föstudagur, apríl 24, 2015

Sýrland, flóttamenn og viðbrögð við ræðu

Í dag heyrði ég afar áhrifamikla ræðu Angelinu Jolie þar sem hún skammaði öryggisráð Sameinuðu þjóðanna fyrir að bregðast ekki við ástandinu í Sýrlandi og flóttamannavandanum í kjölfarið. Þegar ég fór að leita að skrifuðum texta ræðunnar, með það í huga að þýða hann, sá ég fréttir um viðbrögð sýrlenska sendiherrans við ræðu kvikmyndastjörnunnar. Hann sagði eingöngu: „Hún er falleg“.

Hér mætti skrifa langa ritgerð um karlrembu sendiherrans, vanda fagurra kvenna sem ekki ertu teknar alvarlega, eða um tilganginn með að fá frægt fólk til að vera erindrekar Sameinuðu þjóðanna ef orð þeirra falla í skuggann af frægð þeirra og glæsileika. Ég held að ég haldi mig samt við ræðu Angelinu Jolie og vanda flóttamanna, en úr því að ég finn ræðuna ekki í heild sinni læt ég mér nægja að púsla því saman sem ég finn ýmist á ensku eða íslensku í fjölmiðlum, vitandi þó að slík brot ná ekki slagkraftinum sem ég fann fyrir þegar ég hlustaði á flutning ræðunnar.

Úr frétt RÚV:
Hún sagði að það væri hlutverk samtakanna að koma í veg fyrir og binda enda á átök í heiminum, tengja ríki böndum, leita diplómatískra lausna og bjarga mannslífum. Í málefnum Sýrlands hefði það brugðist.

Ástandið þar hefði farið úr böndunum vegna deilna og ráðaleysis alþjóðasamfélagsins sem staðið hefði í vegi fyrir því að öryggisráðið gæti uppfyllt skyldur sínar.

Jolie hvatti til samstöðu til að leysa vandann og aukinnar aðstoðar við þær milljónir Sýrlendinga sem flúið hefðu til grannríkja. Það væri siðferðileg skylda að hjálpa þeim og veita þeim lagalegar úrlausnir.

Jolie sagði að hörmungarnar í Sýrlandi undirstrikuðu að alþjóðasamfélagið virtist ófært um að finna diplómatískar lausnir og afleiðingin væri að milljónir manna væru fastar í útlegð. Söguleg skilgreining á þessum hörmungum yrði ekki metin út frá þeim sjálfum heldur hvernig alþjóðasamfélagið hefði tekið á þeim.
„Það er hræðilegt að sjá þúsundir flóttamanna drukkna við þröskuld ríkustu heimsálfunnar. Enginn tekur slíka áhættu með börn sín nema vegna algjörrar örvæntingar.“ [CBS]

Ræða Angelinu Jolie er ekki það eina sem ég hef heyrt eða lesið í dag um málefni flóttamanna. Ég hvet fólk til að lesa fyrirtaksgóðan pistil Sifjar Sigmarsdóttur um „Landshornalýðinn“.

Efnisorð: , , ,