sunnudagur, október 27, 2019

Konur og aðrir feministar hafa haft sig of mikið frammi: Nú skal sótt að þeim með öllum ráðum

Fyrirsögn viðtalsins sem fyrst blasti við á Vísi í morgun benti til krassandi sögu um vonda vinnuveitendur: „Var látin hugleiða í miðju atvinnuviðtali“. En viðtalið við konuna, sem þáði starfið, var reyndar lofsöngur um nýju vinnuveitendur hennar sem framleiða hugleiðsluforrit, auk þess sem nokkuð var tæpt á starfsferli hennar. Viðtalið var ógnarlangt en ég las það til enda (og hugsaði með mér hvort þetta væri kostuð kynning á hugleiðsluforritinu) því ég klára nánast alltaf það sem ég byrja að lesa.

Svo las ég, og það er annar ávani minn, athugasemdirnar.

Og sjá. Þrír karlmenn höfðu þust á staðinn til að býsnast, hneykslast og vera með skítkast.

Aðeins einn þeirra hafði tjáð sig til að gagnrýna hugleiðslu sem slíka „og allt bullið“.

Hinir þoldu ekki viðtalið vegna þess að talað var við konu. Konu í viðskiptalífinu. Konu með kvenlíkama.

Svona hljóma athugasemdir þeirra.

Guðbjörn Guðbjörnsson (hægrimaður sem nýverið fór mikinn vegna stefnu Íslandsbanka í jafnréttismálum og virðist almennt ekki þola feminista)gagnrýndi orð konunnar um að „konur þurfi meira að sanna sig í tæknigeiranum en karlar“ og vildi meina að vegna þess að hún hefur hlotið skjótan frama þá sé þetta augljóslega rangt, og klykkir hæðnislega út með:
„Ég óska Kristínu velfarnaðar við að semja við hrokafulla, kærulausa, lata, illa upplýsta og hyskna miðaldra karlmenn um sölu á rándýrum "afslöppunarútbúnaði" fyrir stressaðar ofurkonur og hægri femínista.“
Einhver hægri maðurinn hefði verið kátur með slíkt langt viðtal um viðskiptalífið þar sem einstaklingur er greinilega að uppskera eins og hann sáir. En Guðbjörn hatar sennilega feminisma of mikið til að geta samglaðst neinni konu sem vogar sér að nefna kynjamisrétti.

En tuðið í Guðbirni er ekkert miðað við Ólaf Eyjólfsson.



„Vagisil stink á þessa.“ Fyrir fólk eins og mig sem skildi ekki sneiðina og þurfti að gúgla, þá er Ólafur að vísa í vörur sem ætlaðar eru til að 'bæta' lykt frá kynfærum kvenna. Hann er að segja að það sé vond lykt af kynfærum konunnar sem viðtalið er við.

Þetta er eitthvað það andstyggilegasta sem ég hef séð lengi úr herbúðum karla sem hata konur.

DJÖFULL GETA KARLMENN VERIÐ ÓGEÐSLEGIR.

Efnisorð: ,

fimmtudagur, október 24, 2019

Þegar kvennafrídagurinn snerist upp í allsherjar útrýmingu á karlmönnum

Kvennafrídagurinn fór næstum framhjá mér að þessu sinni. Hvergi nein dagskrá, mér vitanlega og engin sérstök stemning. Leið svo frameftir degi að mér varð litið á fréttir vefmiðla. Hélt þá sem snöggvast að það hlyti að vera 1. apríl.

