laugardagur, ágúst 11, 2018

Efnishyggja fjölmiðla minnkar samkennd

Í Fréttablaðinu í dag var heilsíðu umfjöllun um áhugaverða rannsókn. Umfjöllunin var grafin djúpt inni í 'kynningarblaðinu Fólk' sem ég er ekkert viss um að allir lesi. Þessvegna vil ég vekja athygli á henni hér, jafnfrat því að setja tengil á umfjöllunina þar sem hún birtist á Fréttablaðið.is. Yfirskrift umfjöllunarinnar vísar í niðurstöðu rannsóknarinnar sem er sú að efnishyggja fjölmiðla minnkar samkennd. „Þessi niðurstaða hefur vakið athygli og verður án efa umdeild“, segir í umfjölluninni, sem er eflaust rétt og þá verður líklega bent á að fjöldi þátttakenda var aðeins 487 manns (þykir það nóg?), og að um vefkönnun var að ræða. Hinsvegar eru þetta að minnsta kosti áhugaverðar vísbendingar.

Oddur Freyr Þorsteinsson blaðamaður kynnir rannsóknina svona:
„Rannsókn sem var unnin við London School of Economics gefur til kynna að sjónvarpsþættir og annað fjölmiðlaefni sem hampar frægð, lúxus og uppsöfnun auðs geti gert fólk líklegra til að vera á móti velferðargreiðslum og minnkað samkennd þeirra með fátækum. Rannsóknin birtist í ritrýnda sálfræðitímaritinu Journal of Media Psychology.“
Eftir að rannsókninni hefur verið lýst að mestu leyti er sagt frá þessum hluta hennar:
„Þátttakendur voru líka spurðir um hversu oft þeir horfðu á níu sjónvarpsþætti, þar á meðal The Apprentice, X-Factor, Keeping Up With the Kardashians og Made in Chelsea. Þeir voru einnig spurðir um lestrarvenjur sínar varðandi fimm slúðurblöð sem koma út daglega og flytja reglulega fréttir af ríku frægu fólki og tíu tímarit sem auglýsa lúxusvörur, eins og Vogue, Cosmopolitan, GQ og Esquire.

Rannsakendur segja að niðurstöðurnar hafi sýnt að þeir sem horfðu reglulega á þætti eins og The Apprentice og X-Factor væru mun líklegri til að vera mjög á móti velferðargreiðslum og leggja meiri áherslu á efnishyggju en þeir sem horfðu bara á þá af og til.

Það sýnir auðvitað bara fylgni, sem getur skýrst af því að fólk sem er á móti velferðargreiðslum og hrifið af efnishyggju hafi almennt svipaðan smekk, en niðurstöðurnar sýndu líka að þeir, sem var sýnt fjölmiðlaefni sem hampaði efnishyggju, voru greinilega meira á móti velferðarkerfi og velferðaraðgerðum en þeir sem sáu hlutlaust fjölmiðlaefni.“
Verst að ekki skuli hafa verið rannsakað hvaða áhrif The Apprentice hafi á fólk sem er í þáttunum, en kannski er óþarfi að rannsaka það sem blasir við. En sannarlega má þar líka segja að fólk sem haldið er efnishyggju hafi sóst eftir þátttöku.

En burtséð frá appelsínugula viðrininu þá er þetta áhugaverð rannsókn sem á athygli skilið. Kannski var hún líka birt á besta stað í blaðinu: þar sem útlit og tíska eru allsráðandi.

Efnisorð: ,