miðvikudagur, mars 14, 2018

14. mars

Greindarvísitala jarðarbúa lækkaði umtalsvert í dag því Stephen Hawking féll frá.

Illugi Jökulsson smalaði saman nokkrum af fleygustu orðum eðlisfræðingsins heimskunna, segir í inngangi Stundarinnar, og eru það góð dæmi um kímnigáfu Stephen Hawking. Þetta á sérstaklega vel við á dánardegi hans:

 „Ég lít á heilann sem tölvu sem mun hætta að starfa þegar hlutirnir í henni fara að bila. Það er ekki til neitt himnaríki eða framhaldslíf fyrir bilaðar tölvur; það eru ævintýri fyrir myrkfælna.“

Er ekki annars magnað að hann dó ekki aðeins á π daginn (Pí-daginn) heldur á afmælisdegi Alberts Einstein? Sævar Helgi Bragason segir að Stephen Hawking hafi verið bundinn Einstein og Galileo Galilei órofa böndum því hann hafi dáið á fæðingardegi annars og fæðst á dánardegi hins.

Verst að Hawking var ekki forlagatrúar, því það hljómar eins og þetta hafi verið skrifað í stjörnurnar.