föstudagur, mars 23, 2018

Samþykkisfrumvarpið

Á bloggheimilinu ríkir fögnuður yfir nýsamþykktu frumvarpi um breytingu á skilgreiningu nauðgunar í kynferðiskafla almennra hegningarlaga. Samkvæmt nýju lögunum eru öll tvímæli tekin af um að samþykki sé forsenda kynmaka.

Hér á eftir er það helsta sem kom fram í fréttum um samþykkisfrumvarpið.

Samkvæmt nýju lögunum eru öll tvímæli tekin af um að samþykki sé forsenda kynmaka.

Í umsögn Ragnheiðar Bragadóttur, prófessors í refsirétti við Háskóla Íslands, um frumvarpið sagði meðal annars að lögfesting skilgreiningar nauðgunar út frá samþykki sé eðlilegur þáttur í þróun réttarins og þar sé leitast við að tryggja að lögin séu í samræmi við réttarvitund almennings. Þá kom fram í umsögn Mannréttindaskrifstofu Íslands að um nauðsynlega breytingu hafi verið að ræða til samræmis við Istanbulsamninginn og dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu. (Kjarninn)
Í lögunum er nú samþykki gert að skilyrði, en áður vísuðu lögin eingöngu til ofbeldis, hótana eða annars konar ólögmætrar nauðungar, sem forsendu fyrir að samræði teldis til nauðgunar. „Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við mann án samþykkis hans gerist sekur um nauðgun og skal sæta fangelsi ekki skemur en 1 ár og allt að 16 árum,“ segir í lögunum nú.

„Samþykki telst liggja fyrir ef það er tjáð af frjálsum vilja. Samþykki telst ekki liggja fyrir ef það er fengið með ofbeldi, hótunum eða annars konar ólögmætri nauðung, eða með því að beita blekkingum eða hagnýta sér villu viðkomandi um aðstæður. Til ofbeldis telst svipting sjálfræðis með innilokun, lyfjum eða öðrum sambærilegum hætti.“ (Stundin)
Um er að ræða 194. grein laganna sem nú hljómar svo:
Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við mann án samþykkis hans gerist sekur um nauðgun.

Í eldri útgáfu laganna kom orðið samþykki ekki fyrir heldur var greinin svona:

Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við mann með því að beita ofbeldi, hótunum eða annars konar ólögmætri nauðung gerist sekur um nauðgun. (Vísir)

Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar, var fyrsti flutningsmaður frumvarpsins.*
Jón Steindór sagði í umræðum um málið að frumvarpið sé liður í því að breyta viðhorfum sem feðraveldi fortíðar hefur skapað og eru enn ríkjandi eða eimir sterkt af á ýmsum stöðum. Með frumvarpinu sé horfið frá þeim karllægu sjónarmiðum sem endurspeglast víða að við tilteknar aðstæður eigi karlmaður næstum rétt á kynlífi með konu. Þá sé þau viðhorf lífseig að þegar fólk er í sambandi, hvort sem það er innan hjónabands eða utan, ryðji það með einhverjum hætti úr vegi kynfrelsi og sjálfsákvörðunarrétti þegar kynlíf á í hlut.(Kjarninn)
„Við þurfum að breyta lögunum til samræmis við réttarvitund almennings og beita þeim til þess að breyta viðhorfum og hafa áhrif til hins betra á þessu mikilvæga sviði mannlífsins.“ (Stundin)
Von [Jóns Steindórs] er sú að breytingin verði til þess fallin að fólk hugsi betur um þessa hluti. Gengið sé úr skugga um að samneyti við annað fólk sé með vilja beggja, eða allra. Þetta muni hafa fræðslu og forvarnargildi. (Vísir)
Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari segir það fagnaðarefni að Alþingi hafi ákveðið að breyta ákvæði almennra hegningarlaga er snýr að nauðgun. Hún segir fyrst fremst um táknræna breytinga að ræða sem sendi mikilvæg skilaboð út í samfélagið.


„Ég held að þetta sé fyrst og fremst táknræn breyting og hún er jákvæð. Mitt embætti tók undir þessa breytingu og lagði til að þetta yrði samþykkt. Þetta eru ákveðin skilaboð sem að löggjafinn er að senda út í samfélagið. Það er nauðgun að hafa samfarir eða kynferðismök við einhvern án hans samþykkis,“ segir Kolbrún. (Vísir)
Í öðrum hvorum sjónvarpsfréttatímanum var viðtal við ríkissaksóknara og þar minntist hún á að þessa nýju áhersla í lögunum á að það teljist ekki samþykki ef blekkingum sé beitt eða það sé fengið með því að hagnýta sér villu viðkomandi um aðstæður. Um slíkt blekkingarmál hefur verið skrifað hér á blogginu, og einnig birtur pistill Þórdísar Elvu Þorvaldsdóttur. Sömuleiðis var leiðari Steinunnar Stefánsdóttur um skilgreiningar á nauðgun birtur ásamt eigin hugleiðingum blogghöfundar um þann galla á áðurgildandi skilgreiningu á nauðgun að um líkamsmeiðingar og hótanir yrði að vera að ræða.**

Það er eðlileg niðurstaða á margra ára skrifum um þetta efni, að blogghöfundur fagni því ákaft að nú sé það skýrt samkvæmt lögum að það sé ekkert annað en nauðgun að hafa samfarir eða kynferðismök við einhvern án hans samþykkis.

______

* Þess má geta að frumvarp Atla Gíslasonar og Þuríðar Backman sem þau lögðu fram á 138. löggjafarþingi 2009–2010 gekk út á að gera skort á samþykki að þungamiðju kynferðisbrota.

** 22. ágúst 2008, Nauðganir í skjóli blekkingar
Skrif Þórdísar Elvu Þorvaldsdóttur Bachmann. Blekkingarmálið.
http://vegidurlaunsatri.blogspot.is/2009/08/nauganir-i-skjoli-blekkingar.html

28. nóvember 2009, Nauðgun án frekari valdbeitingar
Leiðari Steinunnar Stefánsdóttir, skilgreining á nauðgun.
http://vegidurlaunsatri.blogspot.is/2009/11/naugun-frekari-valdbeitingar-leiari.html

29. nóvember 2009, Lög senda skilaboð.
Blekkingarmálið.
http://vegidurlaunsatri.blogspot.is/2009/11/log-senda-skilabo.html

2. febrúar 2013, Ætlun, vilji og nautn karlsins skiptir öllu.
http://vegidurlaunsatri.blogspot.is/2013/02/ja-ef-kallinn-verur-ekki-stur-er-ekki.html

6. febrúar 2016, Ásetningur eða samþykki, verknaðaraðferð eða sálarháski
http://vegidurlaunsatri.blogspot.is/2016/02/asetningur-ea-samykki-verknaarafer-ea.html

Efnisorð: