fimmtudagur, nóvember 29, 2018

Staðan eftir sólarhring af Klausturgate

Eftir allar þær fréttir sem birtar hafa verið uppúr Klausturgate* í gær og í dag — sem sýndu innræti þingmanna Miðflokksins og Flokks fólksins einkar vel — er staðan sú að enginn ætlar að segja af sér, hætta þingmennsku eða hætta að drekka.

Eina manneskjan sem hefur sagt af sér er ekki þingmaður og var ekki á fundinum. Henni blöskraði hinsvegar svo ummæli félaga hennar í Miðflokknum að hún getur ekki stutt flokkinn lengur og sagði af sér sem varamaður í bankaráði Seðlabankans.

Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmaður Miðflokksins og eina konan sem var í sexmenningahópnum á Klausturbarnum er þó að íhuga afsögn, en það sagði hún nýkomin útaf fundi í velferðarnefnd og var spurð af forviða fréttamanni hvort henni þætti það fara saman að sitja í þeirri nefnd sem fjallar meðal annars um málefni fólks með fötlun — en ummæli þingkonunnar á Klausturbarnum um Freyju Haraldsdóttur voru sérlega ósmekkleg.

Viðtal Einars Þorsteinssonar við Gunnar Braga Sveinsson í Kastljósi í kvöld var fantagott. Einar talaði enga tæpitungu við Gunnar Braga sem — þótt hann reyndi að bera sig vel — kom út nákvæmlega eins og kúkurinn sem hann er.

Frá sjónarhóli Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar er allt þetta mál eflaust bara aðför að honum persónulega, þessum góða manni. (Soros stendur örugglega bakvið upptökuna og birtinguna í DV og Stundinni.)

Nú hlýtur Anna Sigurlaug Pálsdóttir að sitja við eldhúsborðið og skrifa bréf.


____
* Klausturgate (dregur að hluta nafn sitt af Watergate) er orðið sem notað er yfir leynilegu upptökurnar frá Klausturbarnum þar sem þingmenn Miðflokks og Flokks fólksins skemmtu sér við að níða konur, fólk með fötlun og samkynhneigða

Efnisorð: , , , , ,