þriðjudagur, ágúst 07, 2018

Lestur fjölmiðla um verslunarmannahelgi

Stundin er í nýjasta tölublaði sínu með áhugaverða og ítarlega (og á köflum dapurlega) úttekt á störfum ræstingafólks. Diljá Sigurðardóttir tók viðtöl ásamt því að fara í vettvangsrannsókn
„hjá stærsta ræstingafyrirtæki landsins, ISS sem nú heitir Dagar, en þar starfa um 800 manns. Fyrirtækið er að mestu í eigu fjölskyldu fjármálaráðherra, sem var fyrir mistök skráður sem stjórnarmaður um tíma, bræðranna Benedikts og Einars Sveinssona og hefur vakið athygli fyrir að skila gríðarlegum arði á sama tíma og þeir ástunda undirboð á ræstingum. Í fyrr bauð fyrirtækið lægsta tilboð í 76 prósenta tilvika, og þótt hagnaður hafi dregist saman á milli ára fengu hluthafar engu að síður 759,7 milljarða arð“.[?]
Á árum áður hafði Dilja unnið við ræstingar og þekkir því vel til í þessum heimi þar sem erlent vinnuafl er í miklum meirihluta, illa borgað, vinnuþrælkað og ósýnilegt. Titill úttektarinnar er enda „Úrvinda í minnst metna starfi samfélagsins“.

Illugi Jökulsson skrifaði einnig í Stundina pistil um sýknudóm yfir stuðningsfulltrúa Barnaverndar sem ákærður var fyrir að misnota fimm einstaklinga á barnsaldri. Maðurinn neitaði öllum sakargiftum staðfastlega og það var nóg til að hann var sýknaður, enda þótt vitnisburður hvers og eins þeirra sem hann braut á væri trúverðugur. Þessi dómur er hneyksli og ég tek undir með Illuga sem er því feginn að honum verður áfrýjað.

Leiðari Stundarinnar er að þessu sinni skrifaður af Ingibjörgu Dögg Kjartansdóttur og fjallar hún þar um „sjálfsmynd þjóðar sem lætur selja sér hugmyndina um að Ísland sé best í heimi“. Frábærlega vel skrifað og snjallt.

Ole Anton Bieltvedt skrifaði pistil í Fréttablaðið um ímynd Íslands og segir merki þess dregið niður í svaðið vegna þess hve dýra-, náttúru-, og umhverfisvernd er á lágu plani. „Ný og góð lög hafa reyndar verið sett, en lítið eða ekkert er eftir þeim farið.“ Þarfur pistill þar sem hvalveiðar koma allmikið við sögu.
„Af 50 langreyðum, sem vorum veiddar 2014, þurftu 8 að heyja lífsbaráttu í allt að 15 mínútur, þar sem stálkló skutuls reif og tætti innyfli, líffæri og hold dýranna, í heiftarlegum átökum og kvalræði, þar til yfir lauk.“
Það er von að Ole Anton spyrji: „Er einhver glóra í því, að við látum „einn mann“ draga ímynd og orðspor landsins – merkið okkar allra; Ísland - niður í svaðið?“

Efnisorð: , , , , , , ,