mánudagur, febrúar 18, 2019

Fréttablaðið, enn að taka afstöðu með fjármagninu, ekkert nýtt hér á ferð

Það voru fleiri en Gunnar Smári sem fnæstu þegar forsíða Fréttablaðs dagsins blasti við. Ég hafði þó engar forsendur til að vita hvort fyrirsögnin Brestur í blokkinni? ætti við rök að styðjast, þ.e. hvort samstaða Eflingar, VR og Verkalýðsfélag Akraness væri að gliðna. En mér fannst fréttin, fyrirsögnin, myndauppstillingin og að þetta var nánast eina efni forsíðunnar ekki endilega vera líklegt til að vera sönn frétt heldur líklega tilraun blaðsins til að reka fleyg milli félaganna. Einsog Gunnar Smári bendir á hefur ritstjórn blaðsins hamast gegn lífskjarabaráttu stéttarfélaganna undanfarna mánuði. Hann talar um „sextíu leiðara Fréttablaðsins gegn kröfugerð verkalýðshreyfingarinnar,“ og þótt ég sé ekki fullviss um þá tölu þá eru þeir sannarlega orðnir allmargir.* Þeir eru allir á þá leið að verði farið að kröfum verkalýðshreyfingarinnar fari hér allt til helvítis.

Áður hefur hér verið tekið saman á blogginu hvernig Fréttablaðið hefur legið í vörn fyrir hrunvalda og aðra fjárglæframenn. Eigendur blaðsins eru auðvitað þau Ingibjörg Pálmadóttir (einsgott að gleyma henni ekki) og Jón Ásgeir Jóhannesson og hafa notið góðs af þessari stefnu blaðsins. En auðvitað hafa þau ráðið fólk í vinnu sem aðhyllist fjármálabraskfólk umfram almenning og hvað þá eitthvað láglaunalið. Eins og endurspeglast í leiðurunum.

Einnig hefur verið bent á hér hvernig blaðið hefur verið notað til að hampa Sigurði syni Ingibjargar sem stofnaði íþróttaverslun (alveg án hjálpar frá mömmu, ég lofa) og það var síðast bara núna um helgina sem á blaðsíðu 2 í blaðinu var viðtal við hann Sigurð Pálma, sem nú er að opna verslun þar sem Bónus var (Bónus sem stjúpi hans og fjölskylda áttu; það er samt enginn peningur að koma úr þeirri átt til að stofna þessa verslu, alveg satt) en þessi búð á að vera mjög kósí, svona kaupmaðurinn á horninu.** Það er líka bara mjög kósí hvað Sigurður Pálmi fær að tjá sig í blaðinu hennar mömmu sín, án þess að það sé eitthvað verið að taka fram að mamma hans eigi blaðið. Að benda á tengsl umfjöllunarefnis og eigenda blaðsins myndi bara rugla fólk í ríminu og það færi kannski að halda að blaðið sé notað miskunnarlaust til að hampa eigendum sínum. Það getur nú varla verið, jafnvel þótt Stundin þykist hafa séð að Ingibjörg hafi verið í viðtali í Fréttablaðinu nýlega og Jón Ásgeir líka fengið viðtal við sig um stjórnarkjörið í Högum.

Hagmunabarátta eigendanna hefur reynar undanfarið verið mjög áberandi á síðum blaðsins. Jóni Ásgeiri þyrsti í að stjórna Högum aftur (ætli hann hafi verið á Kútter Haraldi?) en fékk ekki að taka sæti í stjórninni. Margir dálksentimetrar í Fréttablaðinu, en þó aðallega Markaðnum, voru lagðir undir baráttu blaðaeigandans (eða eiginmanns eigandans) fyrir þessu hagsmunamáli sínu.

Einhver hefði haldið að þau hjónin Ingibjörg og Jón Ásgeir hefðu orðið kát þegar þau heyrðu að fyrirhugað frumvarp myndi dæla peningum í fjölmiðla þeirra. En nei, mikið vill meir (50 milljónir að hámarki á ári eru auðvitað bara smápeningar fyrir svona fólk). Miklu heldur vilja þau að „einum milljarði, af þeim 4,7 milljörðum sem áætlaðir eru á fjárlögum til RÚV, verði endurúthlutað til einkamiðlanna og gerð sparnaðarkrafa á RÚV á móti“.*** Hér er nú feitara á stykkinu! Fyrirsögnin með fréttinni í Fréttablaðinu er enda: Umsvif RÚV er stóra vandamálið. En eitthvað virðist samt þvælast fyrir þeim Fréttablaðseigendum að litlir fjölmiðlar eigi að fá ríksstyrkinn því þau leggja til það sé sett sem skilyrði að starfsmenn ritstjórnar verði að lágmarki tuttugu til að fá styrk: slíkt lágmark myndi drepa Kjarnann og Stundina.**** En það væri auðvitað gott að losna við þá fjölmiðla, ekki bara samkeppninnar vegna heldur eru þetta alltof gagnrýnir fjölmiðlar, tala illa um fólk sem á pjening í skattaskjólum og eru alltaf með allskonar afhjúpanir á svindlibraski í fortíð og samtíð. Hver nennir svosem enn að lesa um hvernig Glitnir banki var skafinn að innan af eigendum sínum?

Ég ætla hinsvegar að fara þvert gegn hvatningu Gunnars Smára: ég ætla að halda áfram að lesa Fréttablaðið. Það verður einhver að hafa auga með hvað þetta lið er að brasa.

___
*Hér eru nokkrir Fréttablaðsleiðarar eftir Hörð Ægisson: „Ganga verður út frá því að allir aðilar vinnumarkaðarins sýni skynsemi og ábyrgð í komandi kjaraviðræðum með það helst að markmiði að verja þann mikla lífskjarabata sem áunnist hefur síðustu ár. Fáir munu hins vegar þora að veðja á það“ (1). „Forystumenn helstu verkalýðsfélaga landsins, sem öllum má nú vera ljóst að eru stærsta ógnin gagnvart lífskjörum meginþorra íslensks launafólks á komandi árum (2).„Kjarasamningar um innstæðulausar tugprósenta launahækkanir, sem hefðu þær fyrirsjáanlegu afleiðingar að viðskiptaafgangurinn myndi snúast í halla innan fárra ára, gætu hins vegar ógnað þessari stöðu. Það er því alls ekki útilokað að okkur takist að klúðra þessu“ (3). „Hin nýja róttæka verkalýðshreyfing, sem verður tíðrætt um að allir aðrir en þau eigi að sýna auðmýkt, mætti stundum hafa það hugfast að þau hafa ekkert tilkall til að telja sig vera þess umkomin að boða hinn eina rétta sannleika“ (4).
Kristín Þorsteinsdóttir skrifar í október á síðasta ári um málsókn gegn Jóni Ásgeiri og hnýtir í sérstakan í leiðinni.

** [Viðbót, síðar] Nokkrum dögum eftir að þennan bloggpistil birti Fréttablaðið aftur stórt viðtal við Sigurð son eigandans. Það hlýtur að vera einhverskonar met.

*** Mogginn vill að vefsíðu RÚV verði lokað. Ætli Hallur Hallsson hafi komið með þessa hugmynd?

**** Aðrir eru svo aftur á móti sárir yfir að það sé yfirhöfuð sett nokkuð skilyrði til að mega fá styrk, og barmar eins-áhugamáls-vefurinn Fótbolti.net sér verulega yfir því.

Efnisorð: , , ,