föstudagur, apríl 03, 2015

Tíðablæðingar, brjóstagjafir og líkamshár

Listakonan Rupi Kaur birti mynd af sér á Instagram þar sem sést örlítið af tíðablóði hennar. Myndin var fjarlægð þar eð hún taldist brjóta í bága við reglur Instagram. Svo fékk hún auðvitað sinn skammt af morðhótunum.*

Bandaríska blaðakonan Jessica Valenti hefur í framhaldi af þessu skrifað grein þar sem hún ræðir viðhorfin að baki því að samfélagsmiðlar hafna tíðablæðingum, brjóstagjöfum og myndum af fáklæddum konum ef þær eru ekki með nægilega grannan líkamsvöxt, en leyfa myndir af fáklæddum konum, kvenrössum og lítt huldum kynfærum svo framarlega sem þessir líkamspartar eru hárlausir.

Mér finnst þessi umræða um myndina af Rupi Kaur tengjast meira en lítið atburðum og umræðum hér á landi. Grein Jessicu Valenti (ég vara þau sem vilja lesa greinina við fáviskunni í athugasemdakerfinu) heitir „Samfélagsmiðlar verja karlmenn fyrir tíðablæðingum, brjóstamjólk og líkamshárum“.

Hér á eftir fer örlítill bútur úr greininni (sem ég þýddi lauslega):
„Það er í erfitt að ímynda sér að það séu konur sem móðgast við að sjá myndir af brjóstagjöf, ósnyrtum kynfærahárum eða tíðablóði – það er hversdagslegt fyrir okkur flestum. Það eru karlmenn sem þessir risastóru samfélagsmiðlar eru að „verja“ — karlmenn sem hafa alist upp við sótthreinsaðar og kynferðislegar myndir af kvenlíkömum. Afþreyingarmenningin, auglýsingarnar og þessháttar hafa talið karlmönnum trú um að kvenlíkaminn sé þarna bara fyrir þá. Og ef þeir þurfa að þola að sjá konur sem eru öðruvísi en grannar, hárlausar og tilbúnar í kynlíf - þá þarf að sækja fyrir þá ilmsaltið.“

Við sjáum þetta endurspeglast hér á landi í skammarræðum sem margir karlmenn, yfirleitt ungir að árum, skrifa við myndir af konum sem tóku þátt í brjóstabyltingunni.

___
* Þeir sem voga sér að skoða myndina af Rupi Kaur mega búast við að fyllast morðæði, viðkvæmum er bent á að smella ekki hér.

Efnisorð: , ,