laugardagur, febrúar 09, 2019

Að fara mikinn í fjölmiðlum ≠ að bera harm sinn í hljóði

Aðeins um Jón Baldvin Hannibalssson og konurnar 23, eiginkonu hans og fjölmiðlaherferð þeirra hjóna gegn elstu dóttur sinni.

Það er auðvitað að bera í bakkafullan lækinn að ræða þetta mál hér. En mig langaði samt í tilefni af yfirlýsingu Geðhjálpar í gær að taka saman nokkra punkta.

Jón Baldvin Hannibalsson hefur lýst því yfir að þau Bryndís Schram séu sammála um það að „fjölskylduböl af þessu tagi – því að það er það – verði ekki útkljáð í réttarsal, né heldur til lykta leitt í fjölmiðlum.“ Og hefur síðan hamast gegn Aldísi dóttur sinni i í fjölmiðlum. Þau hjónin virðast telja sér það til tekna að lögsækja ekki dóttur sína eða aðra ættingja vegna þeirra ásakana sem bornar eru á Jón Baldvin: „Fremur kjósum við að láta þetta yfir okkur ganga; og bera harm okkar í hljóði að sinni.“ Að láta eitthvað yfir sig ganga og bera harm sinn í hljóði hefur greinilega aðra merkingu fyrir JBH, sem og tímalengdin „að sinni“ því síðan hefur hann ekki linnt látum í viðleitni sinni til að snúa taflinu sér í hag.

Síðan kom JBH í Silfrið og sagði þar ófagra hluti um Aldísi — sem hann kastar fúslega fyrir úlfana í kommentakerfunum þótt hann þykist göfuglyndur að vilja ekki draga hana fyrir dómstóla — og til að bæta gráu ofan á svart hafði hann uppi ófögur orð um föður dótturdóttur sinnar, svona svo allur sá kvenleggur fái skítmoksturinn yfir sig. Bryndís Schram eiginkona hans hefur líka um dóttur sína í blöðin og sagði þá m.a. þetta.
„Að þessu sinni er andlit hatursins afskræmt af heift og hefnigirni út yfir gröf og dauða. Það er helsjúkt og hamslaust. Það birtist mér í andliti dóttur minnar, systur minnar og systurdætra minna.“
Þetta eru kaldar kveðjur til kvenna sem hafa flestar sagt að Bryndís hafi vitað eða þær sagt henni frá framferði Jóns Baldvins, þó segir hún enn eins og hún hefur sagt við hverja og eina: þetta er einstakt tilvik, hann hefur aldrei gert þetta áður, hann er ekki svona. En eftirá segir hún um þær allar að þær ljúgi og hún hafi aldrei heyrt neinar konur kvarta undan honum. Grein hennar í Fréttablaðinu var vörn fyrir hetju (greinin hefst á upptalningu á afrekum hans á stjórnmálasviðinu). Aðallega var greinin þó fyrirsjáanleg, sorgleg og ömurlega skítleg.

Ein greinin sem Jón Baldvin skrifar er þó uppfull af samsæriskenningum um hversvegna sótt sé að honum; kennir þar „öfgafeministum“ helst um.

Jón Baldvin segir dóttur sína haldna geðhvarfasýki. Hún hefur framvísað læknisvottorði sem afsannar það.

Í framhaldinu býsnast JBH yfir því og spyr, af föðurkærleik sínum,
„ber þá ekki Tryggingastofnun ríkisins, sem að fengnu áliti sérfræðinga Landspítalans hefur skilgreint Aldísi sem „geðfatlaða“, að endurskoða þá málsmeðferð og þar með greiðslu örorkubóta, sem byggðar eru á þessu mati?“
Örorkuna ku JBH hafa nefnt í heilsíðugrein í Mogganum en hann hefur einnig skrifað a.m.k. tvisvar í Fréttablaðið (þar birtist einnig grein Bryndísar), komið í Silfrið og einhver viðtöl önnur; allt auðvitað vegna þess að þau hjónin hafa kosið að bera harm sinn í hljóði.

Og þá kemur að yfirlýsingu Geðhjálpar, sem RÚV bendir á að er augljóslega sett fram í tilefni af því að
Jón Baldvin hefur haldið því fram, meðal annars í grein í Fréttablaðinu sem birt var á mánudaginn*, að „eitt af mörgum sjúkdómseinkennum geðhvarfasýki er stjórnlaus þráhyggja um kynlíf“.

Lýsingar hans á einkennum geðhvarfa eru ekki réttar, að mati Geðhjálpar. Hvergi er þó minnst á Jón Baldvin í tilkynningu Hrannars Jónssonar, formanns Geðhjálpar.

„Brýnt er að almenningur sé meðvitaður um að þegar einstaklingur með geðhvörf er ekki í geðhæð sé hann jafn veruleikatengdur og trúverðugur og allur almenningur. Síðast en ekki síst er því alfarið vísað á bug að eitt af megineinkennum geðhæða felist í auknum áhuga á kynlífi þótt dæmi séu um slíkt á meðan á geðhæð stendur,“ segir í tilkynningunni frá Geðhjálp.
Það er gott að Geðhjálp skuli setja ofan í við Jón Baldvin með þessum hætti. Þetta var ömurlega ósmekklegt útspil hjá honum.

Enn þykknar bunkinn af skjölum sem sýna að Jón Baldvin segir ekki satt. Hann er sagður hafa áreitt unglingsstelpur sem hann kenndi í Hagaskóla; hann segist ekki hafa kennt þeim. Nú er búið að draga fram skjöl sem sýna að hann hafi verið kennari þeirra.

Í viðtalinu í Silfrinu lét hann eins og hann hefði sent systurdóttur Bryndísar eitt bréf þegar hann sat á flugvelli. Bréfin voru fjölmörg og bárust á löngum tíma, klæmin, ógeðsleg, algjörlega óvelkomin sending. Þessi bréf eru til og sum þeirra voru birt opinberlega árið 2012.

Aftur og aftur eru útskýringar Jóns Baldvins reknar ofan í hann. Skjöl sýna annað en það sem hann heldur fram. Frásagnir fjölda kvenna benda sterklega til þess að JBH hafi um áratugaskeið áreitt konur og stúlkur. Kvenfólk sér nákomið jafnt sem nemendur sína og þjónustustúlkur í veislum. Allt bendir til þess að hann sé enn að. Og alltaf komist upp með það því hann er frægur, var um langt skeið valdamikill, og er góður í kjaftinum að ljúga sig útúr öllum vandræðum. Það skiptir máli að Jón Baldvin er þessi frægi maður, vegna þess að staða hans hefur gert honum auðveldara um vik að komast upp með hegðun sína, jafnframt sem hún hefur gert konum og stúlkum erfiðara um vik að segja frá, vonlausara að kæra hann.

En núna, eftir #metoo byltinguna eru fleiri og fleiri sem vilja ekki lengur þegja yfir kynferðislegri áreitni og kynferðislegu ofbeldi. Ekki því sem gerðist í gær og ekki því sem gerðist fyrir löngu. Málin eflaust flest fyrnd, sum varða ekki við lög eða gerðu ekki þá, en það skiptir samt máli að segja frá. Ekki til að koma einstaklingi illa, heldur til að stöðva óheilbrigt hegðunarmynstur. Til þess að stöðva einn mann. Til þess að breyta samfélagi.

Efnisorð: , , , ,