Zambíu) og spurt um líkamlegt og kynferðislegt ofbeldi í vændinu og áður en vændi byrjaði.

95% hafði orðið fyrir kynferðislegu áreiti (þ.m.t. stripparar, sem margir halda fram að séu aldrei í snertingu við kúnnann).

95% hafði orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi í æsku.**
70% sögðu að það hefði beinlínis orðið til þess að þær fóru í vændið. Flestar (bandarískar) konur byrja í vændinu 13- 14 ára en meðalaldur allra þátttakenda var 19 þegar vændið byrjaði.

95% hafði orðið fyrir líkamlegu ofbeldi í vændinu.
Í Hollandi höfðu 60% vændikvenna verið beittar ofbeldi.

75% hafði verið nauðgað.
Í Oregon kom í ljós að hverri vændiskonu var nauðgað einu sinni í viku að meðaltali.

75% hafði verið heimilislaus á einhverjum tímapunkti ævi sinnar (sem bendir til að vændi sé stundað vegna fjárhagslegra aðstæðna).

68% voru með einkenni áfallastreituröskunar (PTSD) (til samanburðar var tekið fram að um það bil 51% hermanna sem börðust í Víetnam greindust með áfallastreituröskun).

46% töldu ekki að öryggi þeirra myndi aukast ef vændi væri löglegt. Í Þýskalandi er vændi löglegt en þar sögðu 59% vændiskvennanna að þær teldu sig ekki öruggari fyrir nauðgunum og öðrum árásum.

--
*Þetta er semsé sama rannsóknin og ég vitnaði til í síðustu færslu.
** Ég held að ég hafi stundum notað töluna 90% í skrifum mínum en þessi rannsókn nefnir allt uppí 95% (þessi rannsókn nær ekki yfir fólk sem leikur í klámmyndum en aðrar rannsóknir sýna sömu tölur þar, og eiga þær um bæði kynin), sjálfri finnst mér það litlu skipta, heldur hitt að nánast allar konur í kynlífsiðnaðinum hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi sem börn.

Efnisorð: , , ,