þriðjudagur, maí 15, 2018

Baráttan um kaup og kjör og þak yfir höfuðið; tuttugu árum eftir lengstu þingræðu sögunnar

Tuttugu ár eru liðin frá því Jóhanna Sigurðardóttir hélt lengstu ræðu þingsögunnar. Alls talaði hún tíu tíma, hóf ræðuna á hádegi 14. maí 1998 og hætti skömmu eftir miðnætti þegar kominn var 15. maí.* Tilefni maraþonræðunnar var ærið, og við höfum ekki enn bitið úr nálinni með lögin sem hún var að mótmæla.

Segir svo um ræðuna í blaðinu í dag:
Umrædd ræða Jóhönnu fór fram í annarri umræðu um húsnæðisfrumvarp Páls Péturssonar sem þá var félagsmálaráðherra. Taldi Jóhanna að með frumvarpinu væri stefnt að því að eyðileggja félagslega húsnæðiskerfið sem hafði verið við lýði í hátt í sjötíu ár. Að auki væri það gert einhliða af stjórninni án samráðs við hagsmunaaðila.

Hjálmar Sveinsson hefur rakið í pistli sögu félagslega húsnæðiskerfisins og hvernig það var lagt niður.

En þá aftur að hinni löngu ræðu. Hér er fyrsti hluti:
http://www.althingi.is/altext/122/05/r14122702.sgml

Annar hluti ræðunnar: http://www.althingi.is/altext/122/05/r14133400.sgml 

Þriðji og síðasti hluti ræðunnar:
http://www.althingi.is/altext/122/05/r14203217.sgml 

Jóhanna lauk máli sínu með þessum hætti:
„Herra forseti. Það skulu vera lokaorð mín að ég lýsi allri ábyrgð á hendur þessari ríkisstjórn verði þetta frv. að lögum eins og hér er stefnt að.“
Jóhanna hafði ekki erindi sem erfiði og frumvarp Páls Péturssonar um húsnæðismál varð að lögum og félagslega húsnæðiskerfið var lagt niður.

Já við afnámi félagslega húsnæðiskerfisins sögðu eftirtaldir þingmenn:

Arnbjörg Sveinsdóttir, Árni R. Árnason, Árni Johnsen, Árni M. Mathiesen, Björn Bjarnason, Davíð Oddsson, Egill Jónsson, Einar K. Guðfinnsson, Finnur Ingólfsson, Geir H. Haarde, Guðlaugur Þór Þórðarson, Guðmundur Hallvarðsson, Guðni Ágústsson, Gunnlaugur M. Sigmundsson, Halldór Blöndal, Hjálmar Árnason, Hjálmar Jónsson, Ingibjörg Pálmadóttir, Katrín Fjeldsted, Kristjana Bergsdóttir, Kristján Pálsson, Lára Margrét Ragnarsdóttir, Magnús Stefánsson, Ólafía Ingólfsdóttir, Ólafur Örn Haraldsson, Páll Pétursson, Sigríður A. Þórðardóttir, Siv Friðleifsdóttir, Stefán Guðmundsson, Sturla Böðvarsson, Tómas Ingi Olrich, Valgerður Sverrisdóttir, Þorsteinn Pálsson.

1. maí á þessu ári var öll ræða Jóhönnu lesin upp í heyranda hljóði. Jafnframt var endurreisnar félagslega húsnæðiskerfisins krafist.

