miðvikudagur, maí 23, 2018

Stefán Þór Guðgeirsson, nauðgunardómurinn (númer tvö) og plottið með nauðgaraverjandanum

Stefán Þór Guðgeirsson hefur verið dæmdur í fangelsi í annað sinn fyrir nauðgun. Nú á hann að sitja inni í fjögur ár síðast fékk hann fimm ár. Að þessu sinni nauðgaði hann kærustu sinni og fékk hana svo með bolabrögðum til að draga til baka kæru á hendur sér. Skaffaði henni tildæmis lögmann (í stað réttargæslumannsins), nauðgaraverjandann sjálfan Svein Andra Sveinsson, eins trúlegt og það nú er að nokkur kona, hvað þá kona sem nauðgað hefur verið, vilji hann sem lögmann sinn. Hún er svo látin skrifa undir yfirlýsingu um að henni hafi ekki verið nauðgað. Veslings konan.

Það verður að segja löggunni til hróss að hún hélt áfram að rannsaka málið þótt konugreyið hafi verið neydd til að draga kæruna til baka. Hleraði síma konunnar og skoðaði myndbandsupptökur úr eftirlitsmyndakerfi heima hjá nauðgaranum. Símtölin leiða ekki síst í ljós hvaða hlutverki Sveinn Andri gegndi í þessu máli, því auðvitað samdi hann þessi skjöl og er að öllum líkindum maðurinn sem situr hjá henni þegar eitt símtalið á sér stað.

Dæmi úr dómnum þar sem kemur fram hvernig meðferð konan mátti þola eftir nauðgunina fyrir hafa vogað sér að kæra nauðgarann.

Í málinu liggur skjal, dags. 13. desember 2016, nefnt „Umboð“. Þar segir: „Ég undirrituð, Y, [...] veiti hér með Sveini Andra Sveinssyni hrl., Reykvískum lögmönnum slf, fullt umboð mitt til þess að afla allra gagna er varðar sakamálarannsókn á hendur X, unnusta mínum, sem fæddur er 6. nóvember 1981, þar sem ég hef réttarstöðu brotaþola, vegna atvika sem áttu sér stað þann 11. desember [2016]. Hef ég falið Sveini Andra að gæta hagsmuna minna og óska ég eftir því að hann verði tilnefndur réttargæslumaður minn. Hef ég falið Sveini að gera lögreglu grein fyrir því að ég óski eftir því að málið gegn X verði fellt niður, sbr. yfirlýsingu sem ég hef gefið frá mér, sem dags. er í dag. Afturkalla ég heimild mína til lögreglunnar til að kalla eftir læknisvottorði hjá LSH og kalla ég til baka heimild mína til LSH þar sem ég aflétti trúnaði yfir þeim gögnum. Skal áfram gilda trúnaður um niðurstöður þeirrar læknisskoðunar sem ég gekkst undir 11. desember sl.“
[…]
Brotaþoli og systir hennar, I, ræða saman 16. desember 2016. Þar segir brotaþoli meðal annars: „Veistu það sko þarna textinn sem þeir sömdu sem að ég átti að skrifa undir, þetta er bara það mest niðurlægjandi sem að ég hef á ævi minni þurft að skrifa undir í lífinu.“ Skömmu síðar bætir hún við: „Já en ég meina það mun hvort sem er enginn trúa þessu sko.“ Í samtali milli þeirra 18. desember spyr systir brotaþola hvort hún ætli að kæra og brotaþoli svarar að henni hafi verið boðin „milljón ef ég held kjafti og eitthvað er það ekki bara vel sloppið og ég bara þú veist og líka bara það ég fæ þá að vera í friði“.

