föstudagur, mars 30, 2018

Hjálparstofnanir sem bregðast trausti allra

Það er skaðræðislega vont að heyra að starfsmenn hjálparstofnana víða um heim stundi í stórum stíl að kúga konur til kynlífsathafna. Starfsmennirnir láta konurnar ekki fá mat eða lyf eins og til er ætlast af þeim, heldur neita konunum um þessar lífsnauðsynjar nema þær borgi með afnotum af líkama sínum. „Valkosturinn“ sem þær standa frammi fyrir er að þær og börn þeirra svelta ef þær ekki láta að vilja karlanna. Þetta er viðbjóðslegt.

Á þessum vettvangi hefur áður (febrúar 2016) verið skrifað um friðargæsluliða Sameinuðu þjóðanna, sem héldu barnungar stúlkur (12-15 ára stelpur) sem kynlífsþræla, og undirverkatakar hjá NATO hefðu tekið þátt í mansali.
„[Friðargæsluliðar] keyptu ekki aðeins kynlíf, heldur voru „vændiskonurnar“ ungar að árum; þeim hafði þaraðauki verið rænt og var haldið föngnum. Með öðrum orðum, þær voru kynlífsþrælar friðargæsluliðanna.“

„SÞ hefðu brugðist hvað varðar rannsóknir á brotunum. Einnig kom m.a. fram í skýrslunni að starfsmenn bandarísks verktakafyrirtækis, sem starfaði með sameiginlegu, fjölþjóðlegu herliði undir stjórn NATO á svæðinu, hefðu sætt rökstuddum ásökunum og rannsóknum um þátttöku í mansali.“

„Enginn var látinn sæta ábyrgð á þessum viðbjóði, og að undirverktakafyrirtækið starfar enn eins og ekkert hafi í skorist í alþjóðlegum verkefnum.“
Í mars 2016 „kom í ljós að friðargæsluliðar í Mið-Afríkulýðveldinu höfðu, ásamt frönsku herliði, beitt tugi stúlkna kynferðisofbeldi. Að minnsta kosti 98 stúlkur urðu fyrir barðinu á þeim. Yfirmaður í franska hernum er sagður hafa neytt fjórar þeirra til að hafa kynmök við hund. Friðargæsluliði frá Kongó hefur verið sakaður um að hafa nauðgað 16 ára stúlku á hótelherbergi.

Að minnsta kosti 480 ásakanir komu fram um kynferðislega misneytingu og ofbeldi á árabilinu 2008 – 2013. Um börn var að ræða í þriðjungi tilvika.“
Tilvitnanirnar eru úr grein sem þýdd var fyrir bloggbirtingu, og í greininni kom einnig fram að slíkt framferði friðargæsluliða eigi sér langa sögu, í Kambódíu, Haiti, Marokkó og Suður-Afríku.

Undanfarið hefur komið æ betur í ljós að friðargæsluliðar hafa ekki verið einir um að hegða sér eins og svín í garð kvenna á átakasvæðum eða þar sem mannúðarstarfs er þörf.

Sameinuðu þjóðirnar
Upp hefur komist að menn á vegum Sameinuðu þjóðanna og annarra alþjóðlegra hjálparsamtaka í Sýrlandi hafi krafist kynlífs af konum fyrir aðstoð og mat, en slíka aðstoð áttu hjálparstarfsmennirnir auðvitað að láta konunum í té endurgjaldslaust.
„Athygli var vakin á málinu fyrir þremur árum síðan en þrátt fyrir það sýnir ný skýrsla að þessi háttur viðgengst enn í suðurhluta landsins.“

"Konur í Sýrlandi hafa orðið fyrir kynferðislegri misnotkun af hálfu þeirra sem flytja hjálpargögn í landinu fyrir Sameinuðu þjóðirnar og önnur alþjóðleg hjálparsamtök“. Konurnar voru krafðar um kynlíf í skiptum fyrir neyðaraðstoð.

Einn viðmælandi BBC sagði að sum hjálparsamtök leyfðu þessu að viðgangast vegna þess að samstarf við verktaka og sveitarstjórnir á svæðinu væri eina leiðin til að koma neyðaraðstoð til þeirra landshluta sem alþjóðasamtök hefðu ekki aðgang að.“
Ok, það eru semsagt ekki starfsmenn Sameinuðu þjóðanna heldur verktakar og starfsmenn sveitarstjórna sem misnota aðstöðu sína með þessum hætti. Niðurstaðan fyrir veslings konurnar er þó hin sama.

Oxfam
Einn af hæstráðendum bresku góðgerðasamtakanna Oxfam (sem starfa um allan heim) hefur sagt af sér eftir að komst í hámæli að starfsmenn samtakanna keyptu vændi á Haítí „ þegar þeir voru þar að störfum fyrir samtökin eftir jarðskjálftann 2010. Er meðal annars talið að starfsmennirnir hafi nýtt sér barnungar stúlkur en vændi er ólöglegt á Haítí.“ Sama mun hafa verið uppi á teningnum þegar samtökin voru að störfum í afríkuríkinu Chad.

Að því er fram kemur í skýrslu frá samtökunum frá árinu 2011 var þremur mönnum leyft að segja upp og fjórir aðrir voru reknir fyrir alvarlegt misferli í starfi í kjölfar rannsóknar á framferði starfsmannanna. Var meðal annars meint kynferðisleg misnotkun þeirra rannsökuð, niðurhal á klámi og misbeiting valds. 

Einn þeirra sem fékk leyfi til þess að segja upp án þess að það hefði nokkrar frekari afleiðingar var svæðisstjóri Oxfam á Haítí, Roland van Hauwermeiren. Hann viðurkenndi að hafa keypt vændi í villunni sem Oxfam leigði handa honum að því er fram kemur í umræddri skýrslu. (Vísir)

„Tuttugu og tvö hjálparsamtök gáfu út sameiginlega afsökunarbeiðni í gær á að hafa brugðist í meðhöndlun sinni á ásökunum um kynferðislegt misferli starfsmanna, þar á meðal voru Oxfam og Save the Children [Barnaheill]. Fyrrverandi framkvæmdastjóri síðarnefndu samtakanna sagði af sér sem aðstoðarforstjóri Unicef í vikunni vegna ásakana um óviðeigandi hegðun í garð ungra kvenna þegar hann starfaði fyrir hjálparsamtökin. (vísir)“
Rauði krossinn
Ekkert þekki ég til Oxfam umfram það sem ég hef lesið í fréttum, en öðru máli gegnir um Rauða krossinn, sem eru elstu mannúðar- og hjálparsamtök í heiminum, hafa fengið friðarverðlaun Nóbels þrisvar sinnum og hafa starfað með miklum ágætum á Íslandi allt frá árinu 1924. Fyrsti stjórnarformaður Rauða kross Íslands var Sveinn Björnsson hæstaréttarmálaflutningsmaður, síðar forseti Íslands. Allt hljómar þetta svo vel, svo virðulegt, svo gamalgróið og traust.

En í febrúar bárust þær fréttir að starfsmenn Rauða krossins hafi „greitt fyrir kynlífsþjónustu“.
Alþjóðaráð Rauða krossins segir að 21 starfsmaður hafi hætt störfum fyrir hjálparsamtökin vegna kynferðislegs misferlis undanfarin þrjú ár. Starfsmennirnir greiddu fyrir kynlífsþjónustu og sögðu ýmist af sér eða voru reknir.
Hafði þó verið reynt að koma í veg fyrir það:
Siðareglur samtakanna hafi bannað starfsmönnum sérstaklega að greiða fyrir kynlífsþjónustu frá árinu 2006.

Barnaheill
„Justin Forsyth, aðstoðarframkvæmdastjóri Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, Unicef, hefur sagt upp störfum vegna ásakana um óviðeigandi framkomu gagnvart samstarfskonum í fyrra starfi.

Aðalskrifstofa Barnaheilla í Lundúnum hefur upplýst að Forsyth, hafi sent þremur konum sem störfuðu hjá samtökunum óviðeigandi smáskilaboð þegar hann var þar yfirmaður. Þetta gerðist 2011 og 2015. Innanhússrannsókn á málinu hafi í öllum tilfellum lyktað með því að hann hafi beðið konurnar afsökunar.

Stjórn Unicef greindi frá því að þar hafi engar upplýsingar legið fyrir um þessi mál þegar Forsyth var ráðinn til samtakanna árið 2016.“ (RÚV)

Ok, hann var ekki að níðast á skjólstæðingum, hvorki hjá Barnaheillum né Barnahjálpinni — en er til of mikils mælst af körlum sem sækja í starf hjá mannúðarsamtökum að þeir hafi einhverskonar sómakennd og siðferði?

Ég held ég verði að endurtaka (en jafnframt umorða) það sem ég sagði í fyrri pistlinum um friðargæsluliðana fyrir tveimur árum:
„Ekki auka þessar fréttir álitið á karlpeningnum, svo mikið er víst.“



Efnisorð: , , , ,