miðvikudagur, júlí 03, 2019

Ómannúðleg framkoma stjórnvalda við börn

Þorsteinn Gunnarsson, sviðstjóri verndarsviðs Útlendingastofnunar er þeirrar skoðunar að það sé forsvaranlegt að senda fólk aftur til Grikklands — þar af börn.
„Talsmaður Rauða krossins segir að börn á flótta séu í jafnvel í verri aðstæðum í Grikklandi eftir að þau hafa hlotið alþjóðlega vernd heldur en á meðan þau eru í hælisferlinu. Hagsmunir barnanna séu ekki hafðir að leiðarljósi í málum afganskra barna sem á að vísa aftur til Grikklands á næstu dögum. Stjórnvöld verði að bregðast við.

„Það er margt sem að bendir til þess að aðstæður þeirra séu síst betri og jafnvel stundum verri heldur en hælisleitenda af því að þegar að hælismeðferð sleppir þá er sú litla og takmarkaða þjónusta sem var í boði ekki lengur til staðar og það er raunveruleiki flestra að þau lenda bara á götunni,“ segir Atli Viðar Thorstensen, sviðsstjóri mannúðarsviðs Rauða Krossins.(Vísir)
En sviðstjórinn hjá Útlendingastofnun telur nóg að ákvarðanir stofnunarinnar séu faglegar og „hlutlausar“:
„Þetta eru erfiðar ákvarðanir sem við erum að taka. Þær snúa að hagsmunum barna. Eðlilega vekja slíkar ákvarðanir viðbrögð. Við leggjum fyrst og fremst áherslu á að vinna þessi mál faglega og vel og á hlutlausan hátt,“ segir Þorsteinn sem hann segir vissulega erfitt.

Ég vorkenni Þorsteini og öðru starfsfólki Útlendingastofnunar ekkert sérstaklega mikið. Þau geta alveg sleppt því að senda börn úr landi. Til Grikklands þar sem erfiðar aðstæður bíða þeirra. Aðstæður sem starfsfólk Útlendingastofnunar myndi eflaust ekki vilja sjá sín börn í.

Alþjóðastofnanir hafa reglulega upplýst um erfiðar aðstæður þeirra um það bil áttatíu þúsund flóttamanna sem nú eru í Grikklandi. Bent hefur verið á takmarkað aðgengi flóttafólks að heilbrigðiskerfinu þar í landi og að aðeins hluti barna í þessum hópi gangi í skóla.

Og hvað með ríkisstjórnina? Þórdísi Kolbrúnu, Katrínu Jakobs, eða Ásmund Einar barnamálaráðherra? Eru þau til í að sjá börn sín í þessum aðstæðum?

Þeir þingmenn Framsóknar, Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna sem láta þetta fram ganga án þess að krefjast stjórnarslita eru samsekir þessari meðferð íslenskra stjórnvalda á börnum.


Efnisorð: , , ,