mánudagur, júlí 16, 2018

Kom ekki svo íþróttapistill eftir allt saman, og meira segja um fótbolta!

Loksins er fótboltamótið búið og þess bráðlega að vænta að fólk geti farið að tala um eitthvað annað. En þá ber svo við að einhverjir kallar fara að gagnrýna að litlir krakkar sem nýfarnir eru að æfa fótbolta fái allir þátttökuverðlaun fyrir að taka þátt í móti, og finnst köllunum það óþarfa aumingjadekur, því eingöngu þeir sem fara með sigur af hólmi eigi að fá verðlaunapeninga. Um þetta hafa víst verið umræður undanfarna daga, sem fóru alveg framhjá mér þar til í dag.

Það var semsé ekki fyrr en ég las afar frétt á Vísi um skoðun Daða Rafnssonar, doktorsnema í íþróttasálfræði og fyrrum yfirþjálfara Breiðabliks, á veitingu verðlauna fyrir þátttöku, að ég áttaði mig á þessari umræðu. Þurfti að bakka aftur í tímann og lesa mér til hér og þar til að skilja um hvað málið snýst.

Einn punktur sem sló mig fljótlega en ég hef ekki séð neinn nefna: þessi gagnrýni kom fram þegar Símamótið svokallaða hófst í síðustu viku (því lauk í gær) en þar kepptu 2200 stelpur í fótbolta. Athugið: stelpur að spila fótbolta og mótið þeirra er gagnrýnt frá fyrsta degi.

Kona spyr sig: Er verið að dreifa athyglinni frá kallalandsliðinu í fótbolta sem nýkomið er heim af stóru móti með öngulinn í rassinum, eða er þetta bara sama djöfuls kvenfyrirlitningin og venjulega?

Annars var ég mjög ánægð með allt sem Daði Rafnsson sagði, og fannst mikils vert að hann dró fram mismunandi aðstæður barna. Hann hefur mun óbrenglaðra viðhorf til íþróttastarfs barna en þeir sem finnst ótækt annað en mismuna börnum þannig að bara þau sem standa sig vel (oft með dyggum stuðningi foreldra á öllum sviðum) fá viðurkenningu en ekki öll þau sem æfa, mæta, (fara þvert yfir landið á mót) og keppa — eins og það sé ekki talsvert afrek útaf fyrir sig. Svo fá auðvitað líka þeir krakkar verðlaunapeninga sem vinna mótið.

En eins og einhver benti á: allir þeir sem taka þátt í Reykjavíkurmaraþoninu fá pening um hálsinn. Svo eru verðlaun fyrir sigurvegarana. Er það bara neikvætt ef um börn er að ræða?

Efnisorð: , , ,