sunnudagur, september 02, 2018

Lítil börn með skólatöskur

Þegar ég var í grunnskóla las ég ljóðið Nú haustar að eftir Vilborgu Dagbjartsdóttur.

Einhverja nóttina koma skógarþrestirnir
að tína reyniber af trjánum
áður en þeir leggja í langferðina yfir hafið,
en það eru ekki þeir sem koma með haustið
það gera lítil börn með skólatöskur.

Mér fannst mjög ósanngjarnt að kenna börnum um að haustið kæmi, ég vildi síst vera ábyrg fyrir því. Hafði næstum jafn illan bifur á Vilborgu og hún hafði greinilega á börnum sem ekkert gátu að því gert að þurfa að fara í skólann.

Þegar Vilborg samdi ljóðið, árið 1960, byrjuðu skólar mun seinna en þeir gera núna og hættu fyrr á vorin. 8-9 ára börn áttu að mæta í fyrstu kennslustund mánudaginn 5. september, 7 ára börn (sem þá var yngsti bekkur í skyldunámi) daginn eftir (öll þurftu þau þó að koma í skólann 1. september því þá var skipt í bekkjardeildir). Krakkar í eldri deildum barnaskólans (10-12 ára) þurftu ekki að láta sjá sig fyrr en 1. október. (Morgunblaðið 3. sept. 1960).

Tíu árum síðar er tekin upp kennsla fyrir sex ára börn („forskóli“; sex ára bekkur varð ekki skylda fyrr en 1991) og áttu þau að hefja skólagöngu sína 1. október. Sjö, átta og níu ára börn áttu það ár að mæta í skólasetningu fimmtudaginn 3. september, og líklega hefur þá kennsla hafist mánudaginn 7. september. Það varð semsagt ekki breyting á því hvenær skólinn byrjaði á þessum tíu árum. Haustið byrjaði því seinna en nú, sé miðað við ljóð Vilborgar.

Nú í ár var skólasetning 22. ágúst og skólaslit verða 7. júní. Áður fyrr lauk skólanum í maí. Það ku hafa verið á því herrans ári 2008 sem skólinn var lengdur úr 170 dögum í 180 daga. Veslings börnin.

Þetta hefur áhrif á fleiri. Undanfarin ár hefur fullorðna fólkið talað eins og haustið byrji fljótlega eftir verslunarmannahelgi. Það helgast auðvitað af því að skólasetningin er seinna sama mánuð. Það er semsagt enn verið að kenna börnunum um að koma með haustið.

Auðvitað er það svo líka fullorðna fólkinu að kenna að börnin eru æ lengur í skóla; foreldrarnir æpa yfir að þurfa að sinna börnunum vegna verkefnadaga kennara, og vilja helst sem lengst skólaár. Það sama vill atvinnulífið. Ein slík uppástunga kom fram í pistli Davíðs Þorlákssonar, fyrrverandi formanns SUS og núverandi for­stöðumanns sam­keppn­is­hæfnisviðs Sam­taka at­vinnu­lífs­ins. Davíð vill ekki bara lengja skólaárið heldur stytta það (aftur) um eitt ár svo að grunnskólinn sé bara níu ár. Það er ekki langt síðan öðrum frjálshyggjumönnum tókst að stytta framhaldsskólana niður í þrjú ár. Allt er það til þess að flýta fyrir því að vinnuaflið fari að knýja hjól atvinnulífsins.

Ekki held ég að það sé stemning fyrir þessu enda nóg búið að hræra í skólakerfinu í bili. Enn meiri lenging skólaársins er varla í þágu krakkanna, þeir vildu eflaust eiga lengri sumur eins og þau sem fyrri kynslóðir ólust upp við. Og ekki vera kennt um árstíðaskiptin.




Efnisorð: , , , ,