miðvikudagur, september 12, 2018

Okkar allra bestu menn á staðnum til að standa vörð um hagsmuni ... Kristjáns

Fyrir sjö árum gengu fulltrúar Íslands, Noregs og Japans gengu út af fundi Alþjóðahvalveiðiráðsins og komu með því móti í veg fyrir að greidd yrði atkvæði um tillögu Brasilíu og Argentínu um stofnun griðasvæðis hvala í Suður-Atlantshafi. Þetta þótti okkar fulltrúa á staðnum betra heldur en „spilla andrúmsloftinu í ráðinu“*, með svona asnalegri tillögu sem engar alvöru hvalveiðiþjóðir taka undir hvorteðer.

Fyrir þremur árum síðan var birtur pistill hér á blogginu um breska sjónvarpsþætti þar sem fjallað var um hvalveiðar í Suður-Íshafi. Án þess að ég hafi séð á korti hvar nákvæmlega þetta fyrirhugaða griðasvæði ætti að vera, þykir mér líklegt að það sé á svipuðum slóðum og sögusvið þáttanna.

Þessa dagana stendur yfir fundur Alþjóðahvalveiðiráðsins og í þetta sinn var kosið um tillöguna um griðasvæði sem Brasilía lagði fram, eins og það hefur gert á hverju ári síðan 2001. 39 ríki studdu tillöguna en 25 kusu gegn. Tillagan féll þar sem tvo þriðju hluta þarf til að samþykkja tillögur í alþjóðahvalveiðiráðinu. Ísland, Noregur, Rússland og Japan voru meðal þeirra sem kusu gegn griðasvæði fyrir hvali í Suður-Atlantshafi.

Japanir ætla síðar í vikunni að reyna að fá það í gegn að banni við hvalveiðum í atvinnuskyni verði aflétt. Og á þar eflaust dyggan bandamann hjá fulltrúum Íslands í ráðinu.

Íslensk stjórnvöld hljóta að skipa í þetta ráð, eða hvað?** Þessi sömu íslensku stjórnvöld sem eru undir forsæti flokksformanns sem leiðir flokk sem þykist í orði kveðnu vera á móti hvalveiðum. En stjórnvöld þessi eru samt tilbúin að horfa uppá (og jafnvel fagna) Kristján í Hval drepa hvern hvalinn á eftir öðrum — en ætla að skoða að loknum veiðum hvort þær hafi verið sjálfbærar og borgi sig fyrir Ísland að leyfa honum að halda þessu sporti áfram. Og nú er beinlínis komið í veg fyrir að hvalir verði látnir í friði í Suður-Atlantshafi.

Enn á að drepa. Enn á að standa með drápum. Enn á að standa að drápum.


___
* Það hefur ekki komið fram hver sé fulltrúi Íslands, hugsanlega er það enn forstöðumaður Hafréttarstofnunar Íslands.

** Hafréttarstofnun var stofnuð af Háskóla Íslands, utanríkisráðuneytinu og sjávarútvegsráðuneytinu. Hafréttarstofnun Íslands er rannsókna- og fræðslustofnun á sviði hafréttar við Háskóla Íslands sem lýtur sérstakri stjórn og hefur sjálfstæðan fjárhag. Er fulltrúi Hafréttarstofnunar þá á vegum íslenska ríkisins eða kaupir Kristján Loftsson þjónustu af stofnuninni?




Efnisorð: , , ,