laugardagur, mars 31, 2018

Marsmánuður 2018

Hér er fyrst áríðandi tilkynning. Mánaðamótauppgjör fyrir janúar og febrúar hefur loksins verið birt. Afsakið töfina, tæknin var eitthvað að stríða okkur.

Kjarninn hefur gert oss stórgreiða með því að fara yfir helstu mál ársfjórðungsins. Í þeirri röð sem yfirlitin hafa birst:
1) Órói á vinnumarkaði
2) Vantraust á dómsmálaráðherra
3) United Silicon verður gjaldþrota og grunur um glæpi


Tekur þá við eigin samantekt að hætti bloggsins.

Valdakall hrökklast frá völdum
Spillingarmál felldu Zuma forseta Suður-Afríku. Suður-Afríska þjóðarráðið krafðist þess að hann segði af sér en hann þráaðist við þar hann sá fram á að atkvæðagreiðsla um vantraust yrði honum óhagstæð. Þá hrökklaðist tuttugu barna faðirinn frá völdum, afar ósáttur. „Það þarf að dæma mig eftir því sem ég hef gert. Enginn hefur sýnt fram á að ég hafi gert nokkuð af mér. Hef ég gert eitthvað af mér? Ef svo er, hvað? Enginn hefur getað svarað þessu,“ sagði Zuma. Aðförin að honum væri ósanngjörn.

Þegar hann varð fyrst forseti árið 2009 sagðist hann bara ætla að sitja eitt kjörtímabil en bauð sig svo fram aftur og aftur þrátt fyrir háværa gagnrýni um spillingu (t.d. í tengslum við milljarða Bandaríkjadala vopnasölusamning frá árinu 1999). Hann hefur að auki verið sakaður um nauðgun, fjárdrátt og peningaþvætti. Það er von að svona eðalmenni sárni að vera bolað frá.

Valdakallar til eilífðar*
Dæmi 1:
Pútín var kjörinn forseti Rússlands eina ferðina enn, en ekki hvað. Hann hefur verið við völd frá árinu 2000, fyrst sem forseti (en mátti ekki sitja lengur en til 2008: þá mátti bara sitja fjögur ár í einu og átta ár alls), svo forsætisráðherra (sem stýrði forsetanum), svo aftur forseti frá 2012, og þó búið sé að lengja kjörtímabilið í sex ár ætlar hann ætlar sér örugglega að vera lengur en til 2024. Pútín rígheldur um valdataumana og er ekkert á förum.

Dæmi 2:
Xi Jingping hefur ekki verið forseti Kína nema síðan 2013 en hann ætlar greinilega að verða einsog Pútín og fleiri valdasjúkir karlar sem vilja ríkja með einræðistilburðum til eilífðar. Persónudýrkunin á 'sterka manninum' veldur því að almenningur hrífst af leiðtogahæfileikum þeirra og þeir komast upp með að sitja í embætti lengur en góðu hófi gegnir. Þeir beita auðvitað til þess ýmsum brögðum, sveigja t.a.m. reglur sér í hag.

Í fyrra voru stefna og hugsjónir Xi Jingping festar í lög Kommúnistaflokksins. Fyrri leiðtogar flokksins höfðu fengið ýmsar hugmyndir og stefnur í stjórnarskrá flokksins en Xi er sá fyrsti síðan Maó Zedong var og hét sem fær nafn sitt og sérstaka hugmyndafræði festa í plaggið.

Tveggja kjörtímabila reglunni var komið á fót af Deng Xiaoping á tíunda áratug síðustu aldar. Var það meðal annars gert með það að markmiði að koma í veg fyrir að menn yrðu samgrónir forsetastólnum.“ (Vísir)
Nú er búið að breyta reglunum Xi í hag, og getur hann stýrt Kína til dauðadags, eins og Maó. Xi Jingping vill auðvitað ekki vera minni maður en hann í þeim efnum fremur en öðrum.

