laugardagur, júlí 13, 2019

Leiðitamur ritstjóri hittir ráðherra í vandræðum

Alveg vissi ég, þegar ég sá forsíðu Fréttablaðsins í morgun, að viðtalið við Þórdísi dómsmálaráðherra* yrði ekki um brottvísun barna eða nauðleitarfólk yfirleitt. Og þegar ég fletti uppá viðtalinu, sem þakti tvær síður, kom auðvitað í ljós að þar var ekki minnst á svoleiðis óþægileg mál. Það var fjallað um stöðuna í Sjálfstæðisflokknum og heilmikið um ferðamál, þ.á m. gjaldþrot WOW, og þriðja orkupakkann.

Jú, eitthvað spyr Ólöf Skaftadóttir ritstjóri Fréttablaðsins um hvernig hafi verið að taka við af Sigríði Andersen en það er leitt strax yfir í innanflokksátökin. Alveg sleppt þessu með að Þórdísi hefur framfylgt sömu stefnu og Sigríður Andersen og vísað fólki af landi brott í hrönnum.

Pantar einhver í ráðuneytinu svona viðtal fyrir ráðherrann? Eða eru það almannatenglar sem sjá um að semja við ritstjóra blaðsins um þægilegt helgarviðtal þar sem þess er gætt að tala ekki um mótmælagöngur gegn stefnu dómsmálaráðuneytis sem Útlendingastofnun fylgir, heldur bara kósí spjall um allt hitt.

Það er aumingjaskapur hjá Þórdísi að fara í svona þægilegt viðtal beint í kjölfarið á háværri gagnrýni almennings á framferði ráðuneytis hennar og undirstofnana. Og þetta er algjörlega glötuð blaðamennska.

____
* Fullt nafn og titill hefði rústað upphafssetningu bloggfærslurnar en er þessi: Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttur, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, ferðamálaráðherra, iðnaðarráðherra, nýsköpunarráðherra og dómsmálaráðherra.

Efnisorð: , , ,