þriðjudagur, júní 12, 2018

Borgarstjór inn/nin

Þá er búið að skipa til sætis í borgarstjórn. Allt fram til þeirrar stundar bjóst ég við að Líf Magneudóttir gengi úr skaftinu, steðjaði yfir til Eyþórs og byðist til að auka veg hans. Svona eins og vinstrigræn gera gjarnan þessa dagana. En það gerði hún semsagt ekki heldur styður meirihluta sem er með óvenju margar konur sem oddvita sinna framboða, en verður samt sem áður með karlmann í stól borgarstjóra. Allt eðlilegt á þeim bæ.

Reyndar mátti ekki á milli sjá hvorn mér leist verr á sem borgarstjóra, Eyþór eða Dag. Eyþór er náttúrlega frægur fyrir ölvunarakstur sem hann reyndi að koma yfir á konu sína (það er/var víst ekki óalgengt að fullir kallar láti eiginkonur sínar taka skellinn og sé sama þótt þær missi ökuréttindin því það er mikilvægara fyrir þá að halda mannorðinu/geta keyrt áfram heldur en fyrir konurnar), fyrir að vera í margvíslegum bissness án þess að nokkur viti hvernig hann á að hafa eignast peninga, fyrir að kaupa/leppa hlut í Mogganum og vera þar í hávegum hafður (að styðja og vera studdur af Davíð eru ekki meðmæli með nokkrum manni), og svo var hann jú í ágætri hljómsveit sem flestir þræta nú fyrir að hafa fílað, eingöngu vegna hins slepjulega framagosa.

Dagur afturámóti kemur vel fyrir, myndarlegur, hress, virkar almennilegur, en hefur þann djöful að draga að hafa verið viðloðandi skipulagsmál í Reykjavík megnið af þeim tíma sem verktakalýðræðið fékk að blómstra. Og stendur í fullum blóma, eins og sést á fjölda byggingakrana hvert sem litið er. Sá steypuskógur sem risinn er í og við miðbæinn hefur eyðilagt sérstöðu Reykjavíkur sem lágreistrar byggðar húsa af fjölbreyttu tagi. Það er borgin sem margir borgarbúar halda uppá og túristarnir vilja sækja heim, ekki steypuklumparnir þar sem á að selja þeim hótelgistingu.

Hjólastígana hef ég verið ánægð með, og jafnvel takmarkanir á bílaumferð (sjá þó gagnrýni á umferð um lokaðar götur), og það er í rauninni eitthvað það besta við stjórn borgarinnar undanfarin ár, að betra sé að ferðast um borgina án þess að nota bíl. Sannarlega leist mér ekki á miðlægu gatnamótin sem Eyþór boðaði. En ég er á þeirri skoðun að gjörbreyta verði strætókerfinu, bæta við leiðum sem ganga inn í hverfi, þ.m.t. Skólavörðuholtið, fjölga ferðum og hafa ókeypis í strætó. Borgarlínan kemst ekki í gagnið nærri strax og þangað til er brýnt að auka aðsókn að strætó með því að gera hann að aðgengilegri og þægilegri ferðamáta.

En það er þetta með þéttingu byggðar. Ég er kannski gamaldags og skil ekki borgarfræði og skipulag í þágu lýðheilsu, eða hvernig þessir frasar eru nú, en mér finnst óþægilegt að byggja eigi á öllum auðum svæðum (land Keldna; mér finnst reyndar líka vond tilhugsun í sumum tilvikum að auka steypumagn á svæðum sem er þegar byggt á, sbr. Landspítalalóðin.) Það virðist hvergi mega vera grasbali með fíflum, ónotuð lóð með njólum eða mói (getur maður sagt ræktarlegur mói ef þar er ekkert ræktað heldur sjálfsprottið; er það þá óræktarlegur mói?) heldur er markaður þar reitur til að byggja byggja byggja. Oft hótel — en nú er vænlegt til vinsælda (sjá kjör núverandi meirihluta borgarstjórnar) að lofa að byggja stúdentaíbúðir eða húsnæði fyrir fólk sem ekki er forríkt. Svo fara flestar lóðirnar undir byggingar verktaka sem smyrja vel á reikninginn og úr verða íbúðir sem aðeins efnað fólk getur keypt.

Ég er kannski gamaldags og sveitaleg en mér líkar vel við auð svæði, móa, njóla og óslegna fífilgróna grasbala. Ég held að það sé ekki uppskrift að góðri borg fyrir íbúana, að þar sé steypa hvar sem litið er; mér finnst það skrítin skipulagsstefna og furðuleg. En það hefur einmitt verið stefna fráfarandi meirihluta borgarstjórnar og verður sennilega stefnan áfram, að hvergi sé friður fyrir steypu; helst sé verið að grafa, sprengja, byggja og djöflast í hverju grónu hverfi borgarinnar.

Ég fagna ekki nýrri borgarstjórn, og ekki nýjum borgarstjóra.

Þó hefði skrípið ekki verið betra.

Svo líklega er það eins og venjulega: taka þessu eins og hverju öðru hundsbiti.

Efnisorð: , ,