laugardagur, maí 09, 2015

Fjörtíu ára reynsla af skilyrtum fóstureyðingum

Árið 1975 voru sett lög sem leyfðu fóstureyðingar á Íslandi. Kvenréttindakonur kröfðust þess frá upphafi að fóstureyðingar yrðu frjálsar, þ.e.a.s. að ákvörðunarrétturinn væri í höndum kvennanna sjálfra, ekki heilbrigðisstarfsfólks. En lögin kváðu á um annað og hafa staðið óbreytt í fjörtíu ár. Kvenréttindafélag Íslands hefur nú lagt fram ályktun um frjálsar fóstureyðingar, eins og segir í frétt Ríkisútvarpsins. Þar segir jafnframt að
„Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir, framkvæmdastýra Kvenréttindafélagsins, segir að Ísland hafi samþykkt alþjóðasamþykktir um kynfrelsi kvenna og að fóstureyðingar séu frjálsar á Norðurlöndunum. Því ættu þær að vera frjálsar hér. Eins og staðan er í dag þurfi beiðnir að fara fyrir nefnd heilbrigðisstarfsmanna sem geti lagalega séð synjað henni eða óskað eftir frekari rökstuðningi. Hún segir marga misskilja baráttu þeirra, þær vilji ekki breyta tímarammanum og séu sáttar við þau þriggja mánaða mörk sem sett eru í lögunum. Þær vilji eingöngu að konur geti farið í fóstureyðingu án þess að þurfa að fá leyfi frá heilbrigðisstarfsfólki“.
Lögin kveða á um að áður en fóstureyðing fer fram liggi fyrir skriflega rökstudd greinargerð tveggja lækna, eða læknis og félagsráðgjafa sé eingöngu um félagslegar ástæður að ræða.
„Í lögum um fóstureyðingar segir að skylda sé að veita konu sem sækir um aðgerð fræðslu um áhættu og félagslega aðstoð og að sú fræðsla skuli veitt á óhlutdrægan hátt. Þá kemur fram að fóstureyðing sé einungis heimil af ákveðnum félagslegum eða læknisfræðilegum ástæðum. Félagslegu ástæðurnar geta verið fátækt, að skammt sé liðið frá síðasta barnsburði eða að kona geti ekki vegna æsku og þroskaleysis annast barnið á fullnægjandi hátt. Ef ástæðurnar eru aðrar þurfa þær að teljast fyllilega sambærilegar við þær fyrrgreindu.“
Enda þótt beiðnum kvenna um að komast í þessa aðgerð hafi ekki verið synjað í mörg ár, þá er niðurlægjandi að þurfa að ganga milli manna til að sækja um leyfi og þora jafnvel ekki annað en ljúga upp sennilegri ástæðu. Sumar konur óttast að hin rétta ástæða verði ekki tekin gild, þær verði konan sem er synjað um fóstureyðingu. Það ætti að vera nóg að kona óski eftir þessari aðgerð án frekari útskýringa og þar með sé það ákveðið. Auðvitað verður að gefa konum kost á að tala við félagsráðgjafa ef þær vilja en það ætti ekki að vera skylda.

En mér er ljúf skylda að draga enn einu sinni fram nokkra pistla sem ég hef skrifað um fóstureyðingar.

Helstu „röksemdir“ gegn fóstureyðingum - og ég svara hverri og einni röksemd en þær eru t.d. þessar:
- Að verið sé að drepa manneskju
- Að konur eigi að stunda ábyrgt kynlíf og ef þær gera það ekki eigi þær að taka afleiðingunum
- Að konur eigi ekki að stunda kynlíf nema þær vilji eignast börn
- Að konur verði að eignast fleiri börn vegna fólksfækkunar í heimalandi sínu/Evrópu
- Að konur noti fóstureyðingar sem getnaðarvörn
- Að konur fari oft í fóstureyðingu

Fóstureyðingar verða að vera löglegar
Hér minnist ég einmitt á það að fóstureyðingar eru hreint ekki frjálsar á Íslandi.

