föstudagur, maí 31, 2019

Dýraníð og önnur fyrirlitleg framkoma sem ýmist er fordæmd eða sögð alvanaleg

Klaustursvín skemmta sér við að tala ógeðslega um konur og minnihlutahópa. Eru teknir upp og almenningi er brugðið. Klaustursvínin segjast þá steinhissa á sjálfum sér, þeir kannist ekki við svona tal. Síðan stígur foringi hópsins fram og segir að svona tal sé alþekkt, hann hafi oft heyrt það. Aðrir þingmenn gera sig heilaga í framan og þykjast aldrei hafa heyrt annað eins.

Sjómenn skera sporðinn af lifandi hákarli og skemmta sér konunglega við athæfið og hæðast að deyjandi dýrinu. Eru teknir upp og almenningi er brugðið. Útgerðin rekur þá, og sjómannafélagið sver af stéttinni þessar misþyrmingar (en finnst reyndar of harkelegt að segja dýraníðingunum upp störfum). Síðan stígur fram kall, sem bæði hefur verið til sjós og verið útgerðarmaður, sem segir aðfarir þokkapiltanna alvanaleg vinnubrögð.

Það er varla vafi á því að til eru karlmenn (og einstaka kona) sem finnst eðlilegt að tala á um samstarfsfólk sitt og meðborgara með þeim hætti sem Klausturdónarnir gerðu. Einnig er nokkuð ljóst að til er fólk, jafnvel karlmenn, sem myndu aldrei tala svona, varla hugsa á þennan hátt og á það jafnt við um þingmenn sem almenning.

Sömuleiðis er örugglega allur gangur á því hverskonar mannskapur velst um borð, en sennilegt má teljast að skipstjóri og eldri áhafnarmeðlimir hafi mikil áhrif á andann um borð og hvaða vinnubrögð eru kennd. Þeir sjómenn sem sýndu fyrirlitningu sína á öðrum dýrategundum í myndbandinu hafa annaðhvort fengið þau skilaboð á starfsferli sínum að svona hegðun væri í lagi, nú eða þá að þeim hefur tekist að fela sinn innri mann mjög vandlega fram að þessu. (Mitt gisk er að þetta sé ekki í fyrsta sinn sem þeir skemmta sér við að kvelja dýr, burtséð frá hvort einhver um borð vissi um hvernig mann þeir höfðu að geyma.)

Viðbrögð útgerðarinnar, að reka þá, eru fagnaðarefni. Hinsvegar virkaði það svoldið eins og það væri til þess að losna við ásakanir um slíkt hafi tíðkast um borð fram að þessu. Svo má ekki gleyma því að sjómannadagurinn er á sunnudag og þetta mál er ekki gott fyrir stéttina — þegar við eigum öll að vera að dást að hetjum hafsins.

En svo steig fram þessi karlvitleysingur sem er semsagt bæði sjómaður og útgerðarmaður og lýsir þetta eðlileg vinnubrögð, og segir að „það er engan veginn stætt á að reka menn fyrir svona lagað“. Hann átelur strákana reyndar fyrir að hafa fíflast en að öðru leyti „en, allt hitt er vel þekkt. Og ég skal standa uppi í hárinu á hvaða sjómanni sem er sem heldur því fram að svona hafi aldrei gerst.“

Þessi maður ætti auðvitað að ganga í Miðflokkinn sem fyrst. Þar er mikill meðbyr fyrir fólk sem gerir illt verra.

Efnisorð: , , ,