föstudagur, ágúst 24, 2018

Upp kemst um Kjartan um síðir

Ein af ástæðum þess að ég byrjaði að skrifa þetta blogg og hafði það nafnlaust, var að ég ætlaði að birta nöfn manna sem ég vissi að væru ofbeldismenn og nauðgarar. Það hef ég þó ekki gert nema þegar nöfn þeirra hafa verið komin í fjölmiðla eða ég getað bent á dóma yfir þeim. Þessvegna hef ég ekki fram til þessa dags nefnt Kjartan Guðjónsson með nafni, enda þótt ég hafi lengi vitað hvað hann gerði. En nú hefur DV tekið málið í sínar hendur og segir í dag frá því að Kjartan nauðgaði og misþyrmdi konu fyrir þrjátíu árum, og var dæmdur í Hæstarétti til fimmtán mánaða fangelsisvistar. Það er ekki fyrr en nú sem það kemst í hámæli (dómurinn hefur ekki verið á netinu), og DV segir að SS hafi tekið auglýsingar með honum úr umferð en hann hefur leikið í auglýsingum fyrirtækisins um árabil, og smettið á honum meirasegja verið á pylsupökkunum. Kjartan hefur einnig leikið fjölmörg hlutverk á sviði (aðallega í Þjóðleikhúsinu), í kvikmyndum og í sjónvarpi, og DV telur upp þætti á Stöð 2: Stelpurnar, Pressa og Ástríður, „og einnig hefur hann komið fram í Áramótaskaupi Sjónvarpsins“.

Ég veit ekki hvað oft ég hætti að horfa á Skaupið vegna þess að Kjartan var í því en það var alltof oft sem hann náði að eyðileggja þá skemmtun. Ég hef markvisst forðast að fara á leiksýningar sem hann hefur verið í, og hef séð örfáar mínútur af Stelpunum (eða var það Ástríður) en þá birtist Kjartan og ég slökkti. Hefði almenningur vitað undanfarin þrjátíu ár hverskonar maður Kjartan er, þá er ólíklegt að hann hefði fengið neitt af þessum hlutverkum (og þá hefði ég getað skemmt mér yfir eflaust ágætum leikritum, sjónvarpsþáttum og áramótaskaupi). Eða hefði hann þá fengið hlutverkin í Stelpunum og þáttunum um Ástríði?

En kannski hefði það ekki haft neinn áhrif á ferilinn að allir vissu að hann væri ofbeldismaður og nauðgari, það er ekki eins og það sé sjaldgæft að verstu skúnkum sé hampað og menn greiði götu þeirra. En áhorfendur/samstarfsfólk/vinnuveitendur hefðu allavega haft val um að sniðganga hann. Auðvitað eru svo alltaf einhverjir sem standa með honum, það má nú þegar sjá í athugasemdum við frétt DV þar sem (aðallega) karlmenn býsnast yfir að verið sé að rifja upp svona gamalt mál og jesúsa sig yfir dómstól götunnar.

Ég hef meiri samúð með þeim sem hafa haft álit eða dálæti á Kjartani, hvað þá leiklistarfólkið sem hefur unnið með honum, og þarf nú að endurskoða allt sitt viðhorf til hans.

Mesta samúð hef ég þó auðvitað með veslings konunni sem hann beitti þessu hræðilega ofbeldi. Vonandi mislíkar henni ekki þessi umfjöllun um of. Ég ímynda mér að henni hljóti að hafa þótt erfiðara að sjá honum hampað og hafa hann fyrir augunum í allan þennan tíma, og eflaust hefur hún ekki einusinni getað horft á Áramótaskaupið án þess að þessi skelfingaratburður rifjist upp.

Það er gott að DV skuli fjalla um þetta. Það má ekki þagga svona mál endalaust.


___

[Viðbót] Athugasemdakerfi DV logar af fólki sem ber blak af Kjartani. En þessi athugasemd, þótt hún sé allsekki úr þeirri átt, er einhver sú óþægilegasta af öllum.

Gunnar B. Svavarsson skrifar:
„Alltaf jafn merkilegt hvað menn koma af fjöllum þegar svona mál koma upp. Þau ár sem ég vann í Þjóðleikhúsinu var enginn stærri fíll í húsinu en Kjartan og þetta brot hans. Allir vissu af þessu og eftir því sem ég best veit var krísufundur með Stefáni Baldurssyni, þáverandi þjóðleikhússtjóra, þar sem einhverjar leikkonur neituðu að vinna með honum. Stuttu seinna var Daddi fenginn til að leysa af í hlutverki þar sem hann lék drykkfelldan ofbeldismann.

Af íslenskum sið sýndi yfirstjórn Þjóðleikhússins þessu máli lítinn sem engan áhuga og eitthvað segir mér að SS hafi verið nokk sama þar til þetta varð viral.“
— Þetta er ákkúrat það sem er að í samfélagi þöggunar, nauðgunarmenningar og karlveldis.

Efnisorð: , , , , , , , ,