mánudagur, apríl 30, 2018

Stutt og hvalgott mánaðamótauppgjör

Leiðtogafundur á landamærum Norður-Kóreu og Suður-Kóreu
Tvær kenningar um sögulegan leiðtogafund Kim Jong-un leiðtoga Norður-Kóreu og Moon Jae-in forseta Suður-Kóreu og (sem smullu svo vel saman að það mætti kalla þá Kimoon eða Moonkim).

Sú fyrri og krúttlegri er sú að kjarnorkuárásahótanir Kim Jong-un hafi verið athyglisleit einmana barns sem kunni sér ekki hóf í frekju, en þegar einhver sýnir honum vinsemd bráðni hann sem smjör og vilji ekkert frekar en eiga von á fleiri skemmtilegum stundum saman. Er meira segja til í að henda dótinu sem hann lék sér að áður.

Hin kenningin er sú að saman séu þeir Moon og Kim að undirbúa árás á Japan.

HVAL! HVAL! HVAL!
Hvalveiðiskip Kristjáns Loftssonar verða sendar á langreyðaveiðar í sumar, eftir 2ja ára veiðihlé. Markmiðið er að drepa 209 langreyðar, alveg burtséð frá möguleikanum á að koma kjötinu í verð, og í trássi við alþjóðasamfélagið. Yfirskin veiðanna er „rannsóknir á möguleikum þess að nýta langreyðarkjöt í járnríkt fæðubótarefni fyrir fólk sem þjáist af blóðleysi, auk þess sem gelatín úr beinum og hvalspiki verður nýtt til lækninga og í matvæli.“

Jóhann S. Bogason gagnrýnir í Kjarnanum þessar fyrirhuguðu hvalveiðar:
„Kristján Loftsson milljarðamæringur vill skjóta hvalina með sprengiskutlum. Til að breyta þeim í fæðubótarefni. Með sprengiskutlum! Þegar skutullinn lendir í spendýrinu þá springur hann. Þetta er ekkert annað en villimannsleg og viðurstyggileg aðferð til að bana spendýri. Hvaða bjánar telja réttlætanlegt að skjóta spendýr með sprengjum? Hvaða veiðimaður myndi stæra sig af því að skjóta hreindýr með sprengjuskutli? Kristjáni Loftssyni er einfaldlega skítsama. Hann á ógrynni af seðlum. Hann vill bara sprengja hvali. Sprengja þá í tætlur fyrir „fæðubótarefni“.“
Valgerður Árnadóttir skrifaði í Stundina um „Typpi, hvali og Kristján Loftsson“ og segir þar:
„Kristján Loftsson eigandi Hvals hf. hætti veiði á hval 2016 vegna þess að hann sat uppi með fryst hvalkjöt að verðmæti 3,6 milljarða. Hversu marga hvali drap hann með kvalarfullum hætti sem hann gat svo ekki selt? Kristján breytti hvalkjötinu í hvalmjöl og óskaði eftir leyfi frá Matvælastofnun að fá að selja það til dýrafóðurs en fékk synjun, hann kærði synjunina og fékk svo aftur endanlega synjun því hvalmjölið þótti ekki hæft í dýrafóður.
Kristján Loftsson dó þó ekki ráðalaus heldur fékk hann undanþágu hjá Sigurði Inga Jóhannssyni þáverandi umhverfis- og auðlindamálaráðherra til að brugga bjór úr hvalmjölinu. Mjöl sem áður var hafnað sem dýrafóður. Verði ykkur að góðu sem fenguð ykkur hvalbjór óafvitandi. Í hvaða öðru landi myndi ráðherra taka fram fyrir hendurnar á Matvælastofnun með þessum hætti?
Kristján Loftsson og velvild í hans garð heldur áfram því honum tókst að fá Nýsköpunarsjóð og Háskóla Íslands til liðs við sig og saman hófu þau vöruþróun á fæðubótarefni með þeim tilgangi að bjarga fólki sem þjáist af blóðleysi.
[…]
Morgunblaðið, málgagn Sjálfstæðisflokksins kynnir Kristján Loftsson til leiks eins og einhvern bjargvætt sem ætlar að leysa mest aðkallandi vanda þriðja heimsins í dag, eins og hann sé allt í einu að veiða hval í góðgerðaskyni. Ætlar Kristján Loftsson semsagt að gefa þróunarlöndum þetta fæðubótarefni? Og hvernig ætlar hann þá að flytja það til þeirra þegar ekki má sigla með hráefni úr hval um lögsögu fjölmargra ríkja og þegar afurðirnar eru í ofanálag bannaðar allstaðar nema í Noregi og Japan? Ekki einu sinni þriðja heims ríki vilja þiggja þetta fæðubótarefni.
[…]
Þessi farsi er svo absúrd að ég á erfitt með að trúa því að HÍ, Nýsköpunarsjóður, Morgunblaðið og Ríkisstjórn Íslands séu að taka þátt í honum.“
En aftur að hvalveiðunum sjálfum. Já og Kristjáni auðvitað, okkar eigin Ahab skipstjóra sem skal elta og drepa hvali(nn) fram í rauðan dauðann, haldinn sjúklegri þráhyggju. Ole Anton Bieltvedt skrifaði einmitt grein með yfirskriftinni „Á þráhyggja eins manns að ráða för?
„Hvalveiðar hafa verið bannaðar frá 1986 – þó Íslendingar, Norðmenn og Japanir hafi þráast við að hlíta banni – og er sala á hvalkjöti og öllum afurðum hvala bönnuð um allan heim, að undanskildum nefndum 3 löndum, skv. „Samningi um alþjóðaverzlun með tegundir í útrýmingarhættu“, nefndur CITES, en árið 2016 höfðu 186 þjóðir heims, þ. á m. Ísland, staðfest þennan samning.