Sif Sigmarsdóttir er ein þeirra sem skrifar um kjör og húsnæðismál almennings nú á tímum húsnæðisskorts og kjaragliðnunar.
„Rithöfundurinn Tryggvi Emilsson fæddist við upphaf 20. aldar. Í bók sinni Fátækt fólk lýsir hann íbúð sem fjölskylda hans bjó í á Akureyri þegar hann var barn: „Ekki var þetta stórt í sniðum, eitt herbergi undir súð og aðgangur að eldhúsi þar sem önnur hjón barnmörg áttu sitt matborð … Engin upphitun var í húsinu nema frá eldavélinni … Engin hurð var á dyrum … [A]llt vatn [var] sótt í brunn sem margir jusu úr. Allt skólp og annar úrgangur var borinn út í fjöru.“

Um sama leyti reisti athafnamaðurinn Thor Jensen sér hús við Fríkirkjuveg 11 í Reykjavík. Var húsið byggt í ítölskum villustíl, skreytt klassísku skrauti og súlum. Í því voru 15 herbergi auk eldhúss. Þar var billjarðstofa og vínkjallari. Þó að hvorki væri komin rafveita né vatnsveita í Reykjavík þegar húsið var byggt var bæði rennandi vatn og rafmótor til lýsingar í húsinu.“

Og Sif heldur áfram:
„Ímyndum okkur að við horfum á hús sem kviknað er í. Augljósasta birtingarmynd aðsteðjandi eyðileggingar er ólgandi reykjarmökkur sem streymir út um gluggana. Ef við vissum ekki betur mætti draga þá ályktun að reykurinn væri vandamálið, ef við gætum blásið honum burt væri hættan frá. En við vitum öll að rót vandans er ekki reykurinn heldur eldurinn sem leynist inni í húsinu. Reykurinn er aðeins vísbending um að eitthvað sé að.

Í síðustu viku létu 20 þjónustufulltrúar Hörpu af störfum. Ástæðan var sú að á sama tíma og þjónustufulltrúarnir tóku á sig launalækkun vegna erfiðs rekstrar hússins fékk forstjóri Hörpu launahækkun.

Ragnar Þór Ingólfsson er ekki bálið sem svíður íslenskt samfélag; Ragnar Þór er reykurinn. Eyðileggingaröflin, eldurinn sem ógnar stöðugleikanum, eru þeir fáu sem eiga allt og heimta stöðugt meira. Hörpumálið er smækkuð en hárnákvæm útgáfa af því sem nú á sér stað í íslensku samfélagi: Þeir sem lægst hafa launin eiga að halda sig á mottunni og gæta stöðugleikans á meðan topparnar maka krókinn sama hvernig sigling skútunnar gengur.

Auðvitað vill enginn hverfa aftur til tíma ólgu og óðaverðbólgu. En við viljum heldur ekki hverfa aftur til tíma þar sem sumir búa eins og Tryggvi Emilsson og sumir eins og Thor Jensen.“**

Það eru fleiri sem berjast fyrir réttindum verkafólks, hér skrifar Sólveig Anna Jónsdóttir í upphafi árs, síðan þá er hún orðin formaður Eflingar.
Manifestó fyrir reykvíska verkakonu í upphafi 21aldar
„Þú veist að þú þagnar ef einhver segir Glerþak af því þú skilur ekki orðið, það er best að þegja um það sem maður skilur ekki, það segir enginn Glergólf, þá gætirðu aldeilis talað; þú paufast áfram á glergólfinu, það er sleipt en þú þarft samt stundum að hlaupa, þú reynir að horfa ekki niður, því þú vilt síst af öllu sjá það sem undir er, þangað sem þú ferð ef þú hættir að geta paufast og hlaupið, þangað sem þú ferð ef maðurinn þinn skilur við þig eða drepst, þangað sem þú ferð ef auðvaldið brjálast enn meira, þangað sem þú ferð ef, guð á himnum, næsta kreppa skellur á.“

___
* Samband ungra sjálfstæðismanna (SUS) gaf ræðuna út á bók sem átti líklega að vera Jóhönnu til háðungar en hún er auðvitað mikilvægur minnisvarði um hetjulega baráttu. (Ekki kaupa bókina samt, óþarfi að styrkja SUS.)

** Þetta er auðvitað bara brot úr pistli Sifjar, sama á við um pistil Sólveigar Önnu.

Efnisorð: , , , , , ,