sunnudagur, maí 20, 2018

Býflugurnar og blómin

Býflugnadagurinn er í fyrsta sinn haldinn í dag á heimsvísu að tilstuðlan Sameinuðu þjóðanna. Einsog dyggir lesendur bloggsins vita eiga býflugur undir högg að sækja.

Býflugur fræva þrjár af hverjum fjórum nytjaplöntum og leika þannig lykilhlutverk í matvælaframleiðslu heimsins, eins og kunnugt er. Þær eru einnig elskar að blómum í venjulegum íslenskum görðum, og suða þar milli innfluttra skrautjurta. Einnig hafa þær einsog við vitum sérstakar mætur á fíflum, þá sjaldan þeir fá að vaxa óáreittir.

Það ríkir einhverskonar öfugur rasismi í reykvískum húsagörðum. Hið sjálfsprottna er ekki bara litið hornauga heldur gerð gangskör í að uppræta það. Aðfluttri, helst innfluttri, flóru er hinsvegar gert hátt undir höfði.* Arfi auðvitað aldrei vinsæll í blómabeðum (þó hann sé bæði fallegur og bragðgóður) en að fíflar og sóleyjar séu miskunnarlaust fjarlægð og útlæg gerr er heldur aumlegt hjá þjóð sem hingaðtil hefur mátt þakka fyrir að hér vaxi yfirleitt nokkur gróður. En nei, túlípanar og útlenskt hekk, og bara hverskonar innflytjendur eru það eina sem sómi þykir að í görðum Reykjavíkur. SAD.


___
*Alveg öfugt við upprætingu útlenskættaðra trjáa á Þingvöllum og lúpínu um land allt.

Efnisorð: , ,