fimmtudagur, apríl 12, 2018

Hanyie og Abrahim Maleki hólpin

Gleðitíðindi:

Afgönsku feðginin Hanyie og Abrahim Maleki hafa fengið stöðu flóttafólks á Íslandi en Útlendingastofnun staðfesti stöðu þeirra á fundi í dag.

Vísir rifjar upp mál þeirra:
Hanyie og Abrahim komu hingað til lands í desember 2016. Þar áður höfðu þau verið á flótta og bjuggu m.a. í Íran, Tyrklandi, Grikklandi og Þýskalandi. Haniye fæddist í flóttamannabúðum í Íran árið 2005 og er ríkisfangslaus ... Mál feðginanna vakti mikla athygli í sumar en þá var haldin afmælisveisla fyrir Haniye á Klambratúni. Á þeim tímapunkti stóðu feðginin frammi fyrir því að vera send úr landi en í september síðastliðnum var brottvísuninni frestað. Þá var einnig samþykkt frumvarp á Alþingi um breytingar á útlendingalögum, sem fólu meðal annars í sér breytingar á dvalarleyfum í tilfelli barna, og í október var feðginunum tilkynnt að mál þeirra yrði tekið til efnismeðferðar.“
„Útlendingastofnun úrskurðaði í fyrra að þeim yrði vísað úr landi þrátt fyrir að Haniye, sem er ellefu ára, sýndi alvarleg einkenni áfallastreituröskunar og geðlægðar eftir flóttann.“ (RÚV)
Og nú er semsagt niðurstaðan komin.

En eins og þarna segir þá vakti mál feðginanna mikla athygli — ekki síst vegna þess að fjölmiðlar fylgdust með því.

Áslaug Karen Jóhannsdóttir blaðamaður Stundarinnar skrifaði áhrifamikla grein um hælisleitendur sem biðja fjölmiðla um umfjöllun, því þeir vita að ef birtast við þá viðtöl þar sem þeir segja frá öllu því erfiðasta sem fyrir þá hefur komið á lífsleiðinni, verður þeim síður vísað úr landi.
„Fólk hefur berskjaldað sig algjörlega fyrir þjóðinni, þó svo að fæstir kjósi að fara þá leið, og fengið ríkisborgararétt að launum.“
Blaðamaður nefnir tvö mál, þar af annað mál feðginana Abrahim og Hanyie:
„Í þessum tveimur tilvikum gripu stjórnvöld í taumana með umdeildri, tímabundinni lagasetningu eftir að fjölmiðlar vöktu athygli á málunum. Við vitum hins vegar að á sama tíma voru á landinu aðrar barnafjölskyldur í jafn viðkvæmri stöðu, en lagabreytingin náði ekki utan um mál þeirra, enda treystu þær sér ekki í fjölmiðlaviðtöl.

Það er ósanngjarnt að fjölmiðlar virki eins og þriðja áfrýjunarvaldið í málum hælisleitenda. Það er ósanngjarnt að þú þurfir að berskjalda þig gjörsamlega til þess að tekið sé á málinu af mannúð“.
Áslaug Karen bendir einnig á að fæstir hælisleitendur treysti sér í slík viðtöl þar sem slík umfjöllun sæti oft mikilli gagnrýni þar sem farið er hörðum orðum um hælisleitendur. Engu að síður eru fjölmiðlar „í augum margra hælisleitenda þriðja áfrýjunarvaldið í málum þeirra“.

Þessvegna eru Abrahim Maleki og Hanyie dóttir hans nú hólpin.

Takk íslenskir fjölmiðlar sem talað hafa máli hælisleitenda.

Efnisorð: , ,