sunnudagur, desember 16, 2018

Mannlíf og vændi

Í nýjasta Mannlífi (sem berst á bloggheimilið en kannski ekki til allra) er úttekt á vændi. Ragnhildar Aðalsteinsdóttur tekur langt viðtal við Evu Dís Þórðardóttur sem er mjög upplýsandi, og sömuleiðis talar Guðný Hrönn Antonsdóttir við aðra íslenska fyrrverandi vændiskonu sem nýtur nafnleyndar. Annað viðtal Ragnhildar er við Rögnu Björgu Guðbrandsdóttur vekefnastjóra Bjarkarhlíðar. Einnig skoðar Magnús Geir Eyjólfsson vændismál á borði lögreglu auk þess sem Steingerður Steinarsdóttir skrifar leiðara um vændiskúnna. Hér fara nokkrir bútar úr úttektinni sem vænlegra er þó að lesa í heild gegnum hlekki hér á síðunni sem vísa á vefsíðu blaðsins eða jafnvel blaðið sjálft.

Viðtal við Evu Dís :
Fyrir tveimur árum sagði Eva Dís Þórðardóttir fyrst frá því opinberlega að hún hefði stundað vændi um nokkurra mánaða skeið í Danmörku árið 2004. Vændið var afleiðing kynferðisofbeldis sem hún hafði ítrekað orðið fyrir. Hún kallar eftir breyttum viðhorfum til vændiskvenna sem nánast allar stunda vændi af neyð og hún hefur áhuga á að skilja hvað einkennir hugarheim karla sem kaupa vændi.

„Eva segist hafa velt því töluvert fyrir sér hvað fái karlmenn til að kaupa vændi og hana langi að reyna að skilja það. „Ég væri svo til í að eiga samtal við vændiskaupendur. Hvað er svona heillandi við að eiga þessi nánu innilegu samskipti við einhvern sem þú ert algerlega aftengdur tilfinningalega? Ég skil ekki þessa grimmd, að meiða svona og svo útskúfa fólki úr samfélaginu okkar. Mig langar að sjá sjálfshjálparhópa fyrir karlmenn sem eru tilbúnir að skoða sína eigin hegðun og eigin sársauka. Ekki bara þann sársauka sem þeir valda til dæmis vændiskonunni. Hvað er þeim svo sárt og óheilað? Hvað þurfa þeir að laga til að geta farið að njóta samskipta við aðra, orðið betri menn og farið að blómstra í lífi sínu? Það eru til hópar fyrir karlmenn sem hafa beitt ofbeldi og vilja hætta því, af hverju ættu ekki að vera til hópar fyrir menn sem vilja hætta að kaupa vændi?“

Viðtal við konu sem kýs nafnleynd:
Það hvarflaði ekki að henni að vændið myndi hafa eins miklar afleiðingar og raun bar vitni. Kona sem stundaði vændi í nokkra mánuði í kringum aldamótin 2000 segir hér sína sögu. Enn þann dag í dag rekst hún reglulega á menn sem keyptu vændi af henni. Hún segir það alltaf jafnerfitt.

„Ég var í láglaunastarfi á þessum tíma og átti engan varasjóð eða neitt,“ segir kona sem stundaði vændi í um átta mánaða skeið í kringum aldamótin 2000. Hún kýs nafnleynd vegna barna sinna.
Hún segir fjárhagsörðugleika hafa verið helstu ástæðuna fyrir því að hún ákvað að fara út í vændi.

Magnús Geir skrifar um vændismál á borði lögreglu:
Á sama tíma og framboð vændisþjónustu á Íslandi hefur aldrei verið meira hafa vændiskaupamál á borði lögreglu sjaldan verið færri. Augum stjórnvalda hefur fyrst og fremst verið beint gegn mansali og skipulagðri glæpastarfsemi en þrátt fyrir það hefur ekki verið ákært fyrir mansal síðan 2010.
... Nær ekkert hefur verið ákært fyrir vændiskaup undanfarin ár en árið 2015 höfðu alls 85 ákærur verið gefnar út. Í þeim málum sem enduðu með sakfellingu voru viðkomandi aðilar sektaðir um 100 þúsund krónur þótt refsiramminn hljóði upp á allt að eins árs fangelsi.

Viðtal við Rögnu Björgu Guðbrandsdóttur:
Ragna Björg Guðbrandsdóttir, verkefnastjóri Bjarkarhlíðar, segir að tilfinning þeirra sem vinna við málaflokkinn bendi til þess að margar íslenskar konur stundi vændi þó að ekki sé til tölfræði um það.

„Flestar konur sem hafa óskað eftir aðstoð í Bjarkarhlíð vegna vændis hafa unnið á eigin vegum þó að þeim hafi boðist tilboð um að taka þátt í skipulögðu vændi. Allt vændi er í eðli sínu mansal þar sem aðgangur er keyptur að annarri manneskju og hennar frelsi til að ráða yfir eigin líkama og örlögum ekki virt. Neyslutengt vændi er einnig harður heimur þar sem manneskjan hefur að auki ekki fulla meðvitund til að taka ákvörðun um þátttöku sína í vændi.“

Ragna segir að bakgrunnur kvenna sem leiðast út í vændi sé eins fjölbreyttur og þess fólks sem kaupir vændi. „Það sem flestar konur eiga þó sameiginlegt eru áföll tengd ofbeldi þar sem kynferðislegt ofbeldi í æsku eða kynferðisbrot eru algeng. Þannig lítum við á vændi sem sjálfskaðandi hegðun og afleiðingu kynferðisofbeldis. Við teljum að engin kona velji að stunda vændi en vegna aðstæðna sinna og neyðar leiðist konur út í vændi.“ 

Leiðari Steingerðar:
„En hvaða manneskjur eru það sem fara út og geta hugsað sér að kaupa kynlífsþjónustu af niðurbrotnu fólki og horuðum unglingskrökkum með sprautuförin í olnbogabótinni og sársauka í augunum? Ef marka má nýlegar sænskar og bandarískar rannsóknir eru það Jói í næsta húsi sem var svo elskulegar að keyra stelpuna þína á fótboltaæfingu, geðþekki maðurinn í fimmtugsafmæli bestu vinkonu þinnar og hann Nonni sem er alltaf svo hress í vinnunni eða kennari sonar þíns. Einstaklingar sem eiga fjölskyldur, sinna börnunum sínum af kostgæfni, vinna sjálfboðastörf hjá góðgerðafélögum og eru virtir fagmenn. En sjá ekkert athugavert við að draga upp veskið og borga nokkra skitna þúsundkalla fyrir að fá að þröngva sér inn í líkama annarrar manneskju og sumir hverjir telja sig eiga inni að fá að misþyrma þeim í ofanálag.“

Ef bara þessi orð Evu Dísar myndu rætast:
„Í framtíðinni væri gaman að geta litið til baka og sagt; „hey, manstu einu sinni var hægt að kaupa kynlíf af annarri manneskju“, eða „spáið í það að einu sinni fannst fólki allt í lagi að stunda kynlíf með einhverjum sem kannski vildi það ekki alveg“. Ég held við séum á leiðinni þangað, öll þessi umræða gerir þetta svo miklu opnara.“

Efnisorð: , , ,