þriðjudagur, maí 08, 2018

Lítið tóndæmi um meðferð á minnst metna og lægst launaða starfsfólkinu — og svo háttalag þeirra hæst launuðu sem aldrei fá nóg

Assgoti er merkilegt að geta lækkað fólk í launum á forsendum rekstrarhagræðingar en þiggja á sama tíma kauphækkun. Sitja svo á fundi með þjónustufulltrúnum á fundi og staðfesta þar „að þeir hafi verið einu starfsmennirnir sem var gert að taka á sig beina launalækkun, en þeir hafi verið launalægstu starfsmenn hússins“. Biðja þá svo vel að lifa þegar sautján þjónustufulltrar segja upp í mótmælaskyni.

Þegar allt er orðið brjálað vegna meðferðarinnar á þessum lægstlaunuðu starfsmönnum, og að ekki hafi verið komið til móts við þá í stað þess að horfa á eftir þeim sárum og svekktum útum dyrnar, jú þá fyrst óskar forstjórinn eftir að laun sín verði lækkuð — en auðvitað bara til að lægja öldurnar. Samdi sjálfsagt um það í leiðinni að fá þá launalækkun leiðrétta síðar - og þá afturvirkt. Drengilegt og stórmannlegt er þetta ekki.

Ég held að bæði forstjóri og stjórn ættu að segja af sér. En fyrst og fremst ættu eigendur fyrirtækja og fólk í stjórnunarstöðum að endurskoða viðhorf sín til fólks sem það hefur í vinnu. Ekki endilega nota aðstöðu sína til að níðast á því.

Til vara má hugsa alla framkomu sína við undirmenn í samhengi við fjölmiðlaumfjöllun: Hvað ef fjölmiðlar kæmust að því hvernig farið er með starfsfólk á þessum vinnustað? Það færi mun betur með mannorðið að hugsa útí það fyrr.


___
[Viðbót] Magnús Guðmundsson fer vel yfir þetta mál í leiðaranum Yfirklór.

Efnisorð: