þriðjudagur, mars 06, 2018

Syndaaflausn Sigríðar

Þrátt fyrir yfirlýsingar um að vera hætt að fylgjast með stjórnmálum, fór ekki framhjá mér að í dag var lögð fram vantrauststillaga á þinginu. Sigríður Á Andersen stóð þó af sér vantraustið, með dyggum stuðningi samflokksmanna sinna úr Sjálfstæðisflokki, svo og samstarfsflokksmanna úr Vinstri grænum og Framsóknarflokki.

Vantrauststillagan var lögð fram vegna Landsréttarmálsins en það er ekki eina málið sem hefði átt að fella Sigríði úr ráðherrastól(eða koma í veg fyrir að hún yrði aftur ráðherra), enda ferill Sigríðar Á Andersen í dómsmálaráðuneytinu heldur óþokkalegur.

Landsréttarmálið
„[Landsréttarmálið snýst] um það að matsnefnd um hæfi umsækjenda um dómaraembætti við Landsrétt, nýtt millidómstig, lagði fram tillögu um 15 hæfustu einstaklinganna í fyrravor til að taka við 15 stöðum.

Sigríður ákvað að breyta þeirri tillögu og færa fjóra af lista matsnefndarinnar en setja fjóra aðra í staðinn. Í desember 2017 komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að Sigríður hefði brotið gegn stjórnsýslulögum með athæfi sínu í málum sem tveir mannanna sem höfðu verið færðir af listanum höfðuðu. Hinir tveir hafa síðan höfðað bótamál á hendur ríkinu, og má gera ráð fyrir að þau mál fari alla leið í dómskerfinu.“

(úr fréttaskýringu Magnúsar Halldórssonar 6.3.2018)

Meðferðin á flóttafólki og hælisleitendum sem æði oft eru reknir úr landi undir yfirskini Dyflinarreglugerðarinar
„Með hrokafullum og hryssingslegum yfirlýsingum sínum hefur Sigríður sýnt að hún hefur ekki þann félagsþroska og þá mannlegu samkennd með öðru fólki sem ætti að vera skilyrði þess að fá að fara með vald.“

(Illugi Jökulsson í september 2017 í pistlinum „Ætti að vísa Sigríði Andersen úr landi?“ um enn eina brottvísun barna úr landi)

#höfumhátt

„Það hefur sjálfsagt ekki farið fram hjá mörgum hér á landi að brotaþolar Roberts Downey börðust á síðasta ári við dómsmálaráðuneytið um að fá birt gögn um nefndan barnaníðing eða þar til Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra var gerð afturreka með þá ákvörðun sína að slíkar upplýsingar skyldu fara leynt. Þegar steinum var velt kom í ljós annar níðingur sem hafði verið studdur til uppreistar æru af föður flokksformanns dómsmálaráðherra. Varð leyndin í kringum það mál ríkisstjórninni að falli og boðað var til kosninga. Að þeim loknum fékkst sú áhugaverða túlkun á lýðræðinu að téðri Sigríði skyldi aftur lyft upp í ráðherrastól sinn.

[Anna Katrín Snorradóttir, sem hefur lagt fram kæru á hendur Robert Downey fyrir kynferðisbrot, getur] ekki reitt sig á dómsmálaráðherrann eða samflokksmenn hennar enda virðist dagskipunin þar vera að tala niður baráttu brotaþola Roberts Downey sem sást skýrt þegar Páll Magnússon kallaði á dögunum fall ríkisstjórnarinnar „garg og atgang út af litlu“ um leið og hann krafði fólk um að vanda orð sín.“

(úr grein eftir Berg Þór Ingólfsson og Evu Völu Guðjónsdóttur, 25.1.2018)

Auðvitað stóðu ríkisstjórnarflokkarnir saman (fyrir utan tvo stjórnarliða) og hrundu vantrauststillögunni. Til marks um hverjum það hugnaðist best eru ummæli Björns Bjarnasonar forvera Sigríðar í starfi:
„Vinstri græn sönnuðu að þau eru stjórnhæfur flokkur. Berið saman VG og Bjarta framtíð? Þingmenn Bjartrar framtíðar frömdu pólitískt harakiri að næturlagi að ástæðislausu og urðu að engu.“
Sannarlega finnst Sjálfstæðismönnum enn að það hafi verið ástæðulaust að gera veður útaf uppreistaræru málum og leynimakki Sigríðar. Óþægilegra er hve mörgum öðrum þingmönnum fannst ástæða til að lýsa yfir trausti á hana og styðja hana í dag.

Nú er hún með vottorð um að mega allt.

Efnisorð: , ,