Dæmi 3:
Og það er ekki eins og Assad sé neitt að fara að segja af sér á næstunni. Hann virðist ekkert kippa sér upp við að tæp hálf milljón hafi fallið í stríðinu sem nú hefur staðið í sjö ár. Á þeim tíma hafa 6 milljónir Sýrlendingar flúið landið og eru á flótta, aðrar 6 milljónir eru á vergangi innanlands. Allt frekar en láta af völdum. Þetta er nú meiri helvítis skepnan.

Sýrland
Ástandinu í Sýrlandi verður ekki lýst í fáum orðum. Hér á eftir fara stikkprufur úr fréttum. Fyrst kemur frétt sem virðist við fyrstu sýn vera um sakleysislegri hluti en dráp á almennum borgurum en sýnir þó að þátttaka Tyrkja í stríðinu (sem beinist einna helst gegn Kúrdum) er síst til að bæta ástandið á nokkurn hátt.

30. janúar
Loftárásir tyrkneska hersins hafa eyðilagt stóran hluta Ain Dara-musterisins í Afrin-héraði Sýrlands. Frá þessu greindu sýrlenska ríkisstjórnin og bresku samtökin Syrian Observatory for Human Rights í gær. 

Myndum af rústunum hefur verið dreift á samfélagsmiðlum og má sjá á þeim að sprengigígur hefur myndast í miðju musterissvæðisins sem og rústir þar sem áður stóðu ljón, hoggin úr basalti. Talið er að Aramear hafi byggt hofið og gert stytturnar um þúsund árum fyrir Krist og er musterið því þrjú þúsund ára gamalt.

 Syrian Observatory segir um 60 prósent hofsins nú rústir einar og hafa verið frá því í loftárásunum á föstudag. Minnst 51 almennur borgari fórst í aðgerðum Tyrkja í Afrin.

„Í þessari árás kristallast hatur og villimennska ógnarstjórnarinnar í Tyrklandi gagnvart sýrlensku þjóðinni, fortíð hennar, nútíð og framtíð,“ sagði í tilkynningu frá þjóðminjastofnun Sýrlands. 

Borgarastyrjöldin hefur geisað í Sýrlandi frá 2011 og hefur valdið ómetanlegum skaða á fornminjum. Ber þar helst að nefna hina fornu borg Palmyra, sem er á Heimsminjaskrá UNESCO. Hryðjuverkasamtökin sem kenna sig við íslamskt ríki rústuðu þar meðal annars 2.000 ára gömlu musteri og fornu leikhúsi.



Maamoun Abdulkarim, fyrrverandi framkvæmdastjóri þjóðminjastofnunarinnar, sagði við AFP í gær að eyðilegging Ain Dara væri jafnmikill harmleikur og það sem gerðist í Palmyra. Hann hefði jafnframt áhyggjur af fjölda fornra bæja nálægt víglínunni í Afrin.

Tyrkir herja nú á Kúrda í héraðinu og reyna að uppræta starfsemi hersveita þeirra, YPG, en svæðið á landamæri að Tyrklandi. Tyrkir telja YPG hernaðararm Verkamannaflokks Kúrda, PKK, en NATO og ESB líta á flokkinn sem hryðjuverkasamtök. Því neita Kúrdar og Bandaríkjamenn. 
(Vísir)

21. febrúar
Sprengjum fylgismanna Bashar al-Assad Sýrlandsforseta rigndi áfram yfir Austur-Ghouta, skammt frá Damaskus í Sýrlandi í gær og fórust tugir almennra borgara í árásunum. Aðgerðasinnar á svæðinu héldu því fram í gær að Assad-liðar hefðu varpað sprengjum á að minnsta kosti tíu bæi og þorp í Austur-Ghouta í gærmorgun.

UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, sendi frá sér yfirlýsingu í gær um þann mikla fjölda barna sem farist hefur í átökum undanfarinna daga á Damaskussvæðinu. Þar sagði að engin orð gætu lýst hryllingnum. Í kjölfarið fylgdu tíu auðar línur og svo stutt útskýring. „UNICEF gefur nú út þessa auðu yfirlýsingu. Við höfum engin orð til að lýsa þjáningu þessara barna. Eiga þeir sem eiga sök í málinu einhver orð til að réttlæta þessa villimennsku?“ (Vísir)

22. febrúar
„Við erum bara að bíða eftir því að það sé komið að okkur að deyja. Meira hef ég ekki að segja,“ sagði Bilal Abu Salah við Reuters í gær. Salah er íbúi í Douma, stærsta bæ Austur-Ghouta í Sýrlandi þar sem sprengjum hefur rignt linnulaust yfir borgara undanfarna daga. Hann er 22 ára gamall og á von á sínu fyrsta barni með eiginkonu sinni sem er komin fimm mánuði á leið.

Að minnsta kosti 45 fórust og rúmlega 200 særðust í árásum fylgismanna Bashars al-Assad, forseta Sýrlands, í Austur-Ghouta í gær. Þýðir það að frá því á sunnudag, þegar Assad-liðar settu aukinn þunga í sókn sína, hafa rúmlega 300 farist.

Austur-Ghouta er síðasta stóra vígi uppreisnarmanna nærri höfuðborginni Damaskus. Svæðið er umkringt landsvæðum sem stjórnarherinn og bandamenn hans stýra og eru nærri 400.000 almennir borgarar innlyksa í Austur-Ghouta þar sem hjálparsamtök segja að matur, eldsneyti og lyf séu af skornum skammti. (Vísir)

23. febrúar
Staðan er sirka þessi: „Stríðið í Sýrlandi verður sífellt flóknara og fleiri aðilar dragast inn í átökin.“ (Fréttablaðið)

24. febrúar
Að sögn YPG, her sýrlenskra Kúrda, féll Íslendingur sem barðist með þeim, í loftárás tyrkneska hersins í Afrin í Sýrlandi þennan dag. Af því bárust engar fréttir lengi vel og enn er margt á huldu um afdrif hans.

27. febrúar
Á síðustu átta dögum hafa rúmlega 550 manns, stór hluti þeirra börn, verið myrtir í Ghouta-hverfi í útjaðri Damaskus. Hersveitir hliðhollar ríkjandi valdi í Sýrlandi hafa með stuðningi Rússa jafnað spítala við jörðu í hverfinu með ítrekuðum loftárásum. Hersveitirnar varpa tunnum, yfirfullum af sprengiefni, sprengjubrotum og jafnvel eiturefnum, úr þyrlum yfir hverfinu þar sem fjögur hundruð þúsund óbreyttir borgarar lifa milli vonar og ótta. Á milli þeirra leynast 580 uppreisnarmenn. Sýrlensk yfirvöld eru reiðubúin að fremja fjöldamorð á eigin þegnum til að útrýma þeim. (Vísir)

17. mars
Tugir þúsunda óbreyttra borgara á flótta. Óbreyttir borgarar flýja í dag tvö svæði, annars vegar Austur-Gúta og hins vegar Afrin. (Vísir)

25. mars
Óbreyttir borgarar og sýrlenskir uppreisnarmenn flýja hið stríðshrjáða svæði Austur-Gúta, sem er í útjaðri höfuðborgarinnar Damaskus í Sýrlandi. Svæðið var áður á valdi uppreisnarmanna. Hundruð neyðast til að flýja heimkynni sín þegar aukinn þungi færist í ásókn stjórnarhers Bashars al-Assad, forseta Sýrlands.

Sýrlenski stjórnarherinn hrifsar á ný til sín völdin eftir margra ára stríð. Síðustu vikur hafa einkennst af sprengjuregni af völdum stjórnarhersins en að því er fram kemur á vef Sky News hafa yfirvöld í Sýrlandi sett uppreisnarmönnum afarkosti; annað hvort að hætta að berjast og ganga til liðs við stjórnarherinn ellegar yfirgefa svæðið með fjölskyldum sínum.



Um níu hundruð manns hafa yfirgefið Austur-Gúta í dag. Talið er að fólkið haldi norður til Idlib-héraðs í Sýrlandi.

