föstudagur, júlí 06, 2018

Kjaradeila ljósmæðra: stéttastríð

Ég ákvað að taka smá fréttarúnt áður en ég hæfist handa við að skrifa blogg um kjaramál ljósmæðra. Eða öllu heldur: það sem sagt er þessa dagana af misjafnlegu viti um kjaradeilu ljósmæðra.

Það flýtti ákaflega mikið fyrir mér að Eyjan fjallar um viðbrögð Gunnars Smára við skrifum Ólafar Skaftadóttur (sem er nýorðin ritstjóri Fréttablaðsins, tók við af Kristínu Þorsteinsdóttur móður sinni og útgefanda blaðsins) sem skrifaði leiðara blaðsins í gær, og í dag skrifaði Hörður Ægisson (sem sér um Markaðinn fylgirit Fréttablaðsins) einnig leiðara og bæði tóku þau afstöðu gegn ljósmæðrum. Ólöf endar sinn leiðara á þennan veg, eftir að hafa þusað mikið um hve vel ljósmæður séu í raun launaðar:
„Vonandi verður samið við ljósmæður sem allra fyrst. Að þessu sinni og héðan í frá verður skynsemin þó að trompa tilfinningar.“
Hvaða tilfinningar eru það sem þarf að trompa? Er það tilfinningasemi að draga fram mikilvægi starfs ljósmæðra? Hlut þeirra — tildæmis með meðgöngueftirliti, fæðingaraðstoð, og eftirfylgni í heimahúsum — í að minnka ungbarnadauða svo mjög á Íslandi að hann er hér lægstur í heimi? Eða er það tilfinningar sem þarf að trompa vegna þess að þetta er kvennastétt og barátta kvenna fyrir betri kjörum er bara tilfinningalegt upphlaup hýsterískra kellinga?

Leiðari Harðar var svo allur um ‘höfrungahlaup’ — að ef ein starfstétt hækki upp fyrir þá stétt sem áður var jöfn eða fyrir ofan í launum vilji sú stétt hækka sig yfir hina aftur, og sömuleiðis krefjist allar aðrar stéttir að hinar fari ekki fram úr sér; við þessu sé svo brugðist með „gengisfalli, aukinni verðbólgu og hærri vöxtum“. Um launakröfur ljósmæðra segir Hörður:
„Engin rök standa því til þess að samþykkja þær kröfur“, og síðar í leiðaranum segir hann: „þá telja sumir að nú sé rétti tíminn til að fara fram á stórfelldar nafnlaunahækkanir. Minna en engin innstæða er hins vegar fyrir slíkum kröfum.“
Hvergi í öllum leiðaranum minnist Hörður á laun forstjóra í einka- eða opinbera geiranum, hvað þá launahækkanir þeirra undanfarið (sjá t.d. greinar Fanneyjar Birnu Jónsdóttur og Þorvalds Gylfasonar). Ætti hann þó sem ritstjóri Markaðarins að hafa nokkuð glögga mynd af hreint ágætum launakjörum landsins útvöldu sona. En það hentar auðvitað ekki að ræða það, svona rétt á meðan verið er að pönkast á konum sem vinna raunverulega mikilvæg störf — og hafa umtalsvert betri árangri að státa sig af en margur forstjórinn.

En annars ætlaði víst ég bara að vísa beint á það sem Gunnar Smári sagði um leiðara Ólafar og Harðar.
„Með fréttaflutningi sínum gegn ljósmæðrum á undanförnum dögum og með tveimur leiðurum í röð, þar sem blaðið stillir sér upp við hlið klíkuforingja hinna ríku og ríkisstjórnar hans; hefur Fréttablaðið stillt sér upp við hlið hinna ríku í stéttastríði þeirra gegn almenningi.“
Já, alveg rétt, það eru ekki bara leiðararnir. Litli dálkurinn Frá degi til dags, sem er alltaf á leiðarasíðunni hefur í meðförum Jóhanns Óla Eiðssonar haft uppi talsverðan áróður gegn kjarabaráttu ljósmæðra. Í dag var pönkast á þeim fyrir að hafa orðað hlutina klaufalega (í stað þess að segjast ætla að leggja fram formlegar kröfur sögðust þær ætla að leggja fram kröfur sínar í bundnu máli)sem væri kannski í lagi ef sami blaðamaður hefði ekki á þriðjudaginn notað þetta tromp:
„Það er ekki laust við að um mann fari hrollur við það að fylgjast með ófæddum börnum vera brúkuð sem skiptimynt í slíkri baráttu.“
Hann var ekki að kenna ríkisvaldinu um að hætta lífi ófæddra barna, heldur ljósmæðrum.

En í blaðinu í dag var ekki bara Hörður með sínar hugmyndir um að kellingastéttir í einhverju gaufi eigi ekki að vera svona frekar. Kári Stefánsson skrifaði opið bréf til Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra. Það var góð og þörf lesning. Tilefnið er að á vefsíðu fjármálaráðuneytisins hafði birst pistill sem átti „greinilega ætlað að sýna okkur fram á að við Íslendingar gerum býsna vel við ljósmæður.“

Í opna bréfinu fer Kári vandlega yfir þetta með ungbarnadauðann. Hér eru tölfræðilegu upplýsingarnar:
„Um miðja síðustu öld var ungbarnadauði á Íslandi með ólíkindum og einhver sá hæsti sem skráður hefur verið í mannkynssögunni eða 238 af hverjum þúsund börnum fæddum. Í dag er hann um það bil hundrað sinnum minni eða 2 af hverjum þúsund og er lægstur í heimi hér.“
Annars skrifaði líka Helga Gottfreðsdóttir prófessor og formaður námsbrautar í ljósmóðurfræði pistil í vikunni og útlistaði þar nánar störf ljósmæðra. Einn áhugaverðan og óþægilegan punkt kom hún með í lokin.
„Mikið hefur verið lagt í til að viðhalda góðri menntun heilbrigðisstétta hér á landi. Fjöldi klínískra kennara í ljósmóðurfræði hefur nú sagt starfi sínu lausu til að knýja á um bætt kjör. Það hefur áhrif víða. Í haust mæta ljósmæðranemar í skólann og ég veit ekki hverjir eiga að kenna þeim í klínísku námi.“
Í sama blaði birti Guðlaug Maria Sigurðardóttir ljósmóðir í kjaranefnd ljósmæðra svar við fjölmiðlaumfjöllun fjármála- og efnahagsráðuneytisins um kjör ljósmæðra. Það mætti líka hafa svar hennar í huga þegar fólk vegur og metur hvort það ætlar að halda með forríka frjálshyggju-fjármálaráðherranum í þessari deilu.

Fer ekki annars að líða að barnaafmæli hjá honum svo hann geti bakað köku? Svo barngóður hann Bjarni okkar Ben.

Efnisorð: , , , , , , , , ,