föstudagur, ágúst 31, 2018

Hrokkið í vörn

Stundum gerist það að ég les pistil þar sem ég er sammála hverju orði. Þannig var um pistil séra Bjarna Karlssonar um Nauðgunarmenninguna sem birtist í Fréttablaðinu í gær. Samlíkingin milli kristinna brúðkaupa og búrku var snjöll, svo ræddi Bjarni ofbeldi í nánum samböndum sem stærsta heilsufarslega áhættuþátt kvenna, yfirráðahyggju mannkyns sem orsakir loftlagsbreytinga, og sagði að kynbundið ofbeldi er menningarheilkenni.

En alveg undir lokin, eftir að hafa talað um skömm og #metoo, fer hann að gagnrýna DV fyrir „skammarherferð á hendur nafngreindum einstaklingum“. Þarna skautar Bjarni langt útaf brautinni. Hann er hugsanlega að bera blak af Kjartani Guðjónssyni (og það er mjög svekkjandi ef hann er að gera það) en alveg örugglega að hlaupa í vörn fyrir vini sína og kunningja í prestastéttinni, en DV hefur undanfarið rifjað upp ýmis afbrot kirkjunnar manna.

Auðvitað kemur sú umfjöllun illa við einhvern, og auðvitað finnst einhverjum að málin séu gömul, halda því fram að iðrun/veikindi/dauði gerenda eigi að koma í veg fyrir að málin séu rifjuð upp, eða þá af tillitsemi við fjölskyldur þeirra. En við erum með fjölmiðla, við búum í upplýsingaþjóðfélagi, það væri fáránlegt að aldrei yrði framar minnst á eitthvað óþægilegt fyrir neinn. Og hvenær fyrnist þá þöggunarfresturinn, þegar ættingjar í þriðja lið eru dauðir? Það virkar auðvitað ekki þannig. Og það er beinlínis lélegt af Bjarna að skrifa heilan pistil um nauðgunarmenningu í því skyni einu að við sem samfélag eigum að „endurreisa fólk“.

Í dag birtist svo pistill eftir Þórlind Kjartansson, og er titillinn vísun í lag með Ladda: Æ, og skammastu þín svo. Þórlindur er prýðilega ritfær og oft ánægjulegt að lesa pistla hans (enda þótt ég hafi það alltaf bakvið eyrað að hann er stækur frjálshyggjumaður). Hann er þarna semsagt (eins og Bjarni) að tala um skömm, hún leikur reyndar aðalhlutverkið. Og allt er það mjög gott sem hann segir. Eða svona framanaf.

En svo, eins og Bjarni, kemur hann sér að efninu.
„Í vikunni gekk um netið skjal sem á uppruna sinn í jafnréttisstarfi Reykjavíkurborgar. Þar er að finna lista yfir ýmiss konar forréttindi sem sagt er að karlmenn, hvítt fólk, gagnkynhneigðir, sískynhneigðir, ófatlaðir og Íslendingar njóta. Á listanum var margt efnislega ágætt, upplýsandi og vel meint — og eflaust er það einstaklingum hollt að velta því stundum fyrir sér í þakklæti ef lífið hefur af einskærri heppni veitt þeim góð tækifæri til þess að blómstra. En svona listi getur líka haft þau áhrif að kynda undir óverðskuldaða skömm meðal þeirra sem falla af einskærri heppni í þessa svokölluðu forréttindahópa. Ekkert er unnið með því, því það hjálpar ekki þeim sem áður voru að ástæðulausu látnir skammast sín að nú þurfi einhverjir aðrir að bera skömm sem þeir eiga sjálfir enga sök á.“
Umræddan lista má lesa hér. Mér finnst þetta mjög góður listi, ótalmargt þarna sem karlmenn, hvítt fólk, gagnkynhneigðir, sískynhneigðir, ófatlaðir og Íslendingar átta sig ekki á. Að lesa öll atriðin á listanum er mjög upplýsandi fyrir það fólk sem er sér ómeðvitað um forréttindi sín.

Ég á erfitt með að sjá að listinn vekji upp „óverðskuldaða skömm“ hjá meirihlutahópum. Listinn vekur vonandi til umhugsunar, og verður til þess að framkoma við fólk í minnihlutahópum batnar. Það er beinlínis hallærislegt (og hægt væri að nota enn gildishlaðnara orð) að leggja sig jafn mikið fram og Þórlindur gerir til að gagnrýna þennan lista.

Það er ekkert að því að fólk í forréttindahópum horfi í eigin barm, og þótt listinn sé varla til þess gerður að fólk skammist sín, þá er ekkert að því að skammast sín ef maður áttar sig á hafa sýnt fólki í minnihlutahópum óvirðingu með einhverjum hætti. Þórlindur veit þetta vel, enda skrifaði hann fyrr í pistlinum um þetta:
„Félagsfræðingar telja meira að segja að skömmin sé einhver mikilvægasta tilfinningin sem mannfólkið hefur þróað með sér. Innbyggðir áttavitar um hvað sé rétt og rangt eru nauðsynlegir til þess að samfélög gangi sæmilega án stöðugs eftirlits og ógnunar um refsingar. Þegar maður gerir eitthvað af sér þá er gott að maður skammist sín, líði illa — og lofi sjálfum sér og öðrum að gera aldrei svona aftur.“
En þó er það Þórlindi mikill þyrnir í augum ef fólk í forréttindastöðu færi að skammast sín fyrir nokkurn hlut. Þetta heitir að standa með sínu fólki.

Efnisorð: , , , , , , , , , , , , ,