mánudagur, apríl 22, 2019

Annar í páskum og þriðji í orkupakkanum


Loksins hef ég safnað nægilegri orku til að ræða þriðja orkupakkann. Ég hef lesið allt sem að kjafti kemur um þetta skyndilega-umdeilda mál, og ekki síst þótti mér upplýsandi þegar reynt var að greina hversvegna málið varð skyndilega svona umdeilt. Upphafsmenn æsingsins voru, að mér skilst, Miðflokksmenn en þó innleiddi ríkisstjórn SDG reglur úr þriðja orkupakkanum.
„Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Frosti Sigurjónsson greiddu báðir atkvæði með fyrsta frumvarpinu sem fól í sér innleiðingu á reglum þriðja orkupakkans. Þá greiddu þeir atkvæði gegn tillögu um að orðasambandið „raforkuflutning til annarra landa“ yrði fellt brott.“ (Stundin)
Og, eins og bent var á í athugasemdakerfi einhverstaðar og frétt Viðskiptablaðsins staðfestir: „Sigmundur Davíð er eini íslenski stjórnmálamaðurinn sem hefur farið í formlegar viðræður við Breta um lagningu sæstrengs.“

Það blasir semsé við að Sigmundur Davíð og co eru ekki af heilindum að hamast gegn þriðja orkupakkanum heldur vegna þess að A) þeir hafa verið einkar óvinsælir síðan kvöldið á Klausturbar og þurftu að beina sjónum annað, B) það hefur sýnt sig t.d. með Brexit og kjöri Trump að það er líklegt til fylgis að ala á ótta við alþjóðasamstarf og alþjóðastofnanir.

Um þetta má lesa t.d. í ágætum/umdeildum pistli Þórlinds Kjartanssonar og hjá Guðmundi Steingrímssyni sem orðaði þetta svona:
„Einangrunarsinnarnir sjá hér tækifæri til að stuðla að útgöngu Íslands úr EES, jafnvel EFTA. Stóri draumurinn er að skapa sérstakt ís-exit.“
Ekki ætla ég mér að gera mikla greiningu á orkupakka I, II eða III en bendi á að hér hefur verið svarað helstu gagnrýni/áhyggjuröddum um hvað er á ferð og hvernig það hefur (ekki) áhrif hér á landi.

Þótt mér hafi fundist moldviðri andstæðinga þriðja orkupakkans hálf hlægilegt — en um leið pirrandi að sjá að þeir geti yfirtekið umræðu þings og þjóðar rétt sisvona — þá voru atriði í málflutningi þeirra sem vilja innleiða orkupakkann sem stóðu í mér. Andstæðingar 3ja orkupakkans láta eins og ESB sé umþaðbil að leggja hingað sæstreng til að ræna af okkur orkunni. En mótrökin eru semsé þessi:
„Ákvörðunarvald um raforkustrengi milli Íslands og innri raforkumarkaðar ESB liggur alfarið hjá íslenskum stjórnvöldum. Það er alveg ljóst að hann verður ekki lagður án aðkomu Alþingis og Ísland verður áfram án sæstrengs nema Alþingi ákveði annað.“ (Vísir)
Á þetta semsagt að róa mann? Alþingi hefur tekið of margar vondar ákvarðanir — þar af óafturkræfar eins og Kárahnjúkavirkjun — og nú síðast að samþykkja skipan dómara í Landsrétt — til að þetta séu góðar fréttir.

Ég er alfarið á móti lagningu sæstrengs, ekki vegna þess að ég sjái eftir rafmagni til útlendinga heldur vegna þess að rafmagnið í sæstrenginn kæmi úr vatnsaflsvirkjunum á Íslandi — og þeim yrði að fjölga verulega. (Andstæðingar þriðja orkupakkans eru reyndar þeir sem eru hvað mest fylgjandi virkjanaframkvæmdum svo það atriði ætti ekki að standa í þeim en sýnir um leið hræsnina að berjast á móti þessu.) En semsagt verði sæstrengur lagður er það vegna þess að Alþingi ákveður það. Sú sviðsmynd er meira en lítið líkleg, og gerist líklega fyrr eða síðar, hver svo sem verður í stjórn (ekki yrði umhverfisvæni græni flokkurinn sem nú situr í ríkisstjórn nein fyrirstaða). Mér þykir hinsvegar erfitt að taka afstöðu gegn þriðja orkupakkanum, svona í ljósi þess hverjir leiða þá umræðu. Einhverjir þeirra sem skipast þar í hóp eru þó kannski þar vegna áhyggna af stórauknum virkjanaframkvæmdum fremur en vegna andstöðu við erlenda samvinnu.

En hvað er ég að rausa, það er búið að segja þetta allt fyrir mig. Í nýjasta tölublaði Stundarinnar skrifar Þóra Kristín Ásgeirsdóttir pistil sem er eins og talaður útúr mínu hjarta.
„… Nú hafa rasistar og landráðamenn fundið bein sem báðir vilja naga, nefnilega orkupakka 3. Annar helmingurinn á pantað far til helvítis ef hann verður samþykktur en hinn ef hann verður ekki samþykktur.

… Þar haldast hönd í hönd menn sem hafa málefnalegar áhyggjur af einkavæðingu og markaðsbraski með orku, náttúruverndarsinnar og þeir sem hafa hæst og skeyta ekkert um náttúruvernd og eru almennt á móti því að orkufyrirtækin séu í samfélagslegri eigu en telja það óskoraðan fæðingarrétt íslenskra auðmanna að einoka, kúga og græða á samborgurum sínum og allt annað séu landráð.

Eitt voru rasistar og landráðamenn þó að mestu sammála um. Það var að svíkja íslensku þjóðina um nýju stjórnarskrána sem hún ákvað að setja eftir hrun, þar átti meðal annars að tryggja sameign okkar á auðlindunum.

Landráðamennirnir eru meira hip og kúl en rasistarnir, þeir hafa sér helgisvip frjálslyndis og tala til okkar í sama yfirlætistón og þegar HS Orka var einkavædd og síðar seld erlendum auðmanni í gegnum skúffufyrirtæki í Svíþjóð. Þá var því haldið fram að áhyggjur af eignarhaldinu væri fjandskapur í garð útlendinga og þjóðernishyggja. Þeir benda stöðugt á að orkupakki 3 sé meinlaus og feli ekki í sér sæstreng sem tengi okkur við orkumarkað Evrópu og stórhækki verðið til neytenda hér. Alþingi ætlar jú að hafa fyrirvara við þann hluta samningsins sem kveður á um að hver sem er, hérlendis eða erlendis, geti lagt sæstreng frá Íslandi og braskað með orkuna.

Samt viðurkenna þeir að þeim finnist sæstrengur mjög sniðug hugmynd og það ætti að leggja hann strax. Við hin botnum ekki í því hvaðan orkan í slíkan streng á að koma, hún er að miklu leyti bundin í stóriðju langt inn í framtíðina. Til að slíkur strengur yrði hagkvæmur þyrfti að ráðast í virkjunarframkvæmdir sem engin sátt er um og þar eru margir þegar búnir að raða sér á jötuna.

Við vitum hins vegar af biturri reynslu að Alþingi verður engin fyrirstaða þegar upp er staðið.

Það er erfitt að velja hvorum hópnum maður vill helst verða samferða til helvítis.“

Þetta er augljóslega ekki allur pistillinn, hann má lesa hér.

___
Pistlar sem vitnað var í hér að ofan sem og annað sem vert er að lesa:

Algengar fullyrðingar um þriðja orkupakkkann og svör við þeim úr þingskjölum og lögfræðiálitum, 10.4.2019, Vísir.

Aðalheiður Ámundadóttir (frétt), „Segir umræðuna of sjálfhverfa“ 9.4.2019, Vísir.

Atli Fannar, örskýring í Vikunni með Gísla Marteini.

Guðmundur Andri Thorsson, „ÍSEXIT?“ 9.4.2019, Vísir/Fréttablaðið.

Guðmundur Steingrímsson, „Síðasta öskrið“ 15.4.2019, Vísir/Fréttablaðið.

Jóhann Páll Jóhannsson, „Ríkisstjórn Sigmundar Davíðs innleiddi reglur úr þriðja orkupakkanum áður en EES-nefndin samþykkti þær“, 18.4.2019, Stundin.

Jóhann K. Jóhannsson (viðtal), „Segir logið upp á Þriðja orkupakkann“ 22.4.2019, Vísir.

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, „Að eyðileggja málstað“ 18.4.2019, Stundin.

Þórður Snær Júlíusson, „Stjórnmál óttans“ 9.4.2019, Kjarninn.

Þórður Snær Júlíusson, „Tölum um þriðja orkupakkann“ 17.4.2019, Kjarninn.

Þórlindur Kjartansson, „Hvernig gat þetta gerst?“ 12.4.2019, Vísir.

(Frétt),„Sigmundur og Cameron stofna starfshóp um sæstreng“ 29.10.2015, Viðskiptablaðið.

Þorvarður Hjaltason (í athugasemd við frétt eða grein) benti á frétt Viðskiptablaðsins og sagði:
„Sigmundur Davíð er eini íslenski stjórnmálamaðurinn sem hefur farið í formlegar viðræður við Breta um lagningu sæstrengs. Það sýnir ágætlega tvískinnunginn í málflutningi hans.“

Efnisorð: , ,