þriðjudagur, september 25, 2018

Heiðursborgarar telja óverjandi að reist verði hótel í Víkurgarði

Það mun auðvitað engu breyta, en mikið er það gott hjá fjórum mikilsvirtum heiðursborgurum Reykjavíkur að afhenda Degi B. Eggertssyni áskorun um að stöðva fyrirhugaða hótelbyggingu í Víkurgarði.
„Við undirrituð, sem njótum þess trausts að hafa verið valin heiðursborgarar Reykjavíkur, teljum með öllu óverjandi að reist verði hótel í Víkurgarði, einum elsta kirkjugarði landsins og helgistað í höfuðborginni. Í grafreitnum, þar sem byggja á hótelið, var síðast jarðsett árin 1882 og 1883. Þarna átti hvílustað fólk sem breytti þorpi í bæ og lagði grunn að höfuðstað Íslands. Í þessum hópi eru ýmsir sem mörkuðu djúp spor í þjóðarsöguna. Enn ber byggðin í Kvosinni hið geðfellda yfirbragð sem þetta fólk ljáði henni og mikilvægt er að verja og vernda. Andi staðarins og saga má ekki týnast í hringiðu stundarhagsmuna.

Árið 2016 voru fluttar brott jarðneskar leifar fólks úr hvílustað þess í Víkurgarði til að rýma fyrir hótelinu. Fáheyrt er að jarðneskar leifar fólks í vígðum reit séu látnar víkja fyrir veraldlegri byggingu. Þetta er gróf vanvirðing við söguna og minningu forfeðra okkar. Ljóst er að skipulag og bygging hótels á þessum stað á sér rætur í vanþekkingu á sögu Víkurgarðs og mistökum við gerð deiliskipulags. Fram hjá því verður ekki litið að mannvirki, eins og hér um ræðir, í fornum kirkjugarði, samræmist ekki ákvæðum laga nr. 36/1993 um kirkjugarða.

Sagt er að í hótelinu verði 145 herbergi. Þarna ráða peningar gjörðum, ekki menning og saga. Hagnaðarvonin og stundarhagsmunir ryðja burt virðingunni og helginni. Og þá tekur óhjákvæmilega við uppblástur mennsku og menningar. Það skapar engum gæfu. Við skorum því á Reykjavíkurborg og byggingaraðila að láta þegar í stað af fyrirhuguðum áformum, sem mundu fyrirsjáanlega valda óbætanlegum spjöllum á þessum viðkvæma og söguhelga reit í hjarta höfuðborgarinnar. Við erum þess fullviss að afkomendur okkar muni um alla framtíð verða þakklátir ef svo giftusamlega tækist til að horfið yrði frá þessum áformum og Víkurgarði þyrmt.“
Það ætti auðvitað að hlusta á Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrum forseta Íslands, stórmeistarann Friðrik Ólafsson, Þorgerði Ingólfsdóttur kórstjóra, og Erró — en allar líkur eru þó á að hótelskrímslið rísi enda löngu löngu búið að gefa verktökum og eigendum hótelsins leyfi til að fara sínu fram. Engin mótmæli hafa dugað hingaðtil og þessi áskorun verður auðvitað látin sem vind um eyru þjóta.

En það verður vandræðalegt fyrir Dag og Hjálmar Sveinsson að hafa það á samviskunni að hafa hunsað áskorun þessa fólks.



Efnisorð: