laugardagur, mars 03, 2018

Ólík vinnubrögð fjölmiðla

Ritstjórn Stundarinnar fékk blaðamannaverðlaun ársins fyrir umfjöllun um uppreist æru og ljósmyndari Stundarinnar var verðlaunaður fyrir myndaröð ársins af samfélagi heimilislausra í Laugardalnum og portrait mynd ársins.

Svo segir á vefsíðu Stundarinnar í dag. Það er auðvitað fullt tilefni til að óska Stundinni til hamingju með verðlaunin, en það er þó ekki tilefni bloggfærslunnar að þessu sinni. Heldur litla klausan neðst við fréttina:
Fyrirvari við umfjöllun: Stundin fjallar hér um atburði þar sem fjölmiðillinn sjálfur er viðfangsefni.
Þetta hlýtur eiginlega að vera skrifað í hálfkæringi og sigurvímu, því varla getur þetta atriði hafa farið framhjá lesendum.

Nema hér sé verið að fylgja ágætri vinnureglu út í æsar.

Svipaða klausu má lesa nefnilega neðan við úttekt Stundarinnar á því hvort tilefni sé til þess að framfylgja þingsályktunartillögu frá 2012 um rannsókn á einkavæðingu bankanna. Þar er talað við Tryggva Gunnarsson, umboðsmann Alþingis, og Finn Þór Vilhjálmsson lögfræðing, sem starfaði bæði með rannsóknarnefnd Alþingis um bankahrunið og rannsóknarnefndinni um þátt þýska bankans Hauck & Aufhäuser í kaupum á hlut ríkisins í Búnaðarbankanum árið 2003.

Í lok greinarinnar stendur:
Fyrirvari: Finnur Þór Vilhjálmsson, sem hér er vitnað í, er bróðir Inga Freys Vilhjálmssonar, blaðamanns á Stundinni.
Víkur þá sögunni að leiðarar leiðara sem birtist fyrir nokkrum dögum í Fréttablaðinu eftir Kristínu Þorsteinsdóttur. (Bloggið hefur áður birt úttekt á leiðaraskrifum Kristínar.) Pistill þessi er um væntanlegar breytingar á smásölumarkaði vegna þess að stórfyrirtæki í verslunarrekstri vilja eignast/sameinast fyrirtækjum á eldsneytismarkaði. Þannig vilja Hagar (sem þegar eiga Hagkaup, Bónus og Útilíf) sameinast Olís. Í leiðaranum talar Kristín um örmarkað, takmarkaða stærðarhagkvæmni, háan flutningskostnað til Íslands, og vaxtakostnað:
„Það skýrir meðal annars að vöruverð er eins hátt á Íslandi og raunin er.“
Svo eru það erlendu keppinautarnir (netverslun) og Costco, segir Kristín.
„Af þessum sökum er auðvelt að færa rök fyrir því að Samkeppniseftirlitið eigi að heimila innlendum fyrirtækjum sem eru í harðri samkeppni við þá erlendu að sameinast.“
Og svona ræðir Kristín þetta alltsaman án þess að minnast á nokkurn hátt á þá smávægilegu staðreynd að Ingibjörg Pálmadóttir og Jón Ásgeir Jóhannesson eiga helling í Högum (870 milljónir við síðustu talningu), þessu fyrirtæki sem Kristín eyðir heilum leiðara í að rökstyðja að Samkeppniseftirlitinu eigi barasta alveg endilega að leyfa að stækka meira og afla enn meiri fjár fyrir eigendur sína. Sem eru líka eigendur Fréttablaðsins og vinnuveitendur Kristínar Þorsteinsdóttur.

Vinnubrögð Stundarinnar við að skýra frá tengslum sínum við umfjöllunarefnið eru til fyrirmyndar. Um vinnubrögð Kristínar verða að þessu sinni ekki höfð fleiri orð, en ljóst er að hún fylgir ekki sömu vinnureglum og verðlaunablaðamenn.


Efnisorð: