laugardagur, október 20, 2018

Andfeministar snúa vörn í sókn

Það hefur oft orðið mér til happs að bíða með að skrifa um eitthvað álitaefni sem allir eru (eða virðast vera) að ræða. Það er því næstum orðið að venju að í stað þess að grípa strax til lyklaborðsins bíð ég sallaróleg eftir að einhver taki af mér ómakið og svo geti ég vísað á orð þeirrar manneskju og sagt að þessu sé ég hjartanlega sammála. Og nú hefur það gerst.

En fyrst, fyrir þau sem ekki hafa fylgst með frá byrjun.
Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður komst að því að konur höfðu talað illa um hann í lokuðum hóp á netinu. Hann var auðvitað ekkert að taka það fram að þær létu þessi ummæli falla eftir að hafa séð myndbandsviðtal við Jón Steinar sem var birt í fjórum hlutum 4. júlí 2017. (Neðanmáls við þennan pistil er vitnað allnokkru sinnum í kjaftæðið úr Jóni Steinari, sem og ýmislegt sem aðrir sögðu um það.) En Jóni Steinari hentaði að taka ummæli kvennanna í lokaða hópnum úr samhengi, og þar með kveikti hann elda — örugglega ekki óvart.

Nýlega komst nefnilega í hámæli að Kristinn Sigurjónsson háskólakennari hafði sagt (í lokuðum hóp á netinu) eitthvað á þá leið að hann vildi ekki vinna með konum. Eitt leiddi af öðru og svo fór að Kristni var sagt upp störfum, karlrembum landsins til mikillar skelfingar. Það var því mikill fengur fyrir þá og aðra andfeminista að komast í ummæli nafnkunnra kvenna um Jón Steinar. Raunar er þetta mjög augljós gagnsókn karla sem hata konur, gagnsókn gegn #metoo og #höfumhátt. Og nú er hamast á þessum konum og öllum feministum fyrir að ganga of langt í orðbragði og ganga of langt í að saka karla (blásaklausa dúllubossa) um allskonar sem þeir þræta fyrir að nokkur maður geri eða segi — en segja það svo með enn kröftugri hætti þegar þeir bölva helvítis feministafrenjunum.

En þá er semsagt komið að því sem Tara Margrét Vilhjálmsdóttir, félagsráðgjafi og formaður Samtaka um líkamsvirðingu skrifaði. (Vísir birti valda kafla.) Til að lesendur geti séð allan pistilinn er hann hér í heild:
„Í gær birti Jón Steinar Gunnlaugsson pistil í Morgunblaðinu um Facebook-hópinn Karlar gera merkilega hluti og nokkur óviðeigandi ummæli sem höfðu verið látin falla um hans persónu. Ummælin voru sett fram á öruggu svæði en hann ákvað nú samt að villa á sér heimildir til að komast þar inn. Hann þykist koma af fjöllum vegna þessara ummæla og lætur vera að minnast á færsluna sem varð til þess að þessi orð voru látin falla; https://stundin.is/frett/jon-steinar-segir-ad-tholendum-roberts-myndi-lida-betur-ef-their-fyrirgaefu-brotin/. Þarna segir Jón Steinar að þolendum Róberts Downeys myndi líða miklu betur ef þeim tækist að fyrirgefa honum enda séu önnur brot miklu alvarlegri en þau sem hann beitti þeim. Honum finnst að sjálfsögðu ekki skipta máli að hér er á ferð maður sem hefur aldrei neina iðrun sýnt sem mætti kalla fyrsta skrefið í átt að fyrirgefningu. Hann bætti svo um betur og minnti á að þetta hafi nú ekki verið “lítil börn, sko” sem Róbert braut á, nei þetta voru unglingsstúlkur. Þetta er ekki í fyrsta skiptið eða annað sem Jón Steinar fer langt út fyrir lögfræðilegar skyldur sínar til að verja meinta eða dæmda gerendur kynferðisafbrota og barnaníðs. Hann var meira að segja dæmdur af Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir að hafa gengið of langt í eitt skiptið og brotið trúnað þolandans með ummælum sínum í fjölmiðlum: "https://www.mbl.is/greinasafn/grein/615060/

