laugardagur, maí 12, 2018

Lífhvolfið (sem vonandi rís ekki) í Elliðaárdal


Svo virðist sem farist hafi fyrir að skrifa gegn fyrirhuguðu 'lífhvolfi' (biodome) í Elliðaárdal, því ekkert finn ég um það í skjalageymslum bloggsins. En semsagt,
„Borgarráð samþykkti í desember síðastliðnum að veita fyrirtækinu Spor í sandinn leyfi til að byggja lífhvolf í jaðri Elliðaárdalsins. Þar verður aðgangur að grænni náttúru allt árið. Vonir standa til að það verði opnað eftir tvö til tvö og hálft ár. 
Samþykkt var að veita vilyrði fyrir 12.500 fermetra lóð við Stekkjabakka í jaðri Elliðaárdalsins með fyrirvara um samþykki deiliskipulags ... “ [Frétt RÚV 8.des.2017]
Nú hafa VG liðar, sem auk þess að vera í framboði eru félagar í Hollvinasamtökum Elliðaárdalsins, stigið fram og lýst sig andsnúna þessari framkvæmd. Hollvinasamtök Elliðaárdalsins hafa verið starfrækt frá árinu 2012, líklega voru þau stofnuð þegar til stóð að reisa slökkvistöð á svipuðum slóðum og lífhvolfið nú.
Hollvinasamtökum Elliðaárdals líst illa á uppbyggingu á dalbrúninni og þá ljósmengun og losun sem myndi fylgja. „Þetta yrðu rosalega stór mannvirki, alveg á jaðrinum. Staðsetningin þarna á hæðinni er afskaplega skrýtin.“ Til viðbótar eru áform um að Garðyrkjufélagið reisi þarna nærri gróðurhús og félagsheimili. 
RÚV tók viðtal við Halldór Páll Gíslason, formann Hollvinasamtaka Elliðaárdals, „sem vill að dalurinn verði afmarkaður með skýrum hætti sem friðað svæði, aðkoma verði bætt. Hann hvetur stjórnmálamenn á kosningavori til að axla ábyrgð á Elliðaárdal“.

Árið 2013 ætlaði reyndar borgarráð að stofna „borgargarð“ í dalnum, og hefði það gengið eftir (eða hægri hönd borgarráðs munað hvað vinstri höndin ætlaði að gera) væri ekkert lífhvolf að fara að rísa.

Frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins stekkur á tækifærið til að pönkast á VG liðunum. Í grein sem birtist í dag* sem svar við grein VG liða bendir hún á þetta:
„Núverandi meirihluti í borgarstjórn, þar á meðal borgarfulltrúi og oddviti Vinstri grænna, Líf Magneudóttir, auk borgarstjóra og oddvita Samfylkingarinnar, Dags. B. Eggertssonar, samþykkti árið 2016 vilyrði á lóð í Elliðaárdal fyrir umfangsmiklum rekstri í tengslum við verkefnið Biodome Aldin. Vilyrðið nær nú alls til 13.000 m2 lóðar þar sem til að byrja með er gert ráð fyrir 3800 m2 grunnflöt bygginga. 
[…]
Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt fram tillögu í borgarráði um friðlýsingu Elliðaárdals. Skorað er á Vinstri græna að leggjast á árarnar með Sjálfstæðisflokknum og samþykkja tillöguna. Það er eina vörnin gegn freistni borgarfulltrúa um frekari úthlutun úr landi Elliðaárdals.“
Hefði nú ekki verið nær fyrir borgarráð, og Vinstri græn — í stað þess að rjúka til og leyfa þessa fáránlegu hörmung — að vera búin að tryggja með einhverjum hætti frið um Elliðaárdal fyrir löngu? Þarf alltaf að samþykkja allt sem athafnamönnum dettur í hug?

___
* Endilega lesa greinina til að sjá hvað hún segir um ljósmengun, bílaumferð, gerviheim, og áhrif á vistkerfi dalsins, það er vel þess virði að lesa þetta, sem og aðrar greinar sem vísað er til hér að ofan.

Efnisorð: , ,