Enda þótt ég lúslesi prentaða útgáfu Fréttablaðsins (og fylgist nokkuð vel með á vefútgáfu blaðsins sem og Vísi) þá virðist grein eftir Eddu Hermannsdóttir hafa farið framhjá mér. Ja nema mér hafi ekki fundist líklegt að markaðs- og samskiptastjóri Íslandsbanka myndi segja eitthvað sem skipti verulegu máli. Greinin virðist reyndar hafa verið kynningarefni fyrir bankann, og í þeim skilningi ekki áhugavert, en það sem þar kom fram hefur þó náð að æsa karlpening þjóðarinnar uppúr öllu valdi. Þingmaður og ráðherra (báðir fyrrverandi forsætisráðherrar) býsnast hvor í kapp við annan yfir stefnu bankans, Elliði erkibjáni úr Eyjum hefur sína hefðbundnu karlrembu skoðun og svo eru allir hinir karlskúnkarnir búnir að missa sig líka. Þetta er algjört bíó.

Í greininni benti markaðs- og samskiptastjóri á að það hefðu komið í ljós mótsagnir í stefnu Íslandsbanka.

„Í dag þurfa umhverfismál líkt og jafnréttismál að vera málefni sem eru rædd eins og hver önnur viðskipti inni á borði framkvæmdastjórnar. Þegar fyrirtæki markaðssetja sig eða eiga í samskiptum við viðskiptavini þarf líka að huga að þessum málum svo þetta verði ekki spariorð í samfélagsskýrslum.

Við hjá Íslandsbanka þurftum að fara í gegnum þessa naflaskoðun líkt og öll önnur fyrirtæki og erum byrjuð á þeirri vegferð. En við sáum strax mótsögnina í því sem við vorum að tala um. […] Tölum um jafnrétti af miklum eldmóð en auglýsum bankann hjá fjölmiðlum þar sem fáar sem engar konur fá tækifæri til að komast á dagskrá. Tölum um jafnt kynjahlutfall en kaupum þjónustu af fyrirtækjum eingöngu skipuðum karlmönnum.“
En semsagt, útaf þessari nýju stefnu er æsingurinn:
„við forðumst að kaupa þjónustu af fyrirtækjum sem fylla herbergið aðeins af karlmönnum, […] og við kveðjum auglýsingar hjá fjölmiðlum sem bjóða upp á afgerandi kynjahalla.“

Síðan þá hafa fjölmiðlarnir sem hafa hve mest afgerandi kynjahalla í starfsmannavali hamast við að birta fréttir um þessa ósvinnu. Jakob Bjarnar starfsmaður Vísis skrifar a.m.k. eina þeirra, og reynir ekki, frekar en venjulega, að leyna óbeit sinni á öllu því sem tengist feminisma. Annars eru hér hlekkir á þær sem mér tekst að finna í augnablikinu, mesta púðrið er í athugasemdakerfunum þar sem karlmenn afhjúpa kvenhatur sitt í stórum stíl.

Jakob Bjarnar, Vísi: Íslandsbanki setur viðskiptabann á karllæga fjölmiðla
Kolbeinn Tumi Daðason, Vísi: Út­spil Ís­lands­banka kemur fjár­mála­ráð­herra spánskt fyrir sjónir
Ritstjórn Eyjunnar: Þorsteinn bendir á tvískinnung Bjarna varðandi Íslandsbanka –„ Áhugavert sjónarmið frá fjármálaráðherra“ (Engar athugasemdir við þessa ágætu ábendingu Þorsteins Víglundssonar.)
Heimir Már Pétursson, Vísi: Ekki horft til kynjajafnræðis í inn- og útlánum Íslandsbanka
Ritstjórn DV, Íslenskir karlmenn brjálaðir út í Íslandsbanka – „Þetta er eins og klerkastjórnin í Íran” (Hér má reyndar líka lesa skemmtilegar Twitter-athugasemdir þeirra sem gera grín að brjáluðu karlmönnunum.)
Ritstjórn Eyjunnar, Elliði fordæmir hræsni Íslandsbanka vegna kynjahlutfallsins – „Hér er langt seilst í baráttunni“


Til hamingju með kvennafrídaginn! — Eða bara enn einn daginn þar sem sem karlar hatast opinberlega við tilhugsunina um kvenréttindi.

___
Fyrirsögn bloggfærslu er samin út frá háðsádeilu á Twitter: „
hvar varst ÞÚ daginn sem ÍSLANDSBANKI hóf ÞJÓÐARMORÐ á KARLKYNINU

Efnisorð: , ,

sunnudagur, október 20, 2019

Nýja stjórnarskráin (sem enn hefur ekki verið tekin í gagnið) sjö ára gömul

Sjö ár eru liðin frá því að nýja stjórnarskráin var samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Sjö ár og enn hefur hún ekki verið tekin í gagnið. Þorvaldur Gylfason talar um sjö ára svívirðu, Illugi Jökulsson segir þetta vera sjö ára sviksemi við þjóðina. Jóhanna Sigurðardóttir segir að lýðræðið sé fótum troðið.

Þorvaldur Gylfason rekur söguna svona:
„Þið munið hvað gerðist. Bankamenn, sem voru sumir síðan dæmdir til samtals 88 ára fangavistar, og stjórnmálamenn, sem var öllum hlíft við refsingu, lögðu landið á hliðina 2008. Fólkið reis upp, barði potta og pönnur og heimtaði stórhreingerningu og nýja stjórnarskrá. Alþingi lét undan, lamað af ótta, boðaði til þjóðfundar 2010 og leyfði fólkinu í landinu milliliðalaust að kjósa Stjórnlagaráð sem samdi frumvarp 2011 í samræmi við niðurstöðu þjóðfundarins. Hæstiréttur reyndi að skjóta kosninguna niður en skotið geigaði. Frumvarpið var samþykkt með 67% atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslu 20. október 2012. Þá var það eitt eftir að Alþingi lyki málinu með því að staðfesta frumvarpið fyrir þingkosningarnar 2013 og síðan aftur eftir kosningarnar. Alþingi brást og bisar nú við að semja eigin stjórnarskrá, stjórnarskrá flokkanna og útvegsfyrirtækjanna frekar en stjórnarskrá fólksins. Atgangur Alþingis er svívirðileg atlaga að lýðræðinu í landinu, réttnefnd tilraun til valdaráns.“
Þorvaldur segir ennfremur:
„Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur 2009-2013 ber þunga ábyrgð. Henni bar að neyta þingmeirihlutans sem fyrir lá með undirskriftum 32ja þingmanna til að staðfesta nýju stjórnarskrána vorið 2013 en stjórnin bar ekki gæfu til þess. Eigin flokksmenn keyrðu forsætisráðherrann niður með fulltingi nýrra formanna þv. stjórnarflokka, Árna Páls Árnasonar í Samfylkingu og Katrínar Jakobsdóttur í VG. Óhæfuverk þeirra markaði upphaf þeirrar sjö ára svívirðu sem fólkið í landinu þarf enn að búa við. Gömlu helmingaskiptaflokkarnir snerust báðir gegn þjóðinni þegar mesti óttinn rann af þeim eftir hrun og hafa nú báðir verið klofnir í herðar niður. Hitt er enn lakara að fyrsta meirihlutastjórn lýðveldisins án beggja þessara hermangs- og einkavinavæðingarflokka skyldi bregðast trausti kjósenda þegar svo mikið lá við. Vinstri græn innsigluðu samsekt sína með því að mynda ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki og Framsókn 2017, stjórn sem þykist nú sitja við að semja nýja stjórnarskrá* í stað þeirrar sem 67% kjósenda samþykktu 2012.
Sjónarhorn Jóhönnu Sigurðardóttur:
„Tilraun ríkisstjórnar minnar seinni hluta kjörtímabilsins til að lögfesta þennan nýja samfélagssáttmála sem þjóðin sjálf átti svo mikinn þátt í að skapa, mistókst. Ekki vegna þess að vilja vantaði hjá ríkisstjórninni, heldur vegna heiftúðugrar og óbilgjarnar stjórnarandstöðu, sérstaklega Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Þeir svifust einskis í nær fordæmalausu málþófi og beittu öllum brögðum til að koma í veg fyrir að nýr samfélagssáttmáli, sem samþykktur hafði verið með tveim þriðju hluta greiddra atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslu, næði fram að ganga. Lýðræðið var fótum troðið.