Jón Steinar hefur trekk í trekk opinberað sig sem varðhund feðraveldisins og hefur honum tekist vel til. Það verður ekki tekið af honum að hér er á ferð einstaklega fær og klár lögmaður sem gerir allt fyrir skjólstæðinga sína. Fórnarkostnaðurinn er hinsvegar ekki ásættanlegur, allavega að mínu mati. Nú er liðið rúmt ár síðan umræðan um uppreist æru fór hæst og eitt ár síðan Metoo-bylgjan fór af stað. Síðan þá höfum við fengið að heyra hræðilegar sögur þolenda, þögnina, skömmina og sálarvítið sem fylgir kynferðisbrotum og kynbundnu ofbeldi. Við vitum að viðbrögð þolenda eru misjöfn eins og þeir eru margir (og þolendurnir eru alltof margir) og við vitum líka að fyrirgefningarsvipan er tól sem hefur verið notað í gegnum tíðina til níðast á þeim. Ekki í neinum málaflokki er krafan um fyrirgefningu jafn sterk og þegar kemur að kynferðisbrotum. Þessi krafa er notuð til að yfirfæra ábyrgð brotsins frá geranda yfir á þolanda, til að magna upp skömmina og þögnina sem kynferðisbrot þrífast í. Allir þolendur hafa fengið að heyra þessa fyrirgefningarræðu á einhverjum tímapunkti og það hefur ollið þeim ómældu tjóni og hægt fyrir bataferlinu. Það hefur líka hægt verulega á því að við sem samfélag tökum kynferðisbrot alvarlega og á stóran þátt í því mynstri þolendaskömmunar sem viðgengst. Rifjið aðeins upp andrúmsloftið í þjóðfélaginu þegar mál Róberts Downey var hægt og bítandi að koma í ljós. Reiðina, ógleðina, hvernig var traðkað á réttlætiskennda allra viti borinna manna og mana eftir því sem nýtt og nýtt brot bættist í púsluspilið og málið í heild. Ég meina, þetta mál sprengdi ríkisstjórnina! Ímyndum okkur síðan að Jón Steinar stígi fram með þá kröfu, mitt í þessu andrúmslofti, og fari með þá vel þvældu tuggu að þolendur Róberts eigi bara að vita betur og fyrirgefa honum. Brotin voru ekkert það alvarleg hvort eðer. Er í alvörunni það furðulegt að fólk hafi brugðist illa við? Er í alvörunni það óhugsandi að konur sem allar líkur séu á að hafi upplifað kynferðisofbeldi eða séu nákomnar einhverjum sem hafi orðið fyrir kynferðisofbeldi og fengið að heyra fyrirgefningarræðuna skrilljón sinnum fái bara nóg og setji fram orð um Jón Steinar eins og “viðbjóður?” Allavega ekki ef við skoðum bara ummælin við Stundargreinina hér að ofan, þar fer fólk mikinn í kommentakerfinu í sinni réttmætu reiði.

Það hefur því verið görsamlega magnað að fylgjast með storminum sem hefur geysað síðan hann birti pistilinn í gær, hvernig fólk er gjörsamlega gáttað á að það skuli “yfirleitt hugsa á þessum nótum og hvað þá koma því niður í skrifuð orð” http://www.visir.is/…/formadur-logmannafelagsins-hreinlega-… Er það í alvörunni svona erfitt að ímynda sér? Hefur þetta sama fólk almennt ekki fylgst með þjóðfélagsumræðu og séð hvernig fólk er tekið fyrir í kommentakerfum. Hvernig það eru yfirleitt konur eða meðlimir jaðarhópa sem verða fyrir barðinu á þjóðfélagsumræðunni og kommentin eru á þann veg að það að kalla einhvern viðbjóð eða segja honum að hoppa uppí rassgatið á sér er frekar light-weight? Allavega væri ég bara frekar sátt við að sjá kommentakerfið á slíkum nótum undir frétt um mig. Það væri góð tilbreyting frá því að vera hótað kynferðisofbeldi og þaðanaf verra. Þar með er ég þó ekki að segja að þetta sé góð orðræðuhefð og að hún sé til eftirbreytni. Ég er bara að reyna að minna fólk á samhengið sem hefur farið forgörðum hjá allt of mörgum.