Takmarkanir á réttindum kvenna í Bandaríkjunum (þarna var Bush yngri enn forseti)
Hér velti ég m.a. upp þessari spurningu: Ef upp kæmi eldur á rannsóknarstofu og þú yrðir að velja milli þess að bjarga þriggja ára barni eða petriskál með tíu vikugömlum fósturvísum – hvort myndirðu velja?

Fóstureyðing eða ættleiðing
Það er í þessum pistli sem ég sagði það sem ég hef endurtekið oft síðan, ekki síst í tengslum við umræðu um staðgöngumæðrun:
„Konur eru ekki útungunarvélar. Ekki fyrir guð, eiginmanninn, móður sína (sem langar svo til að verða amma), ríkisstjórnina og lífeyrissjóðina (það vantar fleiri skattgreiðendur) eða ókunnugt barnlaust fólk útí bæ. Þær mega - og eiga að mega - eignast börn ef þær vilja og geta en vera lausar við þá kvöð sýnist þeim svo.“

Fóstureyðingar valda (ekki) ævilangri sektarkennd
Hér tala ég um viðhorf kvenna sem hafa farið í fóstureyðingu.

Allskonar konur fara í fóstureyðingu
Hér er annar pistill um konur sem fara í fóstureyðingu, viðhorf þeirra og hverjar þær eru:
„Þú þekkir líklega líka fjölda kvenna sem hafa farið í svona aðgerð, jafnvel þó þér hafi ekki verið sagt frá því.“

Helstu andstæðingar fóstureyðinga
Það eru einkum tveir hópar sem eru á móti fóstureyðingum: karlmenn og trúarofstækisfólk.
Helstu andstæðingar fóstureyðinga — karlmenn
Helstu andstæðingar fóstureyðinga — kaþólikkar
Hér fjalla ég sérstaklega um kaþólikka en segi jafnframt að „fjöldi ofsatrúarmanna bæði hér og í Bandaríkjunum úr ýmsum trúfélögum eru þeim innilega sammála.“ Pistillinn er reyndar skrifaður í tíð fyrri páfa og er að því leytinu úreltur.

Fóstureyðing — þegar guð drepur saklaus börn í móðurkviði
Hér fjalla ég um mismunandi viðhorf til fósturláts og fóstureyðinga.
„Málið virðist síður snúast um að allir fósturvísar eigi að verða að barni en meira um að konur eiga að hafa samviskubit vegna kynlífs sem þær stunda og hugsanlegra afleiðinga þess.“

Fóstur finna ekki til sársauka
Um rannsókn sem gerð var „og niðurstaðan er sú að sex mánaða fóstur finna ekki sársauka.“

Börn að ala upp börn
Örlítið annað sjónarhorn á umræðuna, rætt um fjölmarga ókosti þess að unglingsstelpur eignist börn. Tek samt fram að „mér finnst ekki að nokkur kona eigi að fara í fóstureyðingu fyrir þrýsting annarra, hversu gömul eða ung hún er. Mér finnst bara ekki heldur að það eigi að líta á það sem sjálfsagðan hlut að hver sem er valdi móðurhlutverkinu.“

Talandi um börn að ala upp börn.
„Amnesty International berst nú fyrir því að tíu ára gömul stúlka í Paragvæ fái að fara í fóstureyðingu. Samkvæmt lögum í Paragvæ má ekki eyða fóstri nema líf móðurinnar sé í hættu og segja þeir það ekki tilfellið í þessu máli.“
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem svona mál kemur upp í rammkaþólsku landi. Kaþólikkarnir einsog aðrir trúarofstækismenn leggja ofuráherslu á „virðingu fyrir lífi“ – en það á alltaf bara við um líf fóstursins. Virðingin fyrir lífi og limum tíu ára stúlku er engin.

Efnisorð: , , , ,