fimmtudagur, maí 28, 2015

Sögulegar og sorglegar hvalveiðar á fjarlægum slóðum

Norska sjónvarpið hefur undanfarna daga verið að sýna breska sjónvarpsþætti í tveimur hlutum um hvalveiðar tuttugustu aldar — með engri áherslu á Ísland. Þetta voru áhugaverðir þættir sem sögðu sögu og sýndu landsvæði sem ég hafði ekki hugmynd að væri til.

Þættirnir fjalla ekki um tilfinningalíf hvala, svona svo það sé á hreinu. Þvert á móti fá lífsreynslusögur hvalveiðimanna talsvert vægi. Ef eitthvað er þá er þáttagerðarmaðurinn helst til hrifinn af ævintýrinu, uppganginum og karlmennskunni við hvalskurðinn, en er þó greinilega meðvitaður um hvernig heilu hvalategundunum var næstum útrýmt með óheftum hvalveiðum.

Þættirnir hafa einnig verið sýndir á BBC og kynning þeirra á heimasíðu BBC er allítarleg og ég styðst við hana í bland við eigin upprifjun á því sem fyrir augu bar í þáttunum.

Fyrir nokkrum hundruð árum syntu milljónir hvala um heimshöfin, segir í kynningunni á þáttunum. En svo komst mannskepnan að nýta mætti þá til að lýsa hús og götur, gera úr þeim lífstykki, sápur og matvæli. Seint á nítjándu öld var sprengiskutullinn fundinn upp sem varð ásamt öðrum tækninýjungum til þess að auka mjög fjölda veiddra dýra gríðarlega og breytti einnig því hvaða hvali var hægt að veiða. Sumir hvalir sökkva um leið og þeir drepast og var því tilgangslaust að drepa þá en þegar farið var að nota þá aðferð að dæla í þá lofti úr slöngu þá flutu þeir. Það varð til þess að þessi hvalir sem áður voru óveiðanlegir voru nú strádrepnir.

Þættirnir hefjast á Skotlandi en þar voru grindhvalaveiðar stundaðar með sama hætti og í Færeyjum. En svo fækkaði hvalnum — og reyndar allstaðar á Norður-Atlantshafi — og þá færðust veiðarnar sunnar á hnöttinn.

Þáttagerðarmaðurinn glaðbeitti ferðast nú til Falklandseyja og þaðan til fjarlægrar eyjar sem heitir South Georgia sem einnig er breskt yfirráðasvæði. Þar bjó enginn áður en hvalveiðar hófust þar í massavís, og nú er eyjan aftur yfirgefin, en í áratugi voru þar sex hvalveiðistöðvar. Sú stærsta þeirra var í eigu fyrirtækis í Edinborg sem hét eftir stofnanda sínum Christian Salvesen og var það stærsta hvalveiðifélags heims á sínum tíma.

Á þriðja áratug síðustu aldar voru farnar að heyrast varnaðarraddir um að of ört væri gengið á hvalastofna, og gerði Breska nýlendustofnunin út rannsóknarskip til sjávarlíffræðirannsókna í Suður-Íshafinu, með hvali sem meginviðfangsefni.

Um miðjan þriðja áratuginn voru 8.000 hvalir drepnir á ári. Olían var nú ekki lengur notuð til lýsingar heldur í sápu og smjörlíki. En með breyttum skipaflota — tilkomu verksmiðjuskipa — jukust veiðarnar enn, og gekk þá einnig betur að forðast að fara eftir þeim reglum sem þó var reynt að setja um veiðarnar.

Á fjórða áratugnum bættust Japan og Þýskaland í hóp hvalveiðiþjóða og eitt árið náði samanlagður floti allra þeirra sem nú veiddu hvali í Suður-Íshafi að drepa 46.000 dýr.

Fita varð gríðarlega eftirsótt meðan á heimsstyrjöldinni síðari stóð og hvalveiðarnar héldu því ótrauðar áfram þrátt fyrir aðvaranir og svartar skýrslur sjávarlíffræðinga. Alþjóðahvalveiðiráðið var stofnað 1946 og átti að koma í veg fyrir ofveiði en enginn tók mark á því. Tilraunir til að setja kvóta urðu til þess að allir kepptust um að fylla heildarkvótann sjálfir. Það var ekki fyrr en á sjöunda áratugnum sem tókst að takmarka veiðar — en þá voru þær löngu farnar að vera mjög tregar, lengra þurfti að sigla eftir hvalnum og færri dýr veiddust. Raunin var sú að hvalastofnar voru í rúst og sumar tegundir nærri útrýmingu, s.s. steypireyður, sem hefur enn ekki náð sér á strik.

Eftir að hafa horft á þessa sorgarsögu rakta (ég horfði á seinni þáttinn í gær) var eins og hressandi andblær að sjá grein eftir Sóleyju Tómasdóttur forseta borgarstjórnar um stækkun griðasvæðis hvala í Faxaflóanum. Hún bendir á hagsmuni hvalaskoðunarinnar og gallana við að hafa hrefnuveiðibátana alveg ofan í hvalaskoðunarbátunum, og minnir á að borgarstjórn skoraði á ríkisstjórnina í desember síðastliðnum að stækka griðarsvæðið. Hún endar greinina á þessum orðum:
„Nú þegar hvalveiðitímabilið er að hefjast, á sama tíma og ferðamönnum fjölgar ört, er brýnt að árétta þessa ályktun borgarstjórnar. Ég hvet atvinnuvegaráðherra til að stækka griðasvæðið og taka þannig tillit til hvalaskoðunarinnar sem og þeirra sáttmála sem Ísland á aðild að til að tryggja dýravernd og dýravelferð. Þar fara hagsmunir hvala og manna saman.“
Það hefðu sannarlega mátt vera gefin grið og sett upp griðarsvæði í Suður-Íshafinu áður en þar fór allt í óefni. En það er ekki of seint að gera það, því þar veiða Japanir enn, alveg ótrauðir. Helst að Sea Shepherd djöflist í þeim, en þau samtök eru afar illa þokkuð hér á landi, enda eru enn allmargir Íslendingar á bandi Kristjáns Loftssonar og þingmannssonarins sem stundar hrefnuveiðar í Faxaflóanum, og finnst bara allt í lagi með hvalveiðar. Þrátt fyrir allt.

Efnisorð: , , ,