laugardagur, mars 24, 2018

Árásarvopn og friðsöm vopn sem bíta

Skotárás var framin í Bandaríkjunum 14. febrúar, og enn einu sinni var skóli vettvangur vopnaðs vitleysings. 17 manns féllu ( þrír starfsmenn og fjórtán nemendur á aldrinum 14-18 ára) og jafnmargir særðust í Marjory Stoneman Douglas gagnfræðaskólanum í Parkland í Flórída. En nú brá svo við að nemendur skólans, sem sumir höfðu staðið í skothríðinni miðri, mótmæltu hástöfum fáránlega slökum reglum um vopnakaup.

14. mars gengu svo nemendur Marjory Stoneman Douglas skólans út til að minnast skólafélaga sinna sem féllu í skotárásinni, og eins og áður gerðu gerðu fjöldi nemenda um öll Bandaríkin það einnig. Stóð minningarstundin í sautján mínútur, eina mínútu fyrir hvern fallinn nemanda í Parkland.

Áður hafa verið gerðar mannskæðar skotárásir í skóla, en þetta er í fyrsta sinn sem fórnarlömb árásarinnar snúa vörn í sókn með svo áberandi hætti og krefjast athygli yfirvalda.

Kröfur nemenda til bandaríska þingsins eru þrjár. Að árásarvopn verði bönnuð, að þeir sem kaupi vopn fari í bakgrunnstékk og að lög verði samþykkt sem geri dómstólum kleift að taka vopn af þeim sem sýnt hafa af sér ofbeldishneigð.

Í dag fóru nemendur og fólk sem er þeim sammála um herta vopnalöggjöf í fjöldagöngur víða um Bandaríkin, þar af gengu hundruð þúsunda í höfuðborginni. Samstöðugöngur fóru fram víða um heim, þar á meðal í Reykjavík. Bandarísku mótmælendurnir gengu undir slagorðinu March for Our Lives eða Göngum til að bjarga lífi okkar.

Nemendurnir hafa einnig verið óþreytandi að tala um atburðinn og tengja hann við sambærilega atburði, og hvernig koma mætti í veg fyrir slíkt með hertum reglum um vopnakaup. Einnig hafa þau hvatt fólk til að sniðganga fyrirtæki sem selja AR-15 árásarriffla (þannig morðvopn notaði skotárásarmaðurinn, eins og margir aðrir kollegar hans á undan honum) og beint spjótum sínum mjög að NRA, samtökum byssueigenda og þeim sem þjónusta þau á einhvern hátt. Til þess hafa nemendurnir notað alla tiltæka samfélagsmiðla.

Og það ótrúlega hefur gerst. Verslanir sem selja byssur (þ.m.t. stórverslanakeðjur á borð við Walmart) hafa tekið AR-15 árásarriffla úr sölu eða hert upp á eigið einsdæmi reglur um hver getur keypt slík vopn. Ein verslunarkeðjan ákvað að „hætta sölu á sérstökum magasínum sem gera það mögulegt að skjóta fleiri skotum úr byssunum á skemmri tíma auk þess sem enginn undir 21 árs aldri mun geta keypt skotvopn í verslunum keðjunnar“. Þá mun verslunarkeðjan „hætta sölu á sérstökum magasínum sem gera það mögulegt að skjóta fleiri skotum úr byssunum á skemmri tíma auk þess sem enginn undir 21 árs aldri mun geta keypt skotvopn“. Einnig hafa fyrirtæki, þar með talin bílaleigur, hótel og flugfélög, hætt að veita félögum í byssusamtökunum NRA afslætti, og bankar og kortafyrirtæki slitið viðskiptum við þau. Máttur sniðgönguhótana er mikill.

Það skyldi þó aldrei vera að skólakrakkar yrðu til þess að umbylta skotvopnalögum í Bandaríkjunum. Þetta eru alltént ferlega flottir krakkar.

Efnisorð: ,