þriðjudagur, maí 05, 2015

Kalmansbrýning

Alveg var ég viss um að Jón Kalman væri orðinn vitlaus þegar ég sá yfirskrift greinar hans á Kjarnanum: „Tími Katrínar Jakobsdóttur er runninn upp – hvort sem henni líkar betur eða verr“. Mér fannst augljóst að Jón væri að taka undir óskir þeirra sem vilja fá Katrínu til að bjóða sig fram til embættis forseta Íslands. Ekki að Katrín yrði ekki góður forseti, hún yrði góð í því einsog öðru, en það er ekki embætti sem ég get ímyndað mér að hana langi til að sinna, a.m.k. ekki meðan hún hefur áhuga á að starfa í stjórnmálum. En grein Jóns Kalmans reyndist heldur ekkert vera á þeim nótunum, heldur fjallaði hún um sundrungu vinstri flokka. (Einhverntímann skrifaði ég pistil um það sama.) Mér létti mikið og var sammála Jóni í greiningu hans á orsökum sundrungarinnar og afleiðingum.

Það er ekki fyrr en undir lok greinarinnar sem skýrist hvað Jón Kalman á við með að tími Katrínar Jakobsdóttur sé kominn, en þar segir hann:
„Við getum annaðhvort haldið uppteknum hætti, gengið sundruð til næstu kosninga og þannig tryggt áframhaldandi misskiptingu. Eða fylkt okkur á bak við þann eina stjórnmálamann sem hefur getu og vinsældir til að leiða breiðfylkingu í anda R-listans: Katrínu Jakobsdóttur.“
Enda þótt ég vilji hafa Katrínu sem formann VG því sá flokkur höfðar prýðilega til mín þá finnst mér tillaga Jóns Kalmans áhugaverð. Hvort sem breiðfylkingin yrði til þannig að flokksmenn annarra flokka yfirgæfu þá fyrir VG og Katrínu, eða stofnaður yrði nýr flokkur undir forystu Katrínar, þá er brýnt verkefni að „hrifsa samfélagið úr járnklóm hagsmuna, nýfrjálshyggju og lýðskrumara“.

Eftir stendur spurningin hvort Katrín vill eða tekst að mynda breiðfylkingu á vinstri vængnum, og hvort það yrði til þess að loksins tækist að fá vinstri sinnað hugsjónafólk til að sjá heildarmyndina í stað þess að hleypa öllu í uppnám með því að neita málamiðlunum. „Ögmundar-syndromið“ hefur ekki verið farsælt hingað til.

Efnisorð: