miðvikudagur, ágúst 28, 2019

Stærsti regnskógur jarðar brenndur

Jújú, það væri svosem hægt að segja eitthvað um orkupakkaumræðuna á þingi. Eða Miðflokkinn yfirleitt. Eða Brexit og Boris Johnson. Trump. Svona svo dæmi séu tekin um það sem allir fjölmiðlar eru uppfullir af — skiljanlega.

En síðan fréttir bárust af skógareldum í Amazon — eldum sem eru viljandi kveiktir af því sem best verður lýst sem veruleikafirrtu liði — þá bliknar allt annað í samanburði.

með leyfi og hvatningu frá Bolsanero forseta Brasilíu, sem fyrir sitt leyti er eins og Trump: afregluvæðir af miklum móð og reynir að eyðileggja allar eftirlitsstofnanir. Svo segir hann ýmist að það sé ekkert að brenna, umhverfisverndarsinnar hafi kveikt eldana, umheiminum komi þetta ekki við, Brasilía hafi ekki efni á að berjast við eldana, eða neitar aðstoð því honum finnst Macron hafa móðgað sig.

Veruleikafirrtir leiðtogar vaða uppi í heiminum sem aldrei fyrr. Bolsanaro, Duerte, Erdogan, Orban, Pútín, Trump. Þetta eru ofbeldissinnaðir ofsatrúarmenn; stækir hægrimenn sem hata samkynhneigða, konur og innflytjendur; þjóðernissinnar sem trúa ekki að loftslag á jörðunni sé að breytast af mannavöldum. Menn sem svífast einskis.

Nú virðist einn þeirra ætla upp á eigin spýtur ætla að tortíma lífi á jörðinni. Leyfir eyðileggingu Amazon regnskógarins — heimkynni frumbyggja og ótal dýrategunda — og stendur aðgerðarlaus hjá meðan lungu heimsins brenna.

Manni fallast hendur.


___
[Viðbót, síðar]Fréttaskýring Sigríðar Hagalín Björnsdóttur undir titlinum Baráttan um regnskógana, þar sem segir m.a.: „Eldar loga líka í hitabeltisskógum Afríku, og skógar Súmötru og Borneó brunnu fyrir skömmu. Eyðing skóganna er af mannavöldum, og veldur allt að 17% af árlegri losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum.“ Einnig er rætt um „auðlindastjórnun í skógunum [sem] er flókin og stórpólitísk“.

Efnisorð: , , , , , , , , ,