fimmtudagur, júlí 12, 2018

Steypireyður og mýldir fyrrverandi andstæðingar hvalveiða

Hvaladráparar komu með dauðan hval að landi sem gæti verið steypireyður eða kannski afkvæmi steypireyðar og langreyðar. Hvergi í heiminum er leyfilegt að veiða steypireyði, sem er stærsta dýr jarðar og í útrýmingarhættu. Það er hinsvegar ekki stranglega bannað að drepa hval sem er 50% steypireyður og því heldur Kristján í Hval því fram að þetta hljóti að vera blendingshvalur sem ekki liggi blátt bann við að veiða.

Framkvæmd verður DNA-rannsókn á sýnum úr dýrinu í haust og því verður ekki skorið endanlega úr um hvaða tegund dýrið er fyrr en þá. Fær ekki Kristján örugglega að taka sýnið og geyma það heima hjá sér þangað til fjölmiðlar hafa gleymt öllu um málið?

Eins og það sé ekki nógu slæmt að hugsanlega hafi alfriðað dýr verið drepið, og heimspressan æf, þá eru viðbrögð íslenskra stjórnvalda ömurleg. Þegar ég segi stjórnvalda þá á ég við vinstrigrænu ráðherrana sem áður voru á móti hvalveiðum en vilja nú allsekki lýsa yfir andstöðu við þær eða hvessa sig þegar grunur leikur á að alfriðað dýr hafi verið drepið.

Umhverfisráðherra tjáir sig ekki um málið.

Forsætisráðherra — sem einnig var eitt sinn á móti hvalveiðum — þegar hún sjálf var á atkvæðaveiðum — tuðar eitthvað um mat á sjálfbærni veiðanna og ekki sé hægt að leggja mat á alvarleika þess að skjóta friðaðar tegundir fyrr en seinna.

Enda mega þau auðvitað ekkert segja á móti þessari óhæfu, hvalveiðunum yfirleitt eða þessari stöðu sem komin er upp. Ekki nóg með að Kristján Loftsson sé sterkur bakhjarl Sjálfstæðisflokksins heldur er Einar Sveinsson föðurbróðir Bjarna Ben orðinn stjórnarformaður Hvals ehf. Og þetta er nú einu sinni ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins þar sem Bjarni Ben ákveður hvað má segja og gera.



Efnisorð: , ,