föstudagur, október 05, 2018

Lögbanni aflétt, græðgispakk afhjúpað

Ég samgleðst ritstjórum Stundarinnar með niðurstöðu Landsréttar sem hafnaði lögbanni því sem sett var á Stundina í fyrra. Ég vona að Glitnir áfrýji ekki heldur geti Stundin haldið áfram að flytja fréttir sem voru enn „ósagðar í málinu“.*

Talandi um Stundina þá varð ég hálfhissa á hve margir virtust koma af fjöllum þegar fyrsti þáttur Kveiks var sýndur í vikunni. Ég hélt að fólk almennt vissi um hvernig (of margir) íslenskir atvinnurekendur koma fram við útlendinga sem koma hingað til að vinna. Stundin hefur margsinnis, ítarlega og vandlega fjallað um aðstæður erlends starfsfólks hér á landi, svo þetta ætti ekki að koma á óvart, hvað þá Vinnumálastofnun eða öðrum þeim sem hafa með mál þessa fólks að gera. En auðvitað nær Ríkissjónvarpið til fleira fólks og það er vel gert hjá Kveik (og í þessu tilfelli Helga Seljan) að fjalla svona ítarlega um meðferð á útlendingum. Og sannarlega kom sitthvað á óvart, t.d. fjöldi starfsmannaleiga. Svo var auðvitað bara grátlegt að heyra sögur fólksins, ekki síst mannsins frá Pakistan.

Mikið djöfull er annars til mikið af gráðugu skítapakki.

___
* Þrívegis hefur lögbannið á Stundina verið til umfjöllunar á blogginu eða komið við sögu, þar af er málið, sem Stundin fékk lögbann á sig fyrir að fjalla um, að nokkru rakið hér. Hér má lesa um, með vísun í leiðara Ingibjargar Daggar Kjartansdóttur, hvernig sótt er að ritstjórnum með ýmsum hætti. Og hér er eigin hugleiðing um hvernig megi nota gögn Glitnis sem Stundin hefur undir höndum — og getur nú vonandi haldið áfram að skrifa um.

Efnisorð: , ,