Eru veiðiáformin réttlætt með því, „að vonir séu um að dregið verði úr innflutningshindrunum í Japan sem er helsta markaðsland hvalaafurða“, eins og segir í frétt í Morgunblaðinu, og, enn fremur: „Þá eru bundnar vonir við að hægt verði að þróa aðferðir til að vinna fæðubótarefni úr langreyðarkjöti?…“.

Hér á sem sagt að murka líftóruna úr allt að 209 langreyðum, en langreyðurin er næststærsta núlifandi dýrategund jarðar, út á VONIR.
[…]
Hvernig ætti líka að vera hægt að reka friðsama hvalaskoðun, dýrunum til dýrðar, annars vegar, og, hins vegar, murka úr þeim líftóruna, með hörmulegum og kvalafullum hætti?

Kristján Loftsson og bandamenn hans, utanríkisráðherra og sjávarútvegsráðherra, réttlæta veiðileyfi með því, að hvalveiðar hafi verið hér við lýði, en samt hafi ferðamannastraumurinn aukist. Þetta er villandi eða alröng tilvitnun, því hvalveiði hefur að mestu legið niðri síðustu ár, auk þess, sem ferðamenn munu gera á því mikinn greinarmun, hvort tveir tugir hrefna, smáhvela, eru veiddir, eða á þriðja hundrað stórhveli; næststærsta dýrategund jarðarinnar.“
Kristján Loftsson kemur líka við sögu í fréttum um kaup Brims á öllum hlutum hans í HB Granda. Kristján fékk 21,7 milljarð úr viðskiptunum og getur leikið sér að drepa hvali lengi lengi fyrir þann pening. En semsagt, aftur að kaupum Brims. Í Markaðnum 25. apríl var ítarlega fjallað um þessi viðskipti, og að auki skrifaði Stjórnarmaðurinn (nafnlaus penni blaðsins) pistil um málið:
„Eftir yfirtökuna eiga fyrirtæki tengd Brimi ríflega fimmtung alls kvóta í landinu. Athyglisvert verður að sjá hvað bæði Fiskistofa og Samkeppniseftirlitið hafa um kaupin aðsegja: Fiskistofa um það hve stór hluti kvótans safnast þarna á sömu hönd, og Samkeppniseftirlitð um hvernig svo viðamikið ítök í sjávarútvegi samræmist samkeppnis reglum.“
Fimmtungur alls kvóta í landinu, jahá. Viðamikil ítök í sjávarútvegi þýða jafnframt ítök í stjórnmálaflokkum og þarmeð stjórn fiskveiða, ákvörðun auðlindagjalds, svo fátt eitt sé talið. Viljum við að Guðmundur í Brimi hafi svo mikil völd?

Efnisorð: , ,