Þjóðin hefur nú verið svikin af stjórnvöldum um þessa nýju stjórnarskrá í sjö ár. Núverandi ríkisstjórn virðist ekki ætla að færa þjóðinni þá heilsteyptu stjórnarskrá sem fólkið bíður enn eftir. Kannski á að samþykkja lítinn hluta hennar á þessu kjörtímabili m.a. um þjóðareign á landi. Hætta er á með Sjálfstæðisflokkinn við stjórnvölinn verði valinn lægsti samnefnari og haldlítið auðlindaákvæði.

Það er ástæða til að þakka Stjórnarskrárfélaginu, undir öflugri forystu Katrínar Oddsdóttur,fyrir skelegga og þrautseiga baráttu við að vinna málinu brautargengi.** Ég er sannfærð um að þjóðin mun ekki líða að stjórnmálamenn taki frá henni það lýðræðislega stórvirki sem þessi einstaki samfélagssáttmáli er, þannig að nýtt Ísland verði að veruleika.“
Illugi Jökulsson leggur áherslu á þátt útgerðarmanna í málinu og bendir á að þingmenn, sem eru ráðnir í vinnu hjá þjóðinni eins og hverjir aðrir vinnumenn til að sjá um daglegan rekstur þjóðarheimilisins, hafi gerst þjónar sægreifanna:
„Vegna ákvæða nýju stjórnarskrárinnar um auðlindir í þjóðareign, gagnsæi, upplýsingu og fleira, þá litu sægreifarnir á hana sem sannkallaða ógæfu.

Og í stað þess að þreyja þolinmóðir hið grimma él af örvum ógæfunnar, sem þeim fannst vera, þá ákváðu sægreifarnir að grípa vopn mót bölsins brimi og knýja það til kyrrðar.

Og sægreifarnir og þjónar þeirra hófu því opinskáa baráttu gegn nýju stjórnarskránni sem þjóðin ætlaði að setja sér.

Það dugði ekki. Þrátt fyrir linnulausan áróður og nærri vitfirringslegt málþóf þjóna sægreifanna á Alþingi samþykktu tveir þriðju hlutar kjósenda í þjóðaratvæðagreiðslunni 2012 að plagg stjórnlagaráðs yrði grundvöllur nýrrar stjórnarskrár. Sérstakri ánægju var lýst með auðlindaákvæðið sem sægreifunum var svo uppsigað við.

Sægreifarnir og þjónar þeirra urðu að skipta um gír. Nú skyldi stinga plagginu niður í skúffu og láta það rykfalla þar.

Og það hefur síðan verið höfuðverkefni allra nýrra þjóna sægreifanna.

Vilji þjóðarinnar skal að engu hafður, vilji sægreifanna skal fá að ráða.“
Fréttir í dag herma svo að Píratar og Samfylkingin ætli sér að leggja fram frumvarp um nýja stjórnarskrá á Alþingi. Frumvarpið mun byggja á vinnu Stjórnlagaráðs, nýju stjórnarskránni frá 2012 og vinnu Alþingis frá 2013. Ekki veit ég hvort það er til bóta, betra færi líklega á því að nota einfaldlega þá stjórnarskrá sem samþykkt var 2012. En þetta hljómar þó betur en útvatnaða stjórnarskráin sem núverandi ríkisstjórn hyggst bjóða uppá — í boði sægreifanna.