Að ætla að skamma konur sem eru að tjá sína réttmætu reiði inni á lokuðu vefsvæði er angi nauðgunarmenningar og til þess fallið að valda með þeim frekari skömm og þöggun. Við köllum það tone policing en það er ein leið til að gera lítið úr skilaboðum kvenna með því að gagnrýna umbúðirnar sem þau komu í. KÞBAVD að vera kurteisar þegar þær sýna réttmæta reiði og sársauka þegar þær eru enn og aftur settar í þá stöðu að þurfa að fyrirgefa kvölurum sínum og taka ábyrgðina af þeim. Hefur Metoo-byltingin í alvöru ekki skilað okkur á betri stað en þetta? Þau sem vilja setja orð gagnrýnenda JSG á sama stað og hans eigin og báðir aðilar séu “jafn slæmir” verða líka að hafa í huga valdaójafnvægið hérna. Vitið þið hvernig valdaójafnvægið birtist? Með þeirri gusu vandlætingar og innsogum sem eru í gangi í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum um þessar mundir annarsvegar og hinsvegar þögninni vegna miklu verri orða sem eru látin falla um stjórnendur KGMH á sama tíma. Þegar fólk stígur fram og segist bara ekki ná utan um það að einhver skuli segja að einhver sé viðbjóður en kýs að líta algjörlega fram hjá því sem viðgengst á kommentakerfum fjölmiðla gagnvart þolendum kynferðisofbeldis og jaðarsettum einstaklingum dags daglega. Annað sem verið er að gera hérna er að þeir valdamiklu í þjóðfélaginu eru að reyna að snúa þolendavænni umræðu sér í hag og í sína þágu og gera sjálfa sig að þolendunum. Trevor Noah nær hér á sinn einstaka hátt að útskýra það https://www.youtube.com/watch…

Það er engin tilviljun að JSG stígur fram núna vegna athugasemda sem voru látin falla í byrjun júlí 2017. Það er heldur engin tilviljun að hann kýs að taka fyrir ummæli sem voru látin falla í lokuðum hópi kvenna frekar en af t.d. kommentakerfi Stundarinnar af sama tilefni. Nei, hann er enn og aftur að ganga mjög langt fyrir skjólstæðing sinn, sem var látinn fara hjá HR, eftir að hafa látið ummæli falla í lokuðum hópi sem þóttu fara á skjön við siðareglur HR. Hann er að reyna að sýna fram á meinta hræsni þegar kemur að því hver lætur hvaða ummæli falla og miðað við umræðuna hefur honum tekist ótrúlega vel til. Enn og aftur verður ekki af honum tekið að hann er eldklár og fær lögfræðingur. Hann kann að snúa umræðunni eins og hann vill hafa hana og fjölmiðlar taka fullan þátt í því með að taka yfirlýsingar og orð úr samhengi ásamt eldfimum fyrirsögnum sem eru sérvaldar sem klikkbeitur.

En hann er að gleyma einu atriði og það er að ekki er um neina hræsni að ræða. Það að Jón Steinar skipi þolendum barnaníðs að fyrirgefa geranda sínum og að hinir sömu þolendur kalli hann viðbjóð á móti er ekki það sama og má ekki leggja að jöfnu. Í fyrra tilvikinu er nefnilega valdamikill maður að beita valdi sínu og stöðu í þjóðfélaginu til að smána þolendur og senda þá aftur í forarpytt skammar og þöggunar. Í seinna tilvikinu eru þolendurnir loksins að neita því að hverfa frá, að láta slag standa og segja “hingað og ekki lengra!”. Þeir eru að segja að þeir muni ekki snúa aftur í skömmina og þögnina, nú sé kominn tími á að gerendur axli þá ábyrgð sem þeim tilheyrir í stað þess þolendur taki hana af þeim. Ekki láta blekkjast, standið með þolendum!“

Heyr, heyr!

___
[Viðbót í hádeginu daginn eftir]
Jón Steinar skrifar og þykist sniðugur þegar hann ber fyrir sig símtal við konu sem afsökun fyrir að birta opinberlega þetta orðbragð um Hildi Lilliendahl:
„Ég vil því taka hér fram að ein þeirra fjölmörgu kvenna sem hringdu til mín um helgina kallaði þig, Hildur Lilliendahl Viggósdóttir, nettröll og femínistatussu. Sagði hún alkunnugt, að þú værir bara áskrifandi launa hjá Reykjavíkurborg án þess að gera neitt í vinnunni annað en að hanga í tölvunni þinni til að iðka femínisma. Ég sussaði á konuna og sagði henni að nota ekki svona talsmáta. Og við þig Hildur, segi ég bara að verðir þú rekin úr vinnunni, eins og viðmælandi minn taldi borginni skylt að gera, getur þú leitað til mín.“


Efnisorð: , , , , , ,