fimmtudagur, október 24, 2019

Þegar kvennafrídagurinn snerist upp í allsherjar útrýmingu á karlmönnum

Kvennafrídagurinn fór næstum framhjá mér að þessu sinni. Hvergi nein dagskrá, mér vitanlega og engin sérstök stemning. Leið svo frameftir degi að mér varð litið á fréttir vefmiðla. Hélt þá sem snöggvast að það hlyti að vera 1. apríl.

Enda þótt ég lúslesi prentaða útgáfu Fréttablaðsins (og fylgist nokkuð vel með á vefútgáfu blaðsins sem og Vísi) þá virðist grein eftir Eddu Hermannsdóttir hafa farið framhjá mér. Ja nema mér hafi ekki fundist líklegt að markaðs- og samskiptastjóri Íslandsbanka myndi segja eitthvað sem skipti verulegu máli. Greinin virðist reyndar hafa verið kynningarefni fyrir bankann, og í þeim skilningi ekki áhugavert, en það sem þar kom fram hefur þó náð að æsa karlpening þjóðarinnar uppúr öllu valdi. Þingmaður og ráðherra (báðir fyrrverandi forsætisráðherrar) býsnast hvor í kapp við annan yfir stefnu bankans, Elliði erkibjáni úr Eyjum hefur sína hefðbundnu karlrembu skoðun og svo eru allir hinir karlskúnkarnir búnir að missa sig líka. Þetta er algjört bíó.

Í greininni benti markaðs- og samskiptastjóri á að það hefðu komið í ljós mótsagnir í stefnu Íslandsbanka.

„Í dag þurfa umhverfismál líkt og jafnréttismál að vera málefni sem eru rædd eins og hver önnur viðskipti inni á borði framkvæmdastjórnar. Þegar fyrirtæki markaðssetja sig eða eiga í samskiptum við viðskiptavini þarf líka að huga að þessum málum svo þetta verði ekki spariorð í samfélagsskýrslum.

Við hjá Íslandsbanka þurftum að fara í gegnum þessa naflaskoðun líkt og öll önnur fyrirtæki og erum byrjuð á þeirri vegferð. En við sáum strax mótsögnina í því sem við vorum að tala um. […] Tölum um jafnrétti af miklum eldmóð en auglýsum bankann hjá fjölmiðlum þar sem fáar sem engar konur fá tækifæri til að komast á dagskrá. Tölum um jafnt kynjahlutfall en kaupum þjónustu af fyrirtækjum eingöngu skipuðum karlmönnum.“
En semsagt, útaf þessari nýju stefnu er æsingurinn:
„við forðumst að kaupa þjónustu af fyrirtækjum sem fylla herbergið aðeins af karlmönnum, […] og við kveðjum auglýsingar hjá fjölmiðlum sem bjóða upp á afgerandi kynjahalla.“

Síðan þá hafa fjölmiðlarnir sem hafa hve mest afgerandi kynjahalla í starfsmannavali hamast við að birta fréttir um þessa ósvinnu. Jakob Bjarnar starfsmaður Vísis skrifar a.m.k. eina þeirra, og reynir ekki, frekar en venjulega, að leyna óbeit sinni á öllu því sem tengist feminisma. Annars eru hér hlekkir á þær sem mér tekst að finna í augnablikinu, mesta púðrið er í athugasemdakerfunum þar sem karlmenn afhjúpa kvenhatur sitt í stórum stíl.

Jakob Bjarnar, Vísi: Íslandsbanki setur viðskiptabann á karllæga fjölmiðla
Kolbeinn Tumi Daðason, Vísi: Út­spil Ís­lands­banka kemur fjár­mála­ráð­herra spánskt fyrir sjónir
Ritstjórn Eyjunnar: Þorsteinn bendir á tvískinnung Bjarna varðandi Íslandsbanka –„ Áhugavert sjónarmið frá fjármálaráðherra“ (Engar athugasemdir við þessa ágætu ábendingu Þorsteins Víglundssonar.)
Heimir Már Pétursson, Vísi: Ekki horft til kynjajafnræðis í inn- og útlánum Íslandsbanka
Ritstjórn DV, Íslenskir karlmenn brjálaðir út í Íslandsbanka – „Þetta er eins og klerkastjórnin í Íran” (Hér má reyndar líka lesa skemmtilegar Twitter-athugasemdir þeirra sem gera grín að brjáluðu karlmönnunum.)
Ritstjórn Eyjunnar, Elliði fordæmir hræsni Íslandsbanka vegna kynjahlutfallsins – „Hér er langt seilst í baráttunni“


Til hamingju með kvennafrídaginn! — Eða bara enn einn daginn þar sem sem karlar hatast opinberlega við tilhugsunina um kvenréttindi.

___
Fyrirsögn bloggfærslu er samin út frá háðsádeilu á Twitter: „
hvar varst ÞÚ daginn sem ÍSLANDSBANKI hóf ÞJÓÐARMORÐ á KARLKYNINU

Efnisorð: , ,