föstudagur, maí 25, 2018

Heim til að kjósa afnám þeirrar áttundu

Í dag kjósa Írar um hvort afnema eigi 8. ákvæði stjórnarskrárinnar, þar sem segir að líf fósturs sé jafn rétthátt lífi konunnar sem ber það undir belti. Fóstrið er samkvæmt því álitið manneskja, sem um leið bannar þá algjörlega allar fóstureyðingar, jafnvel þegar um nauðgun er að ræða eða líf konunnar í hættu.

Andstæðingar fóstureyðingar munu kjósa nei. Nei, við viljum ekki að 8. greinin verði afnumin, nei við viljum ekki að konur geti með löglegum hætti fengið fóstureyðingar, hvorki með því að taka pillu né með læknisaðgerð.

Fólk sem er fylgjandi frelsi kvenna til að taka eigin ákvarðanir um líf sitt og líkama sinn mun kjósa já. Já við því að unglingsstúlkur, konur sem eiga við andlega eða líkamlega sjúkdóma að stríða, konur sem eiga þegar öll þau börn sem þær treysta sér til að eiga, konur sem vilja allsekki eignast börn, konur sem vilja eignast börn seinna en ekki núna, konur sem vita að það amar eitthvað að fóstrinu, konur sem ganga með barn sem deyr í móðurkviði, aða hvaða aðstæður eða ástæður sem konur hafa fyrir að vilja ekki ganga með fulla meðgöngu — já þær mega samkvæmt lögum fá aðstoð á Írlandi til að rjúfa meðgönguna. Já við því að afnema andstyggilega kvenfjandsamleg lög.

Írar, rétt einsog Íslendingar, eru flökkukindur. Þeir búa og starfa víða um heim eða leggja stund á nám. Nú streymir þetta fólk heim (þau þeirra sem ekki hafa flutt lögheimili sitt frá Írlandi), aðallega námsmennirnir, til að kjósa, og svo virðist sem einhugur sé um að kjósa já. #HomeToVote #TogetherForYes #RepealTheEight

Það er magnað að fylgjast með fólki sem flýgur yfir þveran hnöttinn, frá Hanoi, Kaliforníu, Buenos Aires, Bankok, Bali. Samskot hafa orðið til að koma sumu af þessu fólki heim í tæka tíð. Það er greinilegt að það er mörgum mjög mikilvægt að afnema bannið við fóstureyðingum.

Þó er alls óvíst um úrslitin. Um daginn hlustaði ég á viðtal (man ekki hvar) þar sem bent var á að þótt hjónabönd samkynja fólks hefðu verið samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu ætti ekki endilega það sama við nú. Sannarlega hefur kaþólska kirkjan misst tök sín og samfélagið er orðið frjálslyndara. En sá er munurinn að fólk sem á samkynhneigða ættingja eða vini flykktist á kjörstað til að veita réttindum þeirra brautargengi. Afturámóti þykir enn skammarlegt að hafa farið í fóstureyðingu og frá því er ekki sagt í fjölskyldum. Stuðningurinn er því minni, því fæstir vita hve margar konur í sínu nærumhverfi hafa þurft að fara þessa leið.

Mörgum mun þó ofarlega í huga dæmi um konur og stúlkur sem hafa orðið illilega fyrir barðinu á þessum lögum:
Fyrir fimm árum lést Savita Halappanavar, rúmlega þrítugur tannlæknir, vegna þess að læknar neituðu henni um fóstureyðingu þó að líf hennar lægi við. Sautján vikna fóstur hennar hafði engar lífslíkur og hún var með blóðeitrun, en læknar sögðust ekki mega framkvæma fóstureyðingu, meðan fóstrið væri enn með hjartslátt. Það leiddi til gríðarlega mótmæla og uppi voru háværar kröfur um breytingar. [RÚV og RÚV]

Vonandi hafa já-sinnar betur.

Í tilefni af þessum mikilvægu kosningum tók ég traustataki texta úr endurminningabók bresku blaðakonunnar Caitlin Moran How To Be a Woman (2012, bls. 274-277).*
„Trú mín á algjörri félagslegri, tilfinningalegri og hagkvæmri nauðsyn fóstureyðinga styrktist eftir að ég eignaðist börnin mín tvö. Það er ekki fyrr en eftir að hafa gengið með barn í níu mánuði, stritað við að fæða það í heiminn, mjólkað fyrir það, sinnt þörfum þess, setið hjá því til þrjú á næturnar, vaknað til þess klukkan sex á morgnana, sundlað af ást til þess og grátið af reiði yfir einhverju sem það gerði, sem sá skilningur næst til fulls, að það er gríðarlega mikilvægt að móðirin hafi þráð að eignast barnið. Að móðurhlutverkið er hlutverk sem þarf að axla með eins mikilli orku og hamingju, og af eins miklum fúsleika og mögulegt er.

