laugardagur, september 08, 2018

Umhverfisvænasta álið á sífelldri siglingu

Norðurál auglýsir þessa dagana íslenskt ál með heilsíðuauglýsingum og segir það umhverfisvænasta ál í heimi. Fyrir þremur árum kærði Landvernd auglýsingar Norðuráls sem þá sagði að íslenskt ál væri „einhver grænasti málmur í heimi“.* Sú staðhæfing var auðhrakin og það gerði þáverandi formaður Landverndar í grein sem hann kallaði „Ósvífin auglýsingaherferð Norðuráls“ og birt var 13. janúar 2016.

Nú þykist Norðurál hafa fundið leið til að höfða til samtímans með því að tala til þeirra sem hafa áhyggjur af kolefnisfótspori, og tilkynnir því hróðugt að losun álfyrirtækja á Íslandi sé allt að tífalt minni en hjá öðrum álfyrirtækjum víða um heim, því þau eru knúin að mestu af óendurnýjanlegum orkugjöfum eins og kolum og jarðgasi. Þetta er líklega satt, enda íslensk álver knúin rafmagni fengið úr vatnsaflsvirkjunum (enda þótt ekki séu allir sammála því að reisa virkjanir til að selja álfyrirtækjum ódýrt rafmagn), en þarna er verið að bera saman skítafyrirtæki við önnur skítafyrirtæki, og varla til að hreykja sér af.

Alltaf hefur verið augljóst að rafmagnið hefur verið selt mjög ódýrt til álfyrirtækjanna eins og sést á því að það hefur borgað sig fyrir þau að vera hér þrátt fyrir miklar vegalengdir frá upprunalöndum hráefnisins annarsvegar og áfangastöðum framleiðsluvörunnar hinsvegar (það má minna á að álvinnslan sjálf er mjög mengandi iðnaður**). Nú ætla ég ekki að ræða ódýra rafmagnið heldur benda á hvernig súrálið (áloxíð) kemst til Íslands og hvernig álið fer héðan: með skipum. Skipaflutningarnir eru eflaust stór kostnaðarliður, en það sem hér skiptir máli er þetta: Skip menga mjög mikið á ferðum sínum um heimsins höf. Það sem verra er:
„Engin markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir skip voru samþykkt á fundi umhverfisnefndar Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar [árið 2016]. Samkvæmt bráðabirgðaáætlun þarf skipaiðnaðurinn, sem losar mikið af koltvísýringi, ekki að setja sér nein slík markmið næstu sjö árin.

Skipa- og flugsamgöngur eru að mestu undanskildar Parísarsamkomulaginu í loftslagsmálum sem þjóðir heims samþykktu fyrir ári, þar sem flugvélar og skip fara þvert um landamæri landa og um alþjóðleg loftrými og hafsvæði.

Á fundi umhverfisnefndar Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar (IMO), sem er stofnun á vegum Sameinuðu þjóðanna, átti að ræða hvernig skipaiðnaðurinn myndi axla ábyrgð í loftslagsmálum. Skip eru nú talin standa fyrir 2-3% af heildarlosun manna á gróðurhúsalofttegundum sem valda loftslagsbreytingum á hverju ári og hefur IMO áætlað að losun iðnaðarins gæti aukist um 50-250% fyrir árið 2050.

Vegvísirinn sem samþykktur var á fundinum gerir ráð fyrir að bráðabrigðaáætlun til að draga úr losun skipa verði tilbúin eftir tvö ár. Fimm árum síðar, árið 2023, á að birta tímalínu um loftslagsaðgerðir sem skipaútgerðir og eigendur gætu þurft ráðast í. Eigendur stórra skipa eiga að skila Sameinuðu þjóðunum upplýsingar um eldsneytisnotkun sína en trúnaður mun ríkja um þær upplýsingar, samkvæmt frétt á vefnum Climate Central.

IMO frestaði einnig öllum ákvörðunum sem gætu neytt skipasmiði til þess að smíða eldsneytisnýtnari skip.

Þó að IMO hafi sjálf fagnað niðurstöðu fundarins sem „góðum fréttum fyrir umhverfið“ á Twitter-síðu sinni hefur hægagangurinn í að taka á útblæstri skipaiðnaðarins sætt harðri gagnrýni náttúruverndarsinna.“***
Það verður semsagt ekki fyrr en árið 2023 sem á að spá eitthvað í hvort og þá hvernig á að draga úr losun skipa, ja hérna hér. Á meðan sigla þau ótt og títt um höfin, þar af sum þeirra hlaðin súráli eða áli, og bæta á loftslagsvandann. Meðan svo er má teljast hæpið fyrir álver að hreykja sér af því að leggja „mikið af mörkum til að minnka losun á CO2 á heimsvísu“.

___
* Engu að síður blasir sama staðhæfing við á ensku á forsíðu Norðuráls: The World's greenest Aluminum.

** Kaflinn „Stundum þarf að skilja leiðinlega hluti“ í Draumalandinu: Sjálfshjálparbók handa hræddri þjóð, bls. 227-235, eftir Andra Snæ Magnason fjallar um hvernig súrál er unnið úr báxíti og segir þar að „súrálsvinnsla er einhver sóðalegasti iðnaður sem fyrirfinnst“, og jafnframt að „álvinnsla er einhver umhverfisfrekasti iðnaður í heimi“.

*** Afsakið en ég fann bara Moggafrétt um þetta. Hinsvegar er þar vísað á þessa frétt Climate Central.

Efnisorð: ,