Eða eins og Illugi segir:
„Í sögubókum framtíðarinnar munu menn nefnilega furða sig á því af hverju þjóðaratkvæðagreiðslunni var ekki samstundis framfylgt. Hvurslags lýðræði var þetta? verður spurt.“

___
* Í samráðsgátt stjórnvalda má lesa einkar beinskeittar og góðar athugasemdir, sem flestar (allar?) eru á einn veg: Halda sig við þá stjórnarskrá sem valin var 2012, takk.
(Talandi um samráð: Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður VG, skrifaði lofpistil um ríkisstjórnina sína fyrir tveimur dögum undir yfirskriftinni Samráð gegn sundrungu. Óljóst hvort á að hlæja eða gráta yfir lestrinum. Kolbeinn var gestur í Silfrinu í dag og ræddi sérstaklega Sigmund Davíð í sambandi við Panamaskjölin og hve slæmt það hefði verið fyrir orðspor Íslands; benti þá Margrét Tryggvadóttir honum á að sama gilti um Bjarna Benediktsson sem VG hefðu þó farið í ríkisstjórn með.)
** Katrín Oddsdóttir var í stórgóðu viðtali í Silfrinu í tilefni dagsins.
[Viðbót] Morguninn eftir birtist í Fréttablaðinu ágætur pistill eftir Guðmund Steingrímsson: Sagan af stjórnarskránni. Einnig er áhugavert að lesa alþingisræðu Guðmundar um tillögur stjórnlagaráðs í október 2011 þar sem hann rekur feril málsins fram að því.

Efnisorð: , , , ,

miðvikudagur, október 16, 2019

Fjölmiðlar normalísera velgengni bankabófa

Október er hrunmánuðurinn. Í byrjun október fyrir ellefu árum voru fréttamenn á innsoginu, næturfundir, og neyðarlög sett. Nöfn persóna og leikenda sem með einum eða öðrum hætti orsökuðu hrunið voru á allra vörum. Núna yrði sagt um bankabófana að þeir hefðu verið teknir af lífi á samfélagsmiðlum, enda almennt og víðtækt hatur á mönnum sem hirtu lítt um þótt kviknaði í kofanum meðan þeir sköruðu eld að eigin köku.

Auðvitað áttu þeir sér formælendur (oft borgaða almannatengla eða aðstoðarmenn) sem vörðu þá og allar þeirra gjörðir, „bankahrunið kom að utan“ eins og tugmilljarðarnir hafi eitthvað minna horfið ofan í vasa bankabófanna þótt einhverjir skuldabréfavafningar hjá Lehman Brothers hafi hrundið skriðunni af stað.

En allavega. Nú eru ellefu ár liðin. Og ekki ber á öðru en það sé búið að taka ofurríku og ofursnjöllu Íslendingana í sátt. Mikil stemning virðist hafa verið yfir (einhverjum aulalegum)sjónvarpþætti sem Steindi sér um, en þar vann hann það afrek að fá sjálfan Björgúlf Thor til að koma fram í þættinum. Og sá lék á als oddi, auðkýfingurinn sjálfur, rosa skemmtilegur. Ekkert lítill í sér frammi fyrir alþjóð, við hljótum jú öll vera búin að fyrirgefa eigendum Landabankans, og gleyma Icesave.

Markaðurinn, fylgirit Fréttablaðsins, stillti svo Bjarna Ármannssyni á forsíðu og átti við hann opnuviðtal. Hvergi minnst á útrásar- og sjálftökuferil hans hjá Glitni (hann var ekki við stjórnvölinn þegar bankinn fór á hausinn en var sterklega grunaður um innherjaviðskipti), ofurlaunin eða neitt svoleiðis græðgislegt á þeim sjö árum sem hann stjórnaði bankanum, þar til ári fyrir hrun. Við hljótum að gleðjast að hann eins og aðrir eigendur og stjórnendur bankanna sálugu telji sig enn menn meðal manna og viljum endilega að honum sé hampað í fjölmiðlum.

Strákar, þið eruð stórkostlegir, getum við fengið annan umgang?

Efnisorð: , ,