Mikilvægast af öllu er að vera barn sem móðir þráði að eignast, vera velkomið í heiminn, og að njóta umönnunar sæmilega andlega heilbrigðrar móður í góðu jafnvægi. Ég get með sanni sagt að fyrir mér var ákvörðunin um að fara í fóstureyðingu ein sú auðveldasta sem ég hef tekið um ævina. Ég er ekki að grínast þegar ég segi að það hafi tekið mig lengri tíma að velja borðplötu á eldhúsinnréttinguna heldur en hvort ég væri tilbúin að vera ábyrg fyrir enn einu mannslífi það sem eftir er. Því ég vissi að ef ég gerði það — helgaði líf mitt annarri manneskju — væri ég mögulega að ofbjóða getu minni, og hugmyndum mínum um sjálfa mig og hver ég vil vera, og hvað ég vil og þarf að gera — og það gæti bugað mig. Sú hugmynd að ég hefði — á öðrum tímum eða í öðru landi — ekki haft neitt val, virðist mér vera tilfinningalega og líkamlega villimannslegt.*

Eins og Germaine Greer orðar það í The Whole Woman: „Að verða móðir óviljug er að lifa sem þræll eða húsdýr“.

Auðvitað er alveg möguleiki á að ég hefði fyrir rest orðið þakklát þessari viðbót, að þriðja barnið bættist við. Hann hefði getað mætt á staðinn og þvingað mig til að finna aukaorku og meiri ást, og ég hefði helgað honum líf mitt. Hún gæti hafa orðið það besta sem fyrir mig hefði komið. En ég er ekki gefin fyrir fjárhættuspil eða veðmál. Ég eyði ekki einu pundi í lottóið, hvað þá að ég veðji um meðgöngu barns. Áhættan er alltof, alltof mikil. Ég get ekki verið sammála samfélagi sem myndi þvinga mig til að veðja um hvað ég gæti elskað mikið ef ég væri kúguð til þess.

Ég skil ekki þegar röksemdir andstæðinga meðgöngurofs segja að lífið sé heilagt. Sem tegund, höfum við með víðtækum hætti sýnt framá að við trúum ekki á heilagleika lífsins. Við yppum öxlum yfir styrjöldum, hungursneyð, faröldrum, sársauka og fólki sem býr við ævilanga fátækt. Og það er sama hvað við reynum að telja okkur trú um annað, því við höfum bara gert mjög máttlausar tilraunir til að koma raunverulega fram við mannslíf sem væri það heilagt.

Þess vegna skil ég ekki, meðan allt þetta á sér stað, séu það þungaðar konur — konur sem eru að reyna að taka skynsamlegar ákvarðanir um framtíð sína, og oftast um framtíð fjölskyldu sinnar líka — sem verða fyrir meiri þrýstingi um að vernda líf en til að mynda Vladimir Pútín, Alþjóðabankinn, eða kaþólska kirkjan.

Hinsvegar er mjög heilagt fyrir mér — og reyndar mjög gagnlegt fyrir jörðina alla — að reyna að sjá til þess að manneskjur, sem eru skaðlegar og í ójafnvægi, séu eins fáar og mögulegt er. Sama hvaða röksemdum er beitt, þá er siðferðilega réttara að rjúfa meðgöngu á tólftu viku heldur en að fæða barn í heiminn sem enginn vill.

Það eru óhamingjusömu börnin sem enginn vildi eiga, sem urðu reitt fullorðið fólk, sem hafa valdið megninu af óhamingju mannkyns. Það eru þau sem valda því að þjóðríki eru grimm, göturnar hættulegar, sambönd ofbeldisfull. Sálgreiningarkenningar kenna foreldrum um sálræna kvilla, en við getum hið minnsta tekið ofan fyrir konum sem eru nógu meðvitaðar til að búa ekki til þessa einstaklinga yfirleitt.

[…]

Fyrsta þungun mín, sem ég hafði þráð svo mjög, endaði í fósturláti þremur dögum fyrir brúðkaupsdaginn. Vingjarnleg hjúkka fjarlægði brúðarnaglalakkið með naglalakkseyði, til þess að geta sett hitamæli á fingurinn á mér áður en ég fór í nauðsynlega útskröpun. Ég grét þegar ég fór inn í skurðstofuna, ég grét þegar ég kom þaðan út. Í það sinn hafði líkami minn ákveðið að það yrði ekkert barn og hafði rofið meðgönguna. Í þetta sinn var það hugur minn sem hafði ákveðið að það yrði ekkert barn. Ég held ekki að önnur ákvörðunin sé réttmætari en hin. Þeir þekkja mig báðir. Þeir eru báðir jafn hæfir til að taka rétta ákvörðun.“

___
* Blogghöfundi lá of mikið á til að spyrja höfundinn um leyfi en trúir því og treystir að hún hefði ekkert á móti því að orðum sínum sé snarað yfir á íslensku til birtingar á þessum degi. Allt það sem aflaga fer vegna þýðingarinnar er á ábyrgð blogghöfundar.

Efnisorð: