þriðjudagur, apríl 14, 2015

GT

Enda þótt ég vilji Reykjavíkurflugvöll burt er ég ósátt við að Valsmönnum sé gefið leyfi til að byrja að grafa við eina flugbrautina til að undirbúa byggð þar áður en Rögnunefndin hefur lokið störfum. Ég hef samt ekkert sérstaklega fylgst með fréttum af þessu brambolti Valsmanna fyrr en í dag að ég renndi yfir frétt á Vísi þar sem sagt var frá því að byrjað væri að grafa. Það sem vakti athygli mína var texti við myndina sem fylgdi fréttinni. Myndin er af gröfu að grafa og þar sem ég er ekki góð í ættrakningu skurðgrafa hefði ég ekki gefið henni gaum ef ekki hafði staðið undir myndinni: Skurðgrafa frá GT-verktökum mokar við Hlíðarenda í dag.

Þetta varð til þess að ég las allar fréttirnar á Vísi um þessar framkvæmdir og fann þá frétt þar sem kom fram að „fulltrúar Reykjavíkurborgar, Knattspyrnufélagsins Vals og Valsmanna hf. rituðu undir verksamninga við GT-verktaka um lagningu framkvæmdavegar að Hlíðarenda og sköpun vinnuaðstöðu“.

Fyrir alllöngu síðan fylgdist ég með fréttum af GT-verktökum og var talsvert upptekin af siðferði fyrirtækisins og eigenda þess (ég veit ekki til að fyrirtækið hafi skipt um eigendur, en vefsíða þess er óvirk og ég get hvorki sannað það né afsannað) og nú skal rifjað upp það sem auðveldast var að grípa úr fréttum um GT-verktaka á góðærisárunum, þegar peningar höfðu meira vægi en líf fólks og heilsa. GT-verktakar voru nefnilega meðal þeirra sem unnu við Kárahnjúkavirkjun, eða ölluheldur, höfðu hér erlent verkafólk á smánarlaunum sem var reynt að kúga eða múta til að halda kjafti þegar fyrirtækinu var stillt upp við vegg og láta það taka ábyrgð á launþegum sínum.

Elstu fréttirnar er frá 2005 þegar upp komst að GT-verktakar höfðu haft fjóra lettneska starfsmenn í vinnu við Kárahnjúka án tilskilinna atvinnuleyfa frá Vinnumálastofnun eða dvalarleyfa frá Útlendingastofnun.

Nokkru síðar sögðu forsvarsmenn GT- verktaka að fyrirtækið væri „lagt í einelti af yfirtrúnaðarmanni starfsmanna Kárahnjúka, Vinnumálastofnun og Verkalýðsfélögum“.
„Forsvarsmennirnir segja að þeim ofbjóði yfirlýsingar yfirtrúnaðarmannsins, Odds Friðrikssonar, í Fréttablaðinu í gær um aðbúnað tveggja lettneskra ríkisborgara sem átt hafi að starfa hjá fyrirtækinu. Mennirnir njóti sama aðbúnaðar og aðrir starfsmenn sem starfi á Kárahnjúkum.

„Við hjá GT verktökum teljum afskipti Odds yfirtrúnaðarmanns af fyrirtækinu vera orðin siðlaus og hafa skaðað fyrirtækið all verulega," segir í yfirlýsingu forsvarsmannanna. Alltaf sé talað um ólöglega starfsmenn þrátt fyrir að dómstólar hafi ekki skorið úr um hvort svo sé. Fyrirtækið telji sig hafa farið að lögum.“
Auðvitað vildu þeir vera taldir saklausir þar til sekt þeirra sannaðist, eins og sannir herramenn.

Nú spóla ég fram til ársins 2007 þegar rúta fór útaf í Fljótsdal rétt hjá Kárahnjúkum. Um þrjátíu menn voru í rútunni. Í frétt segir að „farþegarnir voru allir verkamenn hjá Verktakafyrirtækinu Arnarfelli sem byggja hraunaveitu í Jökulsá í Fljótsdal.“

En hvað kom í ljós?
„20 af þeim 29 mönnum sem lentu í bílslysinu á Bessastaðafjalli í Fljótsdal á sunnudaginn eru ekki skráðir löglega hér á landi, segir Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar. Gissur segir að ekki hafi verið greidd lögbundin gjöld af launum sumra þeirra á árinu. [E]igandi GT-verktaka segir að ráðningarsamningum fjögurra manna sem unnu hjá fyrirtækinu og lentu í slysinu hafi ekki verið skilað til Vinnumálastofnunar vegna sumarfría. „Þetta var bara smá seinagangur hjá okkur." [Hann] segir að ráðningarsamningum mannanna fjögurra við verktakafyrirtæki í Lettlandi, sem þeir eru samningsbundnir, verði skilað til Vinnumálastofnunar á næstu dögum.“
Arnarfell hefur þá greinilega verið í sama seinaganginum, en það var semsagt alveg óviljandi að allir þessir starfsmenn voru utan laga og reglna á landinu. Sem þýðir þá um leið að þeir gátu ekki sótt rétt sinn varðandi laun eða aðbúnað, og ekki átt rétt á sjúkraþjónustu.

Og síðar sama ár:
„Í tilkynningu frá starfsgreinafélagi Austurlands, AFL, er því haldið fram að starfsmenn GT verktaka hafi í morgun hótað verkamönnum sem unnið hafa fyrir fyritækið undanfarið. Í tilkynningunni er því haldið fram að starfsmenn GT verktaka, eða samstarfsaðila þeirra, hafi í morgun gengið á fund þrettán verkamanna sem hafa haldið því fram að hafa fengið of lág laun fyrir vinnu sína, og hótað þeim öllu illu þekkist þeir ekki tilboð um að fara úr landi. Þá er því einnig haldið fram að mönnunum hafi verið boðið vín og peningar til að láta framburði sína niður falla og halda úr landi.“

Hlynur Hallsson þáverandi varaþingmaður VG sagði í framhaldi af ofangreindu á bloggi sínu:
„Það er óhugnanlegt að horfa uppá þessa GT verktaka haga sér eins og verstu mafíubófa. En það er svo sem ekki langt í fyrirmyndirnar. Þessi þrælkun á erlendum verkamönnum hefur viðgengist árum saman upp á Kárahnjúkum og nú einnig íverktakabransanum í Borginni. Starfsmannaleigur er orðið dulnefni fyrir þrælahald.“

GT-verktakar voru ekkert einir um þetta. En árið 2008 voru þeir (eða öllu heldur Nordic Construction Line sem var lettneskt skúffufyrirtæki eigendanna) þó dæmdir til að greiða 12 fyrrverandi starfsmönnum sínum laun á uppsagnarfresti og önnur vangoldin laun.
„Brotin fólu meðal annars í sér að starfsmenn voru látnir kvitta fyrir móttöku hærri launa en þeir í raun fengu og féllst héraðsdómur á málatilbúnað starfsmannanna hvað þetta atriði varðar.
Greiðslur sem NCL var dæmt til að greiða nú voru alls að upphæð um 3,5 milljónir en áður hafði GT / NCL viðurkennt greiðsluskyldu sína að upphæð 4,3 milljónir og greitt. Það voru því alls um 8 milljónir króna sem málið snerist um þrátt fyrir að mennirnir hafi aðeins verið við störf hér í skamman tíma.“

Einhvernveginn hefði ég ekki haldið að menn — þá á ég við borgarstjórn, hafi hún einhverju ráðið um hverjir voru fengnir til verksins, en aðallega Valsmenn — væru svo skyni skroppnir að þeir fengju svo umdeilt fyrirtæki til að grafa svo umdeildar holur fyrir svo umdeilda íbúðabyggð.

En auðvitað skiptir siðferðið engu í byggingabransanum nú frekar en fyrri daginn. Viðskiptavinir eru eflaust í röðum hjá GT verktökum.

Efnisorð: , , , ,