Embættismenn hjá Sameinuðu þjóðunum haft hugtökin stríðsglæpir og glæpir gegn mannkyninu um baráttuaðferðir stjórnarhersins. Verið sé að reka almenna borgara á flótta. (Vísir)

Vopnaflutningar Air Atlanta með samþykki íslenskra stjórnvalda
Eftir allar þessar hræðilegu fréttir frá Sýrlandi var sérlega óþægilegt að komast að því að með tilstuðlan íslenskra stjórnvalda hafa vopn verið flutt með flugvélum Air Atlanta til Saudi-Arabíu, sem bæði er (stuðnings)aðili að stríðinu í Sýrlandi og Jemen. Það er með tilstilli okkar sem þessi börn deyja, sem fullorðnir deyja, sem börn sjá foreldra sína deyja, og foreldrar sjá börnin sín deyja. Skömm okkar er mikil.

Það var hinn ágæti fréttaskýringaþáttur Ríkisútvarpsins Kveikur sem rannsakaði og fjallaði um málið.

Úr vopnum sem notuð eru gegn fólki yfir í eiturefnahernað ýmislegan
ESB ætlar að banna eitt algengasta skordýraeitur heims til að vernda býflugur
„Vísindamenn á vegum Evrópusambandsins hafa komist að þeirri niðurstöðu að algengasta skordýraeitur heims sé sérlega hættulegt hunangsflugum og villtum býflugum. Líklegt er talið að sambandið muni banna notkun á fundi í næsta mánuði.

Matvælaöryggisstofnun Evrópu (Efsa) segir í skýrslu sem birt var á miðvikudag að neonicotoid-efni sé alltaf skaðleg býflugum þegar það er notað utandyra. Lengi hefur verið varað við skaðlegum áhrifum skordýraeitursins. Þegar efsa skilað fyrst skýrslu um efnin árið 2013 var niðurstaðan sú að þau yllu „óásættanlegri“ hættu fyrir býflugurnar. Notkun efnanna var bönnuð að hluta í Evrópusambandslöndum í apríl það ár.

Býflugur fræva þrjár af hverjum [fjórum] nytjaplöntum og leika þannig lykilhlutverk í matvælaframleiðslu heimsins. Hrun í býflugnastofninum hefur verið skýrt með sjúkdómum, taps búsvæða og víðtækrar notkunar á skordýraeitri sem inniheldur neonicotoid-efni." (Vísir)

Tvö ágæt orð sem lýsa ástandi
Ásta Svavarsdóttir rakst á orðið vinfengisógnun þegar hún var að
„skoða siðareglur starfgreina sem hafa með fjármuni fólks og fyrirtækja að gera.

Vinfengisógnun er skemmtilegt og lýsandi orð og lýsir ákveðinni hættu sem getur skapast þegar tengsl aðila fara út fyrir hið viðskiptalega samband. Mörk vináttunnar og hinna viðskiptalegu tengsla geta orðið ansi óljós.“

Nepotismi hefur verið þýtt sem frændahygling eða frænddrægni, og til skýringar að orðið eigi við um það að draga taum ættmenna við stöðuveitingar og þvíumlíkt. Þorvaldur Gylfason var að fjalla um slíka spillingu í pistli og notaði þá nýtt orð um fyrirbærið: Nápot. Það þykir mér mikið snjallyrði.

(Með gúggli kemur reyndar í ljós að Þorvaldur hefur notað þetta orð áður.)

Tók 258 ár
Fyrsti landlæknir Íslands var skipaður árið 1760 og er landlæknisembættið eitt elsta samfellda embætti Íslandssögunnar. Alma Dagbjört Möller sem tekur við embættinu á morgun er fyrsta konan til að vera skipuð landlæknir í þessi 258 ár.


___
* [Viðbót] Jón Trausti Reynisson fjallar um þessa kalla og fleiri til í leiðara sínum „Uppgangur fáræðis“ í Stundinni 28. mars - 12. apríl 2018.


Efnisorð: , , , , , , ,