þriðjudagur, janúar 15, 2019

Auðlindasjóður, svo fallegt orð

Í skýrslu ráðgjafarfyrirtækja um íslenskan raforkumarkað kemur fram að ef stofnaður verður auðlindasjóður utan um arðgreiðslur Landsvirkjunar og geta safnast upp 377 milljarðar króna á tíu ára tímabili.

Reyndar fylgir með í fréttinni að upphæðirnar gætu orðið enn hærri — bara ef.

Sjóðurinn gæti orðið 878 milljarðar efir sautján ár — en þá þyrfti að koma til aukin orkuvinnsla og einsog einn sæstrengur er líka inní því reikningsdæmi.

878 milljarðar. Það er nú ýmsu fórnandi fyrir aðra eins upphæð.

Hljómar þetta ekki eins og gott bjargráð fyrir þjóð sem er hrædd um að þurfa að draga saman seglin? Auðvitað!

Bara þetta smáræði að það þurfi að byggja fleiri virkjanir og vera duglegri að selja meiri orku, t.d. með sæstreng úr landi (flestum kemur saman um að hækkun á raforkuverði til íslenskra heimila sé líkleg verði það gert*) stendur varla í okkur ef svona upphæðir eru í boði.

Hver getur og vill verið á móti fleiri virkjunum þegar svona upphæðir blasa við? Sem fara þar að auki í auðlindasjóð sem gagnast öllum?

Kannski fólk sem hatar rafmagn; fólk sem skilur ekki hvað þarf að leggja á sig (náttúruna) til að hafa það gott.

En meira segja það fólk hlýtur að sjá muninn á 878 milljörðunum sem renna ljúflega í auðlindasjóð ef allt er virkjað í drasl, og skitnu 188 milljörðunum sem fengjust ef ástandið er óbreytt og ekki virkjað meir og enginn sæstrengur.


Reyndar má lesa þetta allt á annan veg:


Hvernig er hægt að fá almenning til að sætta sig við enn fleiri virkjanir?

Það er tildæmis hægt að benda þeim á að það sé fólkið í landinu sem á endanum græðir á því? Hey, er ekki alltaf verið að heimta að útgerðin borgi auðlindagjald — getum við ekki í staðinn búið til auðlindasjóð og hagnaður Landsvirkjunar fari þangað. Í fínu skýrslunni er meira segja sagt að slíkir sjóðir geta orðið miklir að vöxtum og tryggja að auðlindin skili arði til framtíðar eftir að hún sjálf er uppurin, og talað er um „viðbótarávinning til allrarar framtíðar“, og að „slíkur sjóður gæti tekist á við áskoranir sem tengjast lýðfræðilegum breytingum svosem öldrun þjóðarinnar“.

Þegar Bjarni Benediktsson setti þessa hugmynd fram fyrir nokkrum árum var hann ekkert farinn að hugsa um gamla fólkið heldur var með kreppuna í baksýnisspeglinum þegar hann sagði að auðlindasjóður væri þá „vísir að sérstökum stöðugleikasjóði, varasjóði sem gripið yrði til ef jafna þyrfti út djúpar sveiflur í hagkerfinu“.** En nú er semsagt fókusað á gamla fólkið sem öllum er tíðrætt um eftir langvarandi svelti heilbrigðiskerfisins (áttu ekki Símapeningarnir að renna í það, og í Sundabraut?). En hvað um það, það er mikið auðveldara að segjast geta bjargað öllu og öllum með auðlindasjóði, bara ef.

Þetta hljómar eins og lottóvinningur. Allir græða. Bara ef.

Semsagt: Með auðlindasjóð getum við bjargað gamla fólkinu! Og bjargað okkur útúr næstu kreppu! Þetta er algjör hælkrókur og vonlaust að hafna því að virkjað verði meira.

Auðlindasjóður. Fallegt orð yfir brellu virkjanasinna.

___

* Ekki virðist vera stemning fyrir því að almenningi bjóðist að greiða lægra orkuverð heldur er einblínt á að auka arðsemi. [Úr frétt RÚV:] Landsvirkjun gæti lækkað verð til notenda eða safnað arðgreiðslum í auðlindasjóð eins og nefnt var hér að framan. Magnús Árni Skúlason hjá Reykjavík Economics segir hins vegar að huganlega myndi verðlækkun leiða til sóunar. „Við sjáum til dæmis að okkur þykir sjálfsagt að borga heimsmarkaðsverð fyrir þorsk. Hvers vegna ekki að borga heimsmarkaðsverð fyrir orku,“ segir hann.

** Ef stofna á auðlindasjóð væri auðvitað sanngjarnt að veiðigjald eða aðrar álögur á sjávarútveginn snarhækkuðu — þjóðinni til hagsbóta í bráð og lengt — en það er ekki á dagskrá hjá Bjarna.

Efnisorð: ,