Þann 26. desember tala þær saman og brotaþoli spyr hvort systir hennar geti „kvittað undir eitt blað“. I spyr hvaða blað það sé og brotaþoli svarar: „Æi það er einhver yfirlýsing sem þarf að fara út af þessu máli með X.“ I spyr hvaða yfirlýsing það sé og brotaþoli svarar: „Þú gefur mér alla vega leyfi til að falsa?“ I neitar því. Brotaþoli segir að nafngreindur maður sé staddur hjá henni. Brotaþoli segir að yfirlýsingin sé „eiginlega bara þetta sama og ég gerði seinast nema bara ég bætti við, að mér finnst eins og lögreglan hafi farið á bak við mig með því að fara og handtaka hann þegar ég var búin að ítreka við hann ætti ekki þú veist manstu.“ I spyr hvort ekki sé hægt að fá annan vott. Brotaþoli svarar að það sé ekki hægt „það er búið að skrifa á prentstöfum með þú veist þitt nafn og kennitölu.“

Þær tala um þetta áfram. Brotaþoli spyr „af hverju er þetta svona erfitt?“ og I svarar: „Ertu að heyra hvað þú ert að segja? Af hverju er þetta svona erfitt, út af því að þessi gæi nauðgaði þér.“ Brotaþoli svarar: „Já ég veit, ég veit það, en gerði hann það, gerði hann það við þig eða gerði hann það ekki við mig ef ég er að biðja þig um þetta er það þá ekki það sem skiptir máli?“ I svarar: „Nei það sem skiptir máli er það að hann nauðgaði þér.“ Brotaþoli svarar: „Ég veit það alveg þú þarft ekkert að segja það sko.“ I segir þá: „Já það er alveg nóg fyrir mig að ég hafi þurft að fara til lögreglunnar og segja að það hafi ekkert gerst.“ Lýkur samtalinu skömmu síðar og brotaþoli segir „þá finnum við bara einhvern annan vott“.

Nokkru síðar tala þær saman aftur. Brotaþoli segir: „Allt í lagi með mig, hann er farinn og þú veist þú þarft bara ekkert að skrifa undir þú veist, hann heyrði líka að ég var alveg að reyna skilurðu.“ I spyr hvort hún hafi átt „að skrifa undir í alvörunni“. Brotaþoli svarar: „Já það hefði alveg verið fínt en ég meina þetta verður samt að þú veist þeir verða samt líka bara alveg að átta sig á því að það er ekkert, það eru ekkert allir að sem eru að fara að spila með í þessu. Það vita allir hver sannleikurinn er.“

Stuttu síðar segir brotaþoli: „Og, og þarna og síðan var hann eitthvað, þú veist ég sagði við hann, áður en ég gerði þessa yfirlýsingu, þá sagði ég við hann bara, X minn, sko þú vilt að ég geri þessa yfirlýsingu og ég skil það alveg mjög vel að þú vilt koma út og þetta eru mistök, þú varst búinn að vera vakandi í fimm, fimm þarna fimm daga og ert á sterum og allt þetta, allt þetta í sama bland við þennan veist karakter sem þú ert varð bara á þessu kvöldi eins og það fór. En ég vil að þú áður en ég skrifa þetta viðurkennir við vini þína það sem þú gerðir. Út af því að ég ætla ekki að koma út, eins og geðsjúklingur sem að fór upp á neyðarmóttöku og laug upp nauðgun.“
[…]
Þeir eru samt búnir að láta mig skrifa undir yfirlýsingu bara að ég hafi þarna fílað það röff og ég hafi beðið um þetta og allt bara og ég er búin að gera þetta allt sko fyrir þá, allt bara.“ Nokkru síðar segir brotaþoli að ákærði sé með myndavélar heima hjá sér „af því að hann var svo hræddur um að lögreglan mundi einhvern tímann koma án heimildar heim til sín og gera eitthvað skilur þú þannig að hann var með myndavélakerfi inni, inni hjá sér þannig að það náttúrulega fer í bakið á honum út af því að þetta sést allt á myndunum skilur þú hann náttúrulega rífur mig upp á hnakkadrambinu, slær mig yfir andlitið og tekur mig bara upp eins og kartöflupoka skilur þú, þetta sést allt á myndavélum.“

Þetta var auðvitað bara héraðsdómur sem felldi dóminn, eflaust áfrýjar Stefán nauðgari Þór síbrotamaður Guðgeirsson til æðra dómstigs. Vonandi verður þá fjögurra dómurinn heldur þyngdur en hitt. Þessi maður er hættulegur og á ekki að vera á ferli í samfélaginu.

Lögmannsafmánin ætti að vera sviptur lögmannsréttindum sínum. Hann getur svo bara stillt sér upp í röðina á eftir hinum lögmönnunum til að fá réttindin aftur með viðkomu í uppreistraræru-félaginu.

Efnisorð